Skírnir - 01.09.1992, Blaðsíða 192
454
GUÐRÚN ÁSA GRÍMSDÓTTIR
SKÍRNIR
löngu er fram komin, að Styrmir fróði Kárason sem síðustu æviár sín var
príor í Viðey (d. 1245) hafi samið frumgerð Harðar sögu. Síðan er rakinn
skyldleiki með atburðum á samtíð Styrmis og atvikum í Harðar sögu og
er megináhersla lögð á líkindi með frásögn í Sturlunga sögu af því er
menn Sturlu Sighvatssonar voru í Geirshólma í Hvalfirði og drógu þar
að föng og öfluðu heldur með harðindum til (Sturlunga saga I, Rvk.
1946, s. 407, 419), og hinsvegar frásögn Harðar sögu af setu Hólms-
manna í Geirshólmi og ferðum þeirra í land er þeir rændu og hjuggu fé
bænda.
Þórhallur spyr að því búnu hvort raunverulegir atburðir hafi orðið
kveikja meginefnisatriðis Harðar sögu (s. lii) og svarar með því að rekja í
þrettán liðum líkindi með völdum atriðum úr ævi og örlögum þeirra
Harðar Grímkelssonar og Sturlu Sighvatssonar eftir því sem frá Herði
segir x sögu hans og frá Sturlu í Islendinga sögu Sturlu Þórðarsonar í
Sturlunga sögu. Samanburður Þórhalls sver sig í ætt við aðferðir Barða
Guðmundssonar sem var slyngur samanburðarmaður á Islendingasögur
og Sturlungu. Þessir sagnaflokkar liggja vel við slíkum samanburði sök-
um þess að skammt er í milli þess að hver saga er samin, sögusviðið er
líkt með þeim og sögurnar eru orðfáar og frásagnarverðir atburðir fáir.
Samanburðarefni í ævi Sturlu og Harðar eru því hin sömu og í fjölmörg-
um öðrum fornsögum: fræknir fóstbræður hljóta göfugt gjaforð og eiga í
erjum við frændur og mága; utanferðir og óaldarflokkar koma við sögu
og konur sem eggja til hefnda uns hetjurnar falla með sæmd undir sögu.
Þórhallur getur þess til að Styrmir hafi haft samtímaviðburði og sam-
tímamenn að fyrirmynd í Harðar sögu en jafnframt sótt efni annarstaðar
að, m.a. í örnefnasagnir í Hvalfirði og önnur munnmæli, en bætir þó við
að allt eins sé víst að Styrmir príor hafi spunnið upp sagnirnar sjálfur þar
sem hann sat á ævikvöldi í Viðeyjarklaustri og að honum þyrptust per-
sónur og atburðir liðinna ára (s. lxvi). Og Þórhallur heldur áfram og
skýrir mörg örnefni Harðar sögu út frá landslagi uns sagan verður fræði-
lega að „lygisögu" einsog Halldór Kiljan Laxness kallaði hana í saman-
tekt um útilegumenn sem hann ritaði árið 1948 (Reisubókarkorn, Rvk.
1950, s. 234, sbr. TfXIII, s. xxiv, lii).
Vissulega eru líkindi með frásögnum af setu Hólmverja og manna
Sturlu Sighvatssonar í Geirshólmi og það sjónarmið sannfærandi að höf-
undur Harðar sögu (Styrmir Kárason?) hafi verið gagntekinn af söguleg-
um atburðum á fyrra helmingi 13. aldar. En ef reynt er að greina kjarna
söguefnis Harðar sögu og jafnframt samfélagssýn sögunnar frá hinum
ytri atburðalýsingum, sýnist harla lítið samanburðarefni við æviferil hér-
aðshöfðingjans Sturlu Sighvatssonar sem barðist til landstjórnar á íslandi
öllu og hafði líklegast til þess vilja Noregskonungs, en féll í orrustu fyrir
keppinautum sínum í gerði þar sem heitir á Orlygsstöðum í Skagafirði
sumarið 1238. Harðar saga er aftur á móti saga um flokk sekra illvirkja
og óskilamanna sem settust að í sæbröttum hólma í Hvalfirði og rændu