Skírnir - 01.01.1982, Blaðsíða 89
SK.ÍRNIR
GLAPSTÍGIR OG GANGSTÍGIR
87
í fræðilegum kenningum um markaðsbúskap og samkeppni
(nýklassískri hagfræði) var lengi vel litið fram hjá þeim kostnaði
og ábata sem fylgir söfnun upplýsinga um verð og gœði vöru
og þjónustu, og til einföldunar var byggt á þeirri forsendu að
öll nauðsynleg vitneskja væri til staðar er menn tækju ákvarðan-
ir um framboð og eftirspurn. Er kenningum um upplýsingaleit
var bætt við fræðin kom á daginn að ýmsar hefðbundnar niður-
stöður héldu ekki lengur, svo sem að á frjálsum markaði væri
vöruverð hið sama alls staðar en ekki breytilegt frá einum selj-
anda til annars. Einnig mátti nú eiga von á atvinnuleysi á frjáls-
um vinnumarkaði enda þótt framboð og eftirspurn væru í jafn-
vægi.3 Hinar nýju niðurstöður breyta þó engu um það, að ekki
þekkist hagkvæmari aðferð en markaðsbúskapur til að safna
upplýsingum um óskir neytenda og ódýrustu framleiðsluað-
ferðirnar, en þessi fróðleikur berst með verðmyndun á frjálsum
mörkuðum.
Undir miðstjórn er leitarkostnaður ráðamanna gífurlega mik-
ill. Fráleitt er að ætla sér að safna upplýsingum um óskir og
þarfir allra heimila í landinu. Áætlanastjórar hafa yfirleitt farið
þá leið að ákveða sjálfir hvað framleitt skuli af neysluvarningi,
en við þá ákvörðun hefur oft verið tekið mið af neysluvenjum í
öðrum löndum, þar sem rekinn er markaðsbúskapur, eða af
neyslumunstrinu innanlands fyrir daga þjóðnýtingarinnar. Enda
þótt verð sé sett á vöru og þjónustu í miðstjórnarríkjum er sú
verðlagning út í hött, og ráðamenn vita raunverulega ekki hvað
framleiðsla þeirra kostar. Það er því úr vöndu að ráða, til dæm-
is, þegar innlend framleiðsla er flutt út, en í þeim viðskiptum
hefur verið stuðst við verð á heimsmarkaði og þannig komið í
veg fyrir að áætlanastjórarnir snuði sjálfa sig.
Vandinn við að velja afkastamiklar framleiðsluaðferðir hefur
reynst minni en sá að leita uppi óskir neytenda, enda hefur elsta
áætlanalandið, Ráðstjórnarríkin, náð svo langt að verða annað
af tveimur mestu iðnaðar- og hernaðarstórveldum heims. Rétt er
að hafa í huga að hin stórbrotna framleiðslutækni hefur að
mestu leyti verið flutt inn frá Vesturlöndum, enda er sú skoðun
afar algeng meðal vestrænna hagfræðinga að Ráðstjórnarríkin
geti ekki að óbreyttu skipulagi gengið á undan öðrum þjóðum