Skírnir - 01.09.2000, Blaðsíða 236
472
RÓBERT H. HARALDSSON
SKÍRNIR
sé „oft vísað á bug þeirri sérstöðu sem hámenning hefur haft sem rann-
sóknarefni [...]“ (250), í slíkum fræðum (og póstmódernismanum) sé
reynt „að öðlast víðtækan og samfelldan skilning á megindráttum þess
[menningarlífsins] og tíðarandanum, fremur en að staðnæmast við ein-
stök listaverk sem talin eru standa uppúr" (249) og „að eitt af stóru verk-
efnum menningarfræðinnar [hafi] verið endurmat á afþreyingarmenn-
ingu“ (259). Svipuð sjónarmið má sjá hjá mörgum höfundum í Heimi
kvikmyndanna og birtast þau bæði í einstökum ummælum (um lágmenn-
ingu og hámenningu, listgildi o.s.frv.) og í vali á viðfangsefnum. Meiri-
hluti þeirra kvikmynda sem teknar eru til athugunar í bókinni eru afþrey-
ingarmyndir eða lágmenning;32 og ef frá eru taidar kvikmyndir þjóðlanda
eru slíkar myndir í miklum meirihluta. Þetta hefur m.a. það í för með sér
að Hollywood-kvikmyndir eru leiddar til öndvegis í bókinni. Þær eru
yfirleitt í brennipunkti, umræðan um þær er fyrirferðarmest og ítarlegust.
Til Hollywood líta menn gjarnan þegar þeir vilja greina áhrifamiklar af-
þreyingarmyndir. Mig langar að enda greinina á því að hugleiða nánar
stöðu Hollywood í þessari bók og á Islandi almennt.
Andúð í garð Hollywood (sérstaklega kvikmynda þaðan) á sér langa
og virðulega sögu á íslandi. I grein sinni „Fjötruð fífl, þjófar að nóttu og
álfar í hulduheimi ofurveruleikans“ vekur Þröstur Helgason athygli á eft-
irfarandi ummælum Halldórs Laxness úr Morgunblaðsgrein frá árinu
1927:
Ef menn bera gæfu til að átta sig á því, að grundvallaratriðið í
Hollywood er ekki snildarandi, heldur business, og að Hollywood
sjer ekki metnað sinn í því, að framleiða list, heldur vöru, þá geta
menn lifað og dáið öruggir í vissu þess, að þeir lenda aldrei út úr sam-
ræmi við skrípaleikinn. (276)
Laxness fer ennþá harðari orðum um Hollywood í grein sinni „Kvik-
myndin ameríska 1928“ sem hann birti í Alþýðubókinni33 stuttu síðar.
Þar bendir hann þó á að upp „úr eyðimörkinni teygja einstöku vinjar
pálma sína“ (128) og vísar þar til Charles Chaplin, sem hefur „ást á mál-
stað lítilmagnans, en ekki hatri á skrílnum" (s.st.); og telur að Hringleik-
ar (The Circus (1928)) hans „séu hið merkasta listaverk sem birst hafi í
Ameríku á þessu ári“, a.m.k. sé honum „ekki kunnugt um neitt skáldverk
af þessa árs prentuppskeru, sem standist þar samanburð" (129). Sautján
árum síðar hefur Laxness ekkert mildast í dómum sínum því að nú skrif-
ar hann í formála við aðra útgáfu Alþýðubókarinnar.
32 Eða það sem gjarnan er flokkað sem afþreying og lágmenning, oft, en alls ekki
alltaf, með réttu.
33 Halldór Kiljan Laxness, Alþýðubókin (þriðja útgáfa), Helgafell: Reykjavík
1949.