Skírnir - 01.01.1982, Side 126
124 JÓN HNEFILL AÐALSTEINSSON SKIRNIR
Orðabók Menningarsjóðs sem fræðigrein um upphaf, þróun
og áhrif þjóðsagna. Tilvísunartákn segir, að þessi fræðigrein til-
heyri bókmenntafræði.22 Er þar augljóslega um aðra merkingu
að ræða en Jónas Jónasson leggur í þetta hugtak. í Orðabók Jóns
Ófeigssonar er hins vegar að finna sömu merkingu þessa hug-
taks og fyrir ber hjá Jónasi.23 Sú gagnrýni hefur stundum heyrst,
að þjóðsagnafræði geti ekki tekið til allra þátta andlegrar menn-
ingar, því að t. a. m. geti gátur, talshættir og þjóðkvæði ekki tal-
ist hluti af þjóðsagnafræðilegum viðfangsefnum. Þessar skoðan-
ir eru ef til vill að einhverju leyti mótaðar af skilgreiningu Orða-
bókar Menningarsjóðs á hugtakinu, en ef til vill mótaðar af
formlegum og bókmenntalegum flokkunarviðhorfum. Frá þjóð-
fræðilegu sjónarmiði er hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að
þjóðsagnafræðingur fjalli um alla þætti andlegrar menningar,
því að allir geyma þessir þættir þjóðsagnaefni eða hafa orðið
fyrir áhrifum af því. Þjóðsagnafræði er því vel nothæft orð og
ekkert sem hindrar að það sé haft um hluta af viðfangsefnum
þjóðfræðinnar. Að því leyti sem tekið er tillit til formsins má þó
einnig nota annað orð, sem stundum hefur verið gripið til á síð-
ustu árum hérlendis, orðið þjóðmenntir. Þjóðmenntir er þá not-
að sem samheiti um helstu flokka bundins og óbundins máls
munnlegrar geymdar, svo sem þjóðkvæði, þjóðsögur og sagnir,
þjóðlög o. fl. Þjóðlistir geta einnig fallið undir þetta hugtak að
því leyti sem ekki er um framkvæmd að ræða eða sérstakan flutn-
ing listarinnar.
Þjóðhœttir er hugtak sem nokkuð lengi hefur verið notað hér
á landi um verkmenningu og hinar efnislegu forsendur mann-
lífsins, vinnubrögð og verkfæri sem brúkuð voru til lands og
sjávar, tækni- og verkkunnáttu við dagleg störf og við húsa-, mat-
ar- og klæðagerð.24 Þegar fræðilega er fjallað um þjóðhættina,
má vel tala um þjóðháttafræði eins og stundum hefur heyrst á
síðustu árum, en einnig má láta nægja að tala um þjóðfræði og
fjalla um þjóðhættina sem eitt af viðfangsefnum hennar. Er slík
málnotkun að mörgu leyti vafningaminnst.
Þjóðlíf er þriðja greinin á meiði þjóðfræðinnar, grein sem í
auknum mæli hefur verið fjallað um á síðustu árum á hinum
Norðurlöndunum. Orðið þjóðlíf er þá notað um félagsmenn-