Skírnir - 01.09.1992, Blaðsíða 96
358
EYJÓLFUR KJALAR EMILSSON
SKÍRNIR
hvers staðar við þig sem sýnir að það hafi í rauninni fremur verið
samlagning sem þú meintir hingað til?“ Því miður - eða ætti ég
heldur að segja sem betur fer? - er ekki tóm til að rekja þessi
orðaskipti frekar. Látum nægja að segja að Kripkenstein - svo
skulum við nefna Wittgenstein eins og Kripke útleggur hann -
komist að þeirri niðurstöðu að engin augljós svör af því tagi sem
við væntum finnist við mótbárum efasemdamannsins og svo
ótrúlegt sem það kann að hljóma, þá sé sú niðurstaða býsna sann-
færandi. Sérstaklega er vert að benda á að ekki tjóir að svara efa-
semdunum á þá leið að túlkun mín á reglunni sem ég hef beitt við
samlagningu hingað til styðjist við aðrar reglur sem útiloka svör á
borð við 5. Að skírskota til annarra reglna færir vandann aðeins
eitt skref afturábak en eyðir honum ekki: sé hægt að vekja efa-
semdir um að svarið 125 sé í samræmi við regluna sem ég hef
stuðst við hingað til í áþekkum tilvikum, þá má eins vekja þær
um innihald allra stuðningsreglna sem ég kann að skírskota til til
varnar skilningi mínum á upphaflegu reglunni. Ef vafi kann að
leika á túlkun orðs sem ég nota á þann hátt sem efasemdamaður-
inn gefur í skyn, þá leikur sams konar vafi á túlkun hvaða reglu
sem ég reyni að styðjast við til að réttlæta túlkun mína á upphaf-
lega orðinu.18
Rétt er að nefna að þessar efasemdir eru á engan hátt bundnar
við stærðfræðileg dæmi, heldur eiga þær jafnt við um merkingu
annarra orða í málinu. Efasemdamaðurinn hefði eins getað skor-
að á mig að sýna fram á að notkun mín á orðunum „gaffall“ eða
„skeið“ nú sé í samræmi við það sem ég hef hingað til meint með
þeim. Hver veit nema að með „gaffall" hafi ég átt við gafla, nema
svo vilji til að ég sé staddur í Iðnó milli 2 og 4, 7. desember 1991,
en þá merki „gaffall“ það sem ég annars kalla hárgreiður? Annað
atriði sem vert er að benda á er að í rauninni snýst þetta mál ekki
um hugsanlegan vafa og efasemdir.19 Kripke setur það bara
18 Sjá Kripke, sama rit, bls. 17, sbr. Ludwig Wittgenstein, Philosophische
Untersuchungen #198.
19 Sjá Crispin Wright, „Kripke’s Account of the Argument Against Private
Language", Journal of Philosophy 81, nr. 12 (1984), bls. 761-2 og Boghossian,
„The Rule-Following Considerations“, bls. 511-16.