Skírnir - 01.01.1982, Síða 118
116
GUNNAR STEFÁNSSON
SKÍRNIR
Þarna er á ferð ný kynslóð sem hafnar þeirri náttúrulýi'ík sem
sett hefur svip á ljóðagerðina fram til þessa. Jafnvel atómskáld-
in, önnur en Hannes Sigfússon og Sigfús Daðason, gengu undir
hið sama jarðarmen þótt þau teldu sig í uppreisn gegn ofríki
hefðarinnar. En síðan hefur borgarsamfélagi vaxið ásmegin hér
sem annars staðar. Nútímamaðurinn hefur rofið líftengsl sín við
náttúruna, og náttúrudýrkun í samtímalist er í rauninni aðeins
hálmstrá, uppbót fyrir malbikið. Líf nútímaljóða, hins eiginlega
móderníska skáldskapar, sprettur af vitundinni um þau tragísku
rof sem orðin eru milli manns og náttúru: það verður engin brú
byggð sem liggi til baka. Þetta markar skáldskap þeirra sem nú
eru á miðjum aldri og þar yfir og máli skipta í bókmenntunum.
En nú erum við ef til vill þar komin í „menningarþróuninni“
að ekki verði lengur reynt að halda í hugsýnina um samhengi,
hrynjanai manns og náttúru. Lífsfirring borgarmenningar er
þá orðin sjálfsagður hlutur, andófi lokið, dýr og jurtir aðeins í
frystihólfum stórverslana, eins og Einar Már segir. Þá er orðin
grundvallarbreyting á hugmyndalífi skáldskaparins, svæfð vit-
undin um villu nútímamannsins, „útlegð hans frá hlutunum“
sem Hannes Pétursson kvað (Útlegðin, Stimd og staðir). Spurn-
ingin er: hvað mun næra skáldskapinn þegar skorið er á þessa
taug, slaknar þessi spenna milli raunveru og hugsýnar?
í ljóðabókum ársins 1981 eru þannig á kreiki margvíslegir
svipir. Allir eru þeir með sínum hætti hluti samtíðarinnar. Samt
sjáum við í hnotskurn hvað gerst hefur og er að gerast í ljóða-
gerðinni. Endurómar nýrómantískunnar deyja út. Ættjarðarljóð
í anda sjálfstæðisbaráttunnar verða ekki lengur ort; þau runnu
skeið sitt á enda með lýðveldishátíðarljóðum Huldu og Jóhann-
esar úr Kötlum. Sú ljóðlist sem næstu árin spratt af andófi gegn
hersetu í landinu og aðild að Atlantshafsbandalaginu var raun-
ar af sömu þjóðernishyggjurótum runnin. Úrval þeirra ljóða er
að finna í bókinni Svo frjáls vertu móðir sem Kristinn E. Andrés-
son tók saman 1954. En nú voru tímar breyttir; vegna pólitísks
klofnings varð ættjarðarljóðið ekki einingartákn landsmanna
eins og áður, og verður það vafalaust aldrei framar. Þjóðin var
ekki lengur samstiga eins og hún virtist a. m. k. fyrrum, hver sem
raunveruleikinn var. Sundrung og togstreita magnaðist.