Skírnir - 01.09.2000, Blaðsíða 166
402
EINAR MÁR JÓNSSON
SKÍRNIR
að taka þjóðfélagslýsingu Barthes góða og gilda, svo og frásögn
hans af lævíslegum bellibrögðum „borgaranna“, fara sum atriði
önnur að verða býsna fallvölt. Þá fer t.d. að verða erfitt að halda því
fram að aðalhlutverk mýta sé að „gefa fyrirætlunum og hugmynd-
um náttúrulega réttlætingu, láta einstaka atburði líta út fyrir að vera
hluta af óhjákvæmilegu ferli“, og sennilega enn erfiðara að gera það
að reglu að „mýtur fjarlægi pólitíkina úr orðræðunni“, svo enn sé
vitnað í Arnar Guðmundsson. Og því síður að hægt sé að finna
dæmi um „mýtur“ sem samræmist svo ótraustum kenningum.
Um þetta mætti segja margt og mikið, en í rauninni er óþarfi að
fara frekar út í þá sálma. Annað vegur hér mun þyngra á metum og
nægir til að slá botninn í umræðurnar. Þegar litið er á skilgreining-
ar Barthes sjálfs, svo og allar þær greinar hans sjálfs sem á einhvern
hátt er hægt að tengja við þær, kemur nefnilega í ljós að það sem
hann túlkar sem „mýtur“ er aldrei nein „upprunasaga“ eða saga
sem á einhvern hátt tengist þjóðerni sem slíku, heldur er það yfir-
leitt eitthvert beinhart, efnislegt atriði: ákveðin blaðaljósmynd,
blaðafrásögn, blaðagagnrýni, auglýsing, Ijósmyndir frá ákveðinni
myndastofu, kvikmynd og annað eftir því. Þegar hann víkur frá
því, og er þá kannske kominn burt frá sínum eigin skilgreiningum,
fjallar hann um hugmyndakerfi eða viðhorf Frakka sem tengjast
mjög ákveðnu og afmörkuðu þjóðfélagsfyrirbæri, „steik og
frönskum kartöflum", hjólreiðakeppninni miklu umhverfis Frakk-
land og slíku. En ekkert af þessu getur átt við um þau orðasam-
bönd sem hér er verið að fjalla um, „mýtuna um íslenska þjóð-
tungu“, „mýtuna um tengsl þjóðar og tungu“ og jafnvel „mýtuna
um Island“: slík mýta hvílir ekki á neinum efnislegum grundvelli
sem hægt er að benda á, eins og Barthes bendir á myndina af svert-
ingjanum, ennistopp Marlons Brando eða skegg Péturs ábóta.
„Mýtan um tengsl þjóðar og tungu“ getur ekki verið neitt annað en
hugmynd, hvers eðlis sem hún er, og það er allt önnur Ella. Barthes
segir að blekkingavefur „borgaranna“ grundvallist m.a. í „þjóð-
inni“, en í því sambandi talar hann ekki um „mýtuna um þjóðina",
hann notar allt annað orð, sem sé „hugmyndina um þjóðina“.26
26 Bls. 212.