Skírnir - 01.01.1982, Page 144
142 SIGURÐUR BJARNASON SKIRNIR
þó að nokkurra efasemda hafi verið tekið að gæta. Af Jakob
þessum lærði hann „fyrst hvað fríþenkjari þýddi“.
Svo virðist sem Matthías hafi ekki kosið prestaskólanámið
vegna trúarsannfæringar heldur hafi hann séð sig til neyddan.
Um þessar mundir hafði hann fastnað sér stúlku, Elínu Sigríði
Knudsen. Móðir hennar var ekkja og umkomulítil og valdi
Matthías prestsnámið fyrir orð þeirra mæðgna enda var honum
óljúft að þiggja framar annarra hjálp og fé. Segist Matthías mjög
hafa verið á vegamótum um þessar mundir enda greinir hann
skömmu síðar frá því að hann hafi átt í harðri innri baráttu um
það leyti er hann vígðist til Kjalarnesþinga, fann að hann var
„ekki rétttrúaður eftir bókstaf fræðanna .. .“3
Sá tími sem Matthías var prestur á Kjalarnesi reyndist honum
afdrifaríkur í trúarlegum skilningi. Hann missti tvær eiginkon-
ur með stuttu millibili, fyrst Elínu Sigríði Knudsen og stuttu
síðar Ingveldi Ólafsdóttur, dóttur Ólafs E. Johnsens prófasts að
Stað á Reykjanesi. Var Matthías að vonum miklum harmi sleg-
inn við atburði þessa og komu þeir miklu róti á sálarlíf hans.
í önnum prestsstarfsins hafði lægt öldur efasemdanna en nú
vaknaði efinn með nýju afli. Einkum hrjáðu hann efasemdir um
ódauðleikann.4 Leiddi þessi hugarkvöl til þess að hann hugleiddi
það að hætta prestsskap. En áður en það yrði hélt Matthías utan
og ferðaðist (1871—72) um England og Norðurlönd til að dreifa
huganum frá sorginni. Þá og líka fyrr kynntist hann ýmsum and-
ans mönnum bæði persónulega og af bókum.
Frá því að Matthías missti Elínu lagði hann mjög stund á að
kynna sér rit W. E. Channings, amerísks únitara og guðfræðings
(d. 1842), og virðist hann hafa haft mest áhrif á Matthías allra
guðfræðinga. Um dvöl sína í Kaupmannahöfn þennan vetur
(1871—72) segir hann:
Veturinn sem ég var í Höfn breyttust mjög heimshugmyndir mínar og trúar-
skoðanir. Ég hafði þá kynst Channing, Th. Parker o. fl., en líka lesið Grunt-
vig gamla með lífi og sál. Og sama vetur kom Georg Brandes fyrst algerlega
fram á skoðunarsviðið. Þessir, og enn fleiri höfundar, skiftu mér andlega
milli sín, en engan virti ég eða trúði á til fulls, nema W. E. Channing; hann
hefur mér til þessa dags þótt beztur allra guðfræðinga.5