Skírnir - 01.01.1982, Page 113
SKÍRNIR
111
ER SKÁLDIÐ SJÁLFSSALI?
Hálfnuð er ævin,
það er ágúst.
Fuglar flögra í lauffingrum
trjánna.
Haust í nánd,
sól Iækkar á himni,
kulsvart myrkur
styttir daginn,
og laufið fellur.
Fyrirheit er æskan,
þessi óslitni júnídagur
þegar jónsmessudraumurinn
fer léttbærum eldi um minninguna.
Minningin
endurskin þeirra
sem fóru án þess að kveðja:
þetta tunglskin
ævikvöldsins.
Það er örðugt að marka Kristjáni Karlssyni bás meðal ljóð-
skálda ársins. Hann gaf út aðra bók sína í fyrra, Kveeði 81, hin
fyrri, Kvceði, kom 1976. Kristján nálgast Ijóðlistina á annan hátt
en flest skáld vor og hér skiptir spurningin um háttfrjálst ljóð
eða hefðbundið ekki máli. Það er afstaða skáldsins til hugmynda
sem er ný. Ég veit ekki hvort má líta svo á að Kristján vilji fylgja
eftir í verki þeirri skoðun sem hann setti fram í formála að
fimmta bindi íslenzks Ijóðasafns (Þýðingar): „. . . ég sé ekki
betur en hinn nýjasti skáldskapur vor sé að einfaldast um of og
að nú væri þörf á samsettari ljóðagerð en tíðkast.“
Hvað sem þessu líður eru ljóð Kristjáns Karlssonar samsett,
full af undirhyggju, dulum skírskotunum, ábúðarmiklum hú-
mor, hálfkæringi sem einatt getur verið örðugt að ráða í. Séu
þau torskilin og margræð þá er það aðferð skáldsins, vitsmuna-
legt sjónarhorn hans. Einkenni stílsins er fyrirvarinn, andstaðan
gegn því að festast í ákveðnu hugmyndafari. Einfalt og skemmti-
lega er þetta fram sett í fyrsta ljóði flokksins Við Viðeyjarsund: