Skírnir - 01.09.2000, Blaðsíða 63
SKÍRNIR
ÞEGN, LÍKAMI, KYN
299
ur og nátengdur þeirri ró, festu og vissu sem kenningar Descartes
gefa til kynna (sem og eldri kenningar), þá brýst fram ögrandi svið
líkamans og hótar að skapa persónum ringulreið sem kollvarpað
gæti reynsluheimi þeirra. Uppreisn textanna felur í sér að skáka til
gildum og þáttum í hinni eldri þegnsmynd, fremur en að í þeim sé
gerð afdrifarík atlaga að þessari mynd. Guð þann sem að mati
Descartes var frumorsök allra hluta úrskurðaði Nietzsche dauðan
(1882). Þótt máttur Guðs til að halda heimi mannsins í skorðum
hafi þar með glatast hefur maðurinn í þessum bókmenntum fundið
önnur gildi sem haldið geta saman heiminum, ekki síst ástina, kon-
una og sjálfa gagnkynhneigðina, það er að segja karllega gagnkyn-
hneigð. Heimurinn er fyrir karla og þeir gera Konuna að samloð-
unarkrafti heimsins. Mætti jafnvel umsnúa orðum Steins Elliða í
Vefara Laxness og segja að frammi fyrir afarkostunum, geðveiki
eða dauða, sjái karlinn sér leik á borði með Konuna í augsýn. Hætt-
an breytist þá og verður líkt og forðum frammi fyrir Medúsu elleg-
ar eins og í Sœlir eru einfaldir, það er að Konan geri karlinn að
steinstólpa eða jafnvel gjalti. Þórbergur gengur lengst í að grafa
undan þessum karllegu gildum í Bréfi til Láru en þó stendur per-
sónu hans ógn af eigin ímyndunarafli sem getur gert líkamann að
uppsprettu sköpunar, jafnvel sköpunar sjálfsins og þess þegns sem
er að verða til á kvenlegri meðgöngunni. Það er engu líkara en text-
arnir sem hér er um vélað óttist það mest að sundrunin leiði mann-
inn í glötun. Uppreisnarverk Laxness og Þórbergs mega þó bæði á
vissan hátt kallast tímaskekkja því að þau urðu ekki viðmið í ís-
lenskri skáldsagnagerð, en höfðu engu að síður viss áhrif sem þó
voru bæði mismikil og allsendis ólík.41 Asamt Sxlir eru einfaldir
eftir Gunnar Gunnarsson taka þessi verk á vitundinni sem kvikum
og óræðum veruhætti í ljósi mikillar upplausnar í samfélagslegum
41 Hér er ástæða til að nefna ritdeilu þeirra Ástráðs Eysteinssonar og Halldórs
Guðmundssonar á árunum 1987-1989, en þar komu slík sjónarmið sterkt fram
þótt þeir deildu um aðra þætti í þróuninni og hvort hægt væri að tala um að til-
tekin verk hafi markað þáttaskil í íslenskri bókmenntasögu. Sjá skrif Ástráðs
1988 og 1989, en Halldórs 1987 og 1989. í doktorsriti sínu, Kona verður til,
heldur Dagný Kristjánsdóttir (1996:343-419) fram svipuðum hugmyndum.
Loks skulu nefnd verk eftir Matthías Viðar Sæmundsson 1982 og 1990.