Skírnir - 01.09.1992, Blaðsíða 175
SKÍRNIR STJÓRNSKIPULEG STAÐA FORSETA ÍSLANDS
437
Helgar venja valdaleysi?
Af tilvitnunum í ummæli Olafs Jóhannessonar og Jóns Sveins-
sonar má draga þá ályktun að ekki sé gert ráð fyrir að forseti beiti
valdi sínu samkvæmt stjórnarskrá, enda ekki ætlazt til að hann
blandi sér í stjórnmáladeilur. I reynd fari ráðherrar með valdið og
sé það í samræmi við venju. Mjög óvenjulegar aðstæður kynnu að
réttlæta undantekningu.
Varla greinir menn á um að forseta beri að stilla valdi sínu í
hóf og beita því með fyllstu gát, en það merkir ekki að hann sé
sviptur öllu valdi. Þegar meta á hvort venjuhelguð regla hafi
skapazt verður að hafa í huga að forsetaembættið er tæplega
hálfrar aldar gamalt og tilefni til íhlutunar forseta hafa ekki verið
mörg. Það kom í hlut fyrsta forseta lýðveldisins, Sveins Björns-
sonar, að móta embættið allt frá því að hann var kosinn ríkisstjóri
á Alþingi 17. júní 1941 og er því rétt að gefa gaum starfsháttum
hans. Þar er mest í minnum höfð skipun utanþingsstjórnarinnar
16. desember 1942, en hún sat til 21. október 1944. Bjarni Bene-
diktsson hefur farið svofelldum orðum um hana:
Með þeirri athafnasemi, sem lýsti sér í þessum aðgerðum ríkisstjórans,
var mjög brugðið frá þeirri venju, sem konungur hafði ætíð fylgt frá því,
að þingræði hófst fyrst á landi hér. Þá hafði fráfarandi ríkisstjórn undan-
tekningarlaust verið látin sitja að völdum, stundum marga mánuði, þang-
að til tekizt hafði að afla nýrri stjórn fylgis eða hlutleysis meirihluta
þingmanna. Þessi regla hafði auðvitað ekki verið valin af handahófi,
heldur vegna þess, að samkvæmt henni hvíldi ábyrgðin á Alþingi. Ef
meirihluti þess vildi losna við sér ógeðfellda stjórn, varð hann að koma
sér saman um aðra nýja. Ef utanaðkomandi aðili gripi inn í, var viðbúið,
að hvötin til nauðsynlegs samstarfs og ábyrgðar meiri hluta eyddist. Að-
varanir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins við ríkisstjóra voru byggðar á slíkum
bollaleggingum, enda töldu þeir, að hér væri í óefni stefnt. Ríkisstjóri
hafði þær að engu.15
14 Sjá t.d. Alþt. 1944 B, 34, 37, 61, 66, 90,103-04,108,119,123-26,130,132,134,
137.