Skírnir - 01.01.1982, Page 94
92
ÞRÁINN EGGERTSSON
SKÍRNIR
að menn gleyptu Laffer hráan í stað þess að hlæja að honum.
Ekki er því að neita að þungir skattar geta sligað menn, en kenn-
ing Laffers var ekki byggð á vísindalegri rannsókn á skattkerfi
landsins; hún var hugdetta sem passaði í kramið hjá þeim sem
voru leiðir á sköttunum sínum, nokkrum áhugamönnum um
eigin frama og trúfólki af ýmsu tagi.10
Eins og mörgum er kunnugt hefur munnþurrkukenningin ver-
ið leiðarstjarna Bandaríkjastjórnar undanfarin tvö ár með þeim
afleiðingum að ríkissjóður er rekinn með gífurlegum halla. En
allt tekur enda. Einn fréttaritari stórblaðsins New York Times
í Washingtonborg segir í frétt, sem dagsett er seint í júlí 1982,
að nær allir Laffer-hagfræðingar sem störfuðu í stjórnarráðinu
séu fallnir í ónáð og farnir úr bænum og stefnubreyting sé í að-
sigi. Hin breyttu viðhorf munu hins vegar hafa styggt ýmsa
frjálshyggjumenn, að sögn fréttamannsins, og hann vitnar því til
sönnunar í blað eða rit sem einn hópur þeirra gefur út, en þar
mun hafa staðið svart á hvítu að Reagan forseti sé lítið annað en
varða á veginum til ánauðar.11
En víkjum aftur að þeim Ólafi og Jónasi. Ég er smeykur um
það að Friðrik Hayek yrði mátulega hrifinn af bókum þeirra,
sem hér eru til umsagnar, og mundi telja þá seka um hálfgert
miðjumoð. Á sviði framleiðslu bera þeir félagar að vísu lireinan
skjöld: þeir eru ákafir fylgismenn ótruflaðs markaðsbúskapar,
hafa megna andúð á hvers konar haftakerfi og telja það helsta
hlutverk stjórnmálamanna að setja almennar umferðarreglur
fyrir atvinnulífið. Öðru máli gegnir þegar sagan berst að útdeil-
ingu þjóðarframleiðslunnar. Hayek hefur, eins og áður greindi,
snúist öndverður gegn velferðarþjóðfélaginu í nær öllum þess
myndum og álítur, meðal annars, að ekki sé rökrétt að tala um
það hvort kjör manna séu réttlát eða ranglát. Ólafur Björnsson
segir hins vegar:
Enginn ágreiningur er um það, að siðmenningarþjóðfélagi ber að tryggja
ölium borgurum sínum, sem ckki geta séð sér farborða sjálfir, lágmarkslífs-
kjör......Hverjar bætur greiddar eru öðrum, verður svo háð stjórnmála-
legu mati. Ef bótagreiðslur eiga ekki að hafa óheppileg áhrif á framleiðslu-
afköst, mega þær alls ekki vera það háar, að verulega dragi úr hvöt manna
til að afla sér annarra tekna en bóta.12