Skírnir - 01.01.1982, Síða 29
SKÍRNIR
TRÖLLASAGA BÁRÐDÆLA
27
fjón, sbr. -an: -un í kvk.-orðum.37 Þar sem ekkert bendir til að
umræddar vísur séu ortar vegna sögunnar hníga líkur að því að
þær séu meðal heimilda hennar, og Grettir sé þar kominn í hlut-
verk sitt þótt hans sé ekki getið með nafni. En undir það rennir
sagan sjálf styrkari stoðum svo sem nú skal greina.
í 65. kap., þegar lokið er frásögn af skessunni og þess hefur
verið getið að jól væru liðin, kemur eftirfarandi athugasemd,
dálítið síðbúin enda óþörf sögusamhenginu:
Þetta er sögn Grettis, at tröllkonan steypðisk x gljúfrin niðr, er hon fekk
sárit, en Bárðardalsmenn segja, at hana dagaði uppi, þá er þau glímðu,
ok sprungit (ok spryngi 10), þá at (þá er 152, 10) hann hjó af henni höndina,
ok standi þar enn í konulíking á bjarginu.
Þessi efnisgrein stendur í báðum handritaflokkum Grettlu svo
að lieimildarlaust væri að ætla hana innskot skrifara. Við hljót-
um því að gera ráð fyrir návist söguritarans hér og álykta að
hann hafi vitað að um viðureign Grettis og skessunnar fór tveim
sögum. Það lýsir einmitt trúleik hans við heimildir sínar að
hann heldur báðum til skila þótt hann kjósi að styðjast fremur
við þá sem hann kallar „sögn Grettis“. En af hinni sögninni, sem
hann ber Bárðardalsmenn fyrir, er ótvírætt að reikisögnin gamla
hefur þá verið búin að nema land þar í dalnum. Ýmsir (F.
Panzer, H. Dehmer og Guðni Jónsson) hafa verið þeirrar skoð-
unar að bárðdælska sögnin sé eldri en hin, og má vel vera að
frásögn Grettlu sé að einhverju leyti sniðin eftir henni, sbr.
orðin: „Alla nóttina sóttusk þau.“ Enda þótt menn þekki nú
nátttröll best úr þjóðsögum síðari tíma eru hugmyndir um þau
ævagamlar á Norðurlöndum.38 Hitt er annað mál að hún bend-
ir til einhvers annars staðar en gilsins í Eyjardalsá sem raunar
er að flestu leyti ónothæft svið fyrir þá sýningu sem sagan fær-
ir upp, m. a. vantar nátttröllið. En um það hefur Grettluhöf-
undur ekki vitað því að ýmislegt í sögu hans sýnir að hann hef-
ur verið ókunnugur í Bárðardal og raunar víðar á austanverðu
Norðurlandi.89 Á hinn bóginn nær öngri átt að Bárðdælir hefðu
flaskað á slíku. Til þess að saga um nátttröll myndist þarf
steindrang. Sennilega er hér að finna eina af orsökum þess að
menn þar um slóðir hafa viljað sviðsetja söguna við Goðafoss
því að á gljúfurbarmi fljótsins rétt fyrir neðan hann getur að