Skírnir - 01.09.1992, Blaðsíða 187
SKÍRNIR
SANNLEIKAR SAGNFRÆÐINNAR
449
eru það að uppfylltum skilyrðum: eitthvað datt, eitthvað dettur
ef... og svo framvegis. Tröppugangur Gunnars frá smæstu atrið-
um að meiri háttar alhæfingum væri ein tegund: Magnús Stephen-
sen skrifaði um Skaftárelda (staðreynd sem má dagsetja), Magnús
sagði þetta og hitt (endursögn atriða sem má finna stað í ritinu),
hugmyndir Magnúsar voru nútímalegar eða gamaldags (hæpnari
fullyrðing sem verður að rökstyðja með ýmsu utan að: hvoru
megin eru þær til dæmis miðað við þau umskipti sem Foucault14
staðhæfir að hafi orðið innan náttúruvísinda á síðari hluti 18. ald-
ar?). Þannig mætti halda áfram (næstum endalaust) og eftir því
sem sagnfræðingur gengur upp tröppuna verða fullyrðingar hans
æ háðari túlkun hans sjálfs, þekkingu og viðhorfum. Fyrir vikið
aukast líkurnar á því að senn verði þær úreltar og jafnvel hallæris-
legar. En umræðan er alltaf skemmtilegust í efstu þrepunum. Þar
er fjörið, enda er raunveruleikinn svo margræður að ekkert eitt er
satt, heldur er spennan fólgin í því að komast að möguleikum
sem gætu staðist og sagt eitthvað nýtt. Eins og Kant benti á í bók
um sannanir fyrir tilvist Guðs fela allir möguleikar í sér einhvern
raunveruleika.15 Það eru hinir óteljandi möguleikar á umfjöllun
sem sagnfræðin á að takast á við, en hún á ekki að eltast við ein-
hvern einn sannleika, sama hvað hann er skorinn niður í margar
sneiðar.
Ég svara því ekki frekar (að þessu sinni) hvers konar sannleika
sagnfræðingar eiga að stunda, geta stundað eða vilja stunda.
Kannski finnst mér spurningin ekki skipta verulegu máli, það er
að segja í þeim skilningi að hún hjálpar ekki til þess að samin sé
ögrandi og lifandi sagnfræði. Sannleiki eða leit að sannleika eiga
að mínu viti ekki að vera lykilorð í sagnfræðilegri umfjöllun eða
starfi. Það sem skal ráða ferðinni eru áhugi og forvitni hins vinn-
andi fræðimanns. Sagnfræðingar eiga fyrst og fremst að fást við
14 Michel Foucault, Les mots et les cboses. Gallimard, Paris 1966, bls. 137-76 og
229-61.
15 Immanuel Kant, Beweisgrund zu einer Demonstration des Daseins Gottes
(1763). Felix Meiner Verlag, Hamborg, 1974 bls. 17-18: „Es ist von aller
Möglichkeit insgesamt und von jeder insonderheit darzutun, daS sie etwas
Wirkliches, es sei nun ein Ding oder mehrere, voraussetze." Jafnframt talar
hann um ,,[die] Beziehung aller Möglichkeit auf irgendein Dasein."