Skírnir - 01.01.1982, Page 53
HELGI ÞORLÁKSSON
Rómarvald og kirkjugoðar
i
„Heyra má ég erkibiskups boðskap, en ráðinn er ég í að halda
hann að engu.“ Svo á að hafa mælt Jón Loftsson forðum daga
(1179) og hefur þetta svar löngum yljað okkur íslendingum. Við
höfum dáðst að því hversu skörulega hinn innlendi höfðingi
svaraði kröfum erlendra kirkjuvaldsmanna og fulltrúa þeirra,
Þorláks biskups. Svona á að snúast við erlendum afskiptum,
segja menn og skrifa, og einhver hefur ritað ,,bravó“ við svar
Jóns í eintak biskupasagna á Háskólabókasafni.
Þorlákur biskup krafðist forræðis kirknafjár að boði Eysteins
erkibiskups og var sú krafa studd af páfa. Hvernig ætlaði Jón sér
að verjast báðum, erkibiskupi og páfa? Getur verið að barátta
Færeyingsins fræga, Sverris Sigurðssonar í Noregi, hafi verið
Oddaverjanum hvati? Erkibiskup hafði flúið Niðarós undan
Sverri árið áður, 1178, og Þorlákur varð að rifa seglin þegar erki-
biskup flúði til Englands árið eftir, 1180.
Guðmundur prestur Arason (Gvendur góði) var vígður til
biskups árið 1203 og bar fram eina helstu kröfu kirkjuvalds-
manna um dómsvald kirkju yfir klerkum. Urðu harkalegir
árekstrar milli hans og helstu veraldarhöfðingja á íslandi (goða)
og hefur Jón Jóhannesson lýst afstöðu íslenskra, bæði verald-
legra og biskupa fyrir daga Guðmundar og Þorláks, sem mótaðri
stefnu og nefnt hana hina „þjóðlegu kirkjustefnu".1 Þykir mér
við eiga að fara um það fáeinum orðum í hverju hinar mismun-
andi stefnur voru eða eiga að hafa verið ólíkar.
Hin erlenda kirkjuvaldsstefna birtist í kröfum um að kirkjan
skyldi ráða eigum sínum, skipa embættismenn sína, setja lög í
kirkjulegum efnum og hafa dómsvald í málum klerka og kirkna.