Skírnir - 01.09.1992, Blaðsíða 212
474
ÞÓRIR ÓSKARSSON
SKlRNIR
I tengslum við hugmyndir eins og þessar virðist nauðsynlegt að taka
til endurskoðunar „heimildir" miðaldasagnaritara. Voru þær alltaf jafn
áreiðanlegar og höfundar vildu vera láta eða vísuðu þeir fyrst og fremst
til þeirra til að sannfæra lesendur um að frásögnin greindi frá staðreynd-
um? Slík endurskoðun er að nokkru leyti hafin á kvæðinu Ynglingatali
sem Snorri getur að sé meginheimild sín að fyrsta hluta Heimskringlu,
Ynglinga sögu, og eignar 9. aldar skáldi Haralds hárfagra, Þjóðólfi úr
Hvini. Um þetta kvæði komst Sigurður Nordal svo að orði að það væri
„sett saman í vísindalegum anda, þar sem skáldið talar um rannsóknir
sínar og vísar til fróðra manna“14. I áðurnefndri bók Claus Krags, Yng-
lingatal og Ynglingesaga, kveður hins vegar við allt annan tón. Þar ræðir
hann um aldur Ynglingatals og tengsl þess við aðrar sagnir um Ynglinga
og kemst að þeirri niðurstöðu, eins og ritstjórar Heimskringlu geta í
„Inngangi“, „að arfsögnin um Ynglinga, og Ynglingatal að undanskilinni
einni vísu, séu verk lærðra manna á 12. öld og síðar, sem reyndu að
breyta mýtum í sagnfræði og steyptu þær því í listrænt mót“ (III,
xxix-xxx). Kjarni Ynglingatals sé með öðrum orðum af svipuðu eðli og
álíka gamall og glötuð Konungaævi Ara fróða en ekki eitthvert elsta
dróttkvæði sem varðveist hefur.
Hér renna saman í eitt goðsagnir eða mýtur, sagnfræði og list og
reyndar vekja sérstaka athygli orsakatengslin sem komið er á milli sagn-
fræði og listræns móts. Með þeim er listin einfaldlega gerð að forsendu
sagnfræði. Standist niðurstaða Krags virðist því um margt eðlilegt að líta
á kvæði eins og Ynglingatal sem listrænan þátt Ynglinga sögu sem hafi
það meginhlutverk að rifja upp og leggja áherslu á atburði,15 en síður
sem sagnfræðilega heimild eða „neðanmálsgrein“ eins og oft hefur verið
gert. Þar með hverfur sá munur sem löngum hefur verið talinn vera milli
konungasagna annars vegar og Islendingasagna og fornaldarsagna hins
vegar hvað varðar meðferð kveðskapar. Slíkt kemur reyndar ágætlega
heim við þá staðreynd að Snorri finnur sig knúinn til að færa rök fyrir
heimildargildi kvæðisins. Hann hefur auk þess ekki notað til hlítar efnið
sem hann segir í formála að kvæðið greini frá heldur valið úr einstakar
vísur þess sem féllu að textanum og skipað þeim í verk sitt með ákveðna
heildarmynd í huga. Krag bendir á (92-93) að merki um slíka ritstýringu
kveðskapar sjáist víðar í Heimskringlu, t.d. þar sem Glymsdrápa Þor-
björns hornklofa er bútuð niður og felld að fjölmörgum frásögnum Har-
alds sögu hárfagra án þess að efni þeirra bendi til að þær tengist frásögn-
unum með óyggjandi hætti.
14 Sigurður Nordal. Snorri Sturlnson. (1. útg. 1920). Endurpr. í Mannlýsingar I.
Reykjavík 1986, 139.
15 Sbr. Claus Krag. Ynglingatal og Ynglingesaga. Oslo 1991, 92.