Skírnir - 01.09.2000, Blaðsíða 242
478
HALLDÓR BJÖRN RUNÓLFSSON
SKÍRNIR
íslandi sem okkur er svo kunnug með dæmigerðum skögum sínum og
annesjum að minnir einna helst á sjóskrímsli.4
Á uppdrætti Guðbrands biskups úr kortasafni Orteliusar eru einnig
óvenjumörg sjóskrímsli umhverfis landið og líkjast þau ungahjörð í skjóli
roskinnar og rólyndislegrar, en eilítið vogskorinnar móður. Reyndar
virðist þetta kort vera einstakt sökum mergðar kynjadýranna sem prýða
það. Þegar það er borið saman við aðra uppdrætti Orteliusar, og korta-
söfn frá svipuðum tíma, kemur í ljós að fleiri kynjadýr er að finna á upp-
drætti Guðbrands biskups en á flestum öðrum sambærilegum landakort-
um. Aðeins einn uppdráttur slær það út í fjölda sækinda en það er Sjókort
af Skandinavíu eða Carta marina eftir Svíann Olaus Magnusson Magnus
sem gefið var út í Feneyjum árið 1539, en er nú einungis til í einu eintaki
á Ríkisbókasafninu í Munchen, og reyndist vera teiknara Islandskorts
Guðbrands ómetanleg fyrirmynd.5 Engu að síður eru skrímslin á Orteli-
usarkortinu töluvert ólík skrímslum Olausar Magnuss þó svo að mörg
þeirra séu sprottin af sama staðlaða grunnmeiðinum. Þess má geta að á
mun ónákvæmari uppdrætti þýska kortameistarans Gerhards Mercators,
frá 1595, sem er einnig gert eftir teikningu Guðbrands biskups, er einung-
is eitt skrímsli eftir af allri hjörðinni hjá Orteliusi og lónir það einmana
norður af Húnaflóa.
Á korti Orteliusar leika þessar kynjaskepnur hins vegar á als oddi við
hvern flóa og fjöru, stökkvandi, gapandi og blásandi, og láta skína í víg-
tennurnar eins og rándýr í vígahug. Því má þó ekki gleyma að í hópnum
eru mildilegri skepnur, svo sem stakur hvalur með greinilegt mannshöfuð
skeggjaðs öldungs úti fyrir sunnanverðu Snæfellsnesi, tvær tápmiklar,
hyrndar sækvígur sem skipta liði á hafinu suður af Markarfljóti og sæ-
hestur úti fyrir Eldey, kvenlegur eins og yngismær með langan hringaðan
ormssporð, fax eins og prúðasta kvenmannshár og sundfit á framlöppun-
um.
Til marks um það hve sjóskrímslin á Guðbrandskorti Orteliusar hafa
vakið mikla athygli hefur bókasafn Berkeley-háskóla í Kaliforníu birt
síðu með myndum af sex þeirra innan um myndir af öðrum svokölluðum
eftirmyndum, eða facsimilia, sem notuð voru til skreytingar landabréfa.6
Sú spurning hlýtur að vakna hvort teikningarnar af sjóskrímslunum á Or-
teliusarkortinu séu hreinar eftirmyndir eða hvort flokka ætti þær sem
frummyndir af íslenskum uppruna, lauslega byggðar á erlendum fyrir-
myndum.
4 Sama rit, bls. 5-6.
5 Sama rit, bls. 17.
6 Sjá slóð á veraldarvefnum merkta http://www.lib.berkeley.edu/EART/digital/
facsim2.html (10.10.2000).