Skírnir - 01.01.1982, Page 112
110
GUNNAR STEFÁNSSON
SKÍRNIR
Skáldin sem næst fara atómskáldunum, í kjölfar formbylting-
ar, njóta með ýmsu móti góðs af því starfi sem fólst í að losa um
hömlur ljóðmálsins. Frjálsræðið sem eftirkomendum var gefið
má auðvitað sjá í samhengi við það frjálsræði sem kynslóðinni
eftir stríð veittist: nú voru allir vegir færir, veröldin opin. Þessi
andi kemur ef til vill hvergi glöggvar fram en hjá Matthíasi
Johannessen. Hann hefur verið einn umsvifamesti höfundur
sinnar kynslóðar. Tveggja bakka veður, hin stóra ljóðabók í
fyrra, er tíunda ljóðasafn hans, auk fjölda bóka í lausu máli.
Ef litið er til lærifeðra Matthíasar meðal íslenskra skálda, fyr-
irmynda að stíl hans, virðist fordæmi Jóns úr Vör hafa skipt
mestu. í spor Jóns fer Matthías þó ekki og fjarri því að hann
þræði „einstigið“ fræga sem Steinn nefndi. Skapsmunir Matthí-
asar eru ekki tamdir við þá jafnvægiskúnst. Hér kemur líka til
ólíkur tími, ólíkur uppruni: Jón sprottinn úr þorpi kreppunn-
ar, Matthías úr velsældarsamfélagi reykvískra borgara. Hann
þarf á víðum leikvelli að halda, stíll hans er umfangsmikill,
margorður, lausbeislaður, einatt hömlulítill. Hann er borinn
uppi af óþoli, sérkennilegri tegund af áræði þar sem skáldið
leggur sjálft sig í sífellu undir. Sem dæmi um þetta má taka
næstsíðustu bók Matthíasar sem mér þykir eitt skemmtilegasta
verk hans, Morgunn í maí, 1978, minningaljóð frá bernskudög-
um á stríðsárum.
Tveggja bakka veður er í ekki færri en fimmtán köflum, efni-
viðurinn sundurleitur: ferðamyndir, ástaljóð, kvæði í minningu
einstakra manna, allt frá John Lennon til Páls ísólfssonar. Ljóð-
stíll Matthíasar er sjálfum sér líkur. Bókin sýnir málflæði og
myndauðgi skáldsins, þá aðferð að endurtaka sömu myndir í
nýjum tilbrigðum. Stíllinn er enn misjafn, fellur öðru hverju
niður á flatneskju, mælskan hverfist í mælgi. Allt er þetta part-
ur af lífi ljóðanna. Og ekki er vafi að Matthías nær æ betri tök-
um á íþrótt sinni. 1 Tveggja bakka veðri er komin til sögunnar
ný spenna. Það eru dýpri tónar í bókinni; til mótvægis við
óþolið, hraðann, kemur vitundin um nálægt haust, gustur þess
hríslast um ljóðin, skerpir þá lífsnautn sem þau túlka. Þau eru
flest lengri en svo að hægt sé að tilfæra. Tökum Degi hallar: