Skírnir - 01.01.1982, Side 184
182
HEIMIR ÞORLEIFSSON
SKÍRNIR
ar. — Leiðbeiningar um rannsóknartækni og ritgerðavinnu í sagnfræði. (Rvík
1982). Þar segir: „Á sama hátt væri tæpast mikill fræðilegur fengur að BA-
ritgerð sem fjallaði vítt og breitt um skútuöldina á íslandi af því að við
höfum þegar fimm binda fræðirit um hana.“ (13. bls.). Neðanmáls segir, að
hér sé átt við Skútuöldina.
Á síðasta ári kom út ritið Togaraöldin eftir Gils Guðmundsson, og um
hana skal hér fjallað. Að óreyndu gætu menn búizt við, að hér væri um
hliðstætt verk að ræða við Skútuöldina, efnistök og meðferð heimilda að
nokkru fræðileg en að nokkru í anda alþýðlegra frásagna. En því fer víðs
fjarri, að svo sé. Að loknum lestri skal fullyrt, að enginn fræðilegur metnað-
ur er lagður í þetta nýja verk. Það flokkast undir alþýðlegan fróðleik, sem
unninn er upp úr ýmsum ritum. Þetta hefði útgefandi átt að kynna væntan-
legum lesendum, en ekki auglýsa ritið með stórkarlalegum ummælum um
fræðileg nýmæli. Það er raunar ekki aðeins, að nafnið Togaraöldin minni
á Skútuöldina. Höfundur getur þessarar fyrri bókar sinnar í formála og segir:
Á fimmta tug þessarar aldar, um það leyti sem ég lauk við rit mitt
Skútuöldina, varð það að ráði að ég hæfist handa um efnisöflun og
skráningu hliðstæðs rits um sögu íslenskrar togaraútgerðar. Vann ég
allmikið að því verki næstu árin, en ýmis atvik ollu því að ég lagði
það til hliðar og lauk þvi ekki þá. Ástæðan til þess að ég tek nú upp
þráðinn að nýju er einkum sú, að með viðtölum við ýmsa braut-
ryðjendur á sviði togveiða og útgerðar, hafði ég safnað að mér tölu-
verðu efni, sem mikils var um vert og átti tvímælalaust rétt á þvi að
koma fyrir almenningssjónir.
Við lestur þessa fyrsta bindis Togaraaldarinnar, Stórveldismenn og kotkarl-
ar, verður þess hvergi vart, að höfundur hafi rætt við „brautryðjendur á
sviði togveiða og útgerðar". Yfirleitt verður þess ákaflega lítið vart, að höf-
undur styðjist við munnlegar heimildir í bók sinni. Ég minnist raunar að-
eins einnar ófeðraðar sögu um íslending, sem á að hafa leitt Breta í ógöngur
við veiðar í Faxaflóa (bls. 15—16). Nú má vera, að höfundur eigi eftir að
nota þessar munnlegu heimildir sínar, sem hann segist hafa safnað á 5. ára-
tugnum. Þær hljóta þá að birtast í næsta bindi, sem fjalla skal um tíma-
bilið frá 1904 og fram á árin milli stríða.
Togaraöldin 1 er 224 blaðsíður að lengd í stóru broti tveggja dálka og
þvx tæpir 450 dálkar alls. Af þeim eru u.þ.b. 240 lesmálsdálkar, en 210
dálkar eru með myndum. Af lesmálsdálkunum virðist mér sem 90—100 séu
samdir af Gils Guðmundssyni, og mynda þeir þráð eða megintexta bókar-
innar. Oft er þó þessi texti aðeins stuttaraleg tenging á milli langra orðréttra
texta, sem teknir eru upp úr blöðum, tímaritum eða öðrum skrifum ann-
arra höfunda. Munu slíkir textar vera snöggt um lengri en textar Gils eða
140-150 dálkar.
Togaraöldin 1 fjallar um togaraútgerð við ísland á árunum 1890—1904
eða þar um bil. Þetta var tímabilið áður en íslenzk togaraútgerð hófst. Þess
vegna fjallar höfundur einkum um togveiðar útlendinga við Island, og er