Skírnir - 01.01.1982, Page 100
98
ÞRÁINN EGGERTSSON
SKÍRNIR
það, að frjálsir markaðir vinni nær öll verk betur en opinberir
aðilar, og þeir segjast trúa á einstaklinginn og álíta að hann sé
fær um að velja besta og ódýrasta kostinn. En þá vaknar sú
spurning hvers vegna skynsamir og frjálsir menn í lýðræðisríki
hafa valið villigötur velferðarríkisins, hvers vegna þeir fóru yfir
mörkin. Sú skýring sem oft heyrist, að almenningur hafi látið
blekkjast af áróðri stjórnmálamanna, er í mótsögn við þá hyggju
og rökfestu sem liagfræðikenningarnar eigna honum. Djúpt
þenkjandi frjálshyggjuhagfræðingar hafa þó áttað sig á þessari
þversögn og gert ýmsar tilraunir til að leysa vandann. Ein leið
sem farin hefur verið er sú að auka nýjum markaði við kenning-
arnar, markaði stjórnmálanna: sagt er að einstaklingar leitist
við að bæta hag sinn á vinnumarkaði, vöru- og þjónustumarkaði
og loks á markaði stjórnmálanna eftir því sem tækifæri gefast.
Á hinum síðastnefnda markaði gegna stjórnmálamenn hliðstæðu
hlutverki og fyrirtæki eða framkvæmdamenn á öðrum mörkuð-
um, þeir safna pólitískum auði og leitast við að hámarka áhrif
sín og völd.19
Sú skoðun er fremur algeng hjá ýmsu velviljuðu fólki að mörg
eða jafnvel flest mál megi færa á betri veg með því að flytja
ákvarðanir um þau úr viðskiptalífinu yfir á vettvang stjórn-
málanna, vegna þess að þar víki viðhorf gróðabrallara fyrir
þjóðarhag og vísindalegum vinnubrögðum. Kenningar um
markað stjórnmálanna eigna stjórnmálamönnum og kjósendum
þeirra önnur sjónarmið. Það má nefna innlent dæmi: Togara-
floti íslendinga er nú almennt talinn vera um helmingi of stór
frá hagkvæmnissjónarmiði. Yfirvöld hafa í orði síðastliðin tíu ár
leitast við að stöðva frekari togarakaup en á borði látið þau við-
gangast og jafnvel hvatt til þeirra með hagstæðum lánskjörum.
Auðvelt er að útskýra (með aðstoð auðlinda- og fiskihagfræði)
hvers vegna ásókn útgerðarmanna í ný skip er í samræmi við eig-
in hagsmuni en ekki við þjóðarhag í þessu tilviki. Atferli stjórn-
málamannanna er hins vegar óskiljanlegt og ekki í samræmi við
rökrétta hugsun, ef á þá er litið sem einhvers konar þjóðhags-
tölvu er reiknar út hvað þjóðinni sé fyrir bestu. Kenningar um
markað stjórnmálanna og pólitíska auðsöfnun virðast vænlegri
til árangurs, enda þótt þær séu komnar skammt á veg.