Skagfirðingabók - 01.01.1994, Qupperneq 18
SKAGFIRÐINGABÓK
honum þó bezt. Mælt var, að honum færi líkt og Konráði
bónda, að honum þætti sem seint væri fullsetið, væri afla von.
Margt var líkt með ungu vinnustúlkunni, Dýrleifu, og Stef-
áni frá Brekkukoti. Bæði voru þau vinnugefin og staðráðin í að
láta ekki baslið beygja sig. Stefán var glaðlyndari, gamansam-
ari. Dýrleif mun hafa þótt fastlynd, dul, skaprík, en jafnlynd,
samt oftar en hitt létt á brúnina.
Það gekk vel undan, er þau voru saman við verk, ungu hjóna-
leysin í Bæ. Leið ekki á löngu, áður en í ástir dró með þeim, og
ákváðu þau að eyða ævidögunum saman, hvort sem þeir yrðu
fleiri eða færri. Gott jarðnæði lá ekki á lausu og efni engin, en
þau litu björtum augum fram á veginn, svo ung að árum og
heilsuhraust.
Það má gera sér í hugarlund, að Konráði bónda hafi ekki lit-
izt meira en svo á blikuna, er hann sá, að hverju dró. Hvernig
sem því hefur vikið við, gengu Dýrleif og Stefán í hjónaband
haustið 1890. Brúðurin stóð á tvítugu, brúðguminn rösklega
hálfþrítugur.
Það varð að ráði, að ungu hjónin sættu vinnumennsku hjá
Konráði eftir sem áður og notuðu tímann til að búa í haginn
fyrir sig. Trúlega hefur bóndi boðið vildarkjör, eftir því sem þá
þótti hæfilegt, svo mjög var honum í mun að halda í þau, og
það tókst tvö árin næstu.
Engar sögur fara af vist ungu hjónanna í Bæ. Þau reyna að
öngla saman og eru á höttunum eftir hentugu jarðnæði. Stefán
vildi umfram allt komast að sjávarjörð; þrautreyndur sjómaður,
eftirsóttur í skiprúm og hafði verið formaður á báti hjá Kon-
ráði. Fullvíst má telja, að Dýrleif, reynd sjókona, hafi verið
sama sinnis og bóndi hennar; um það skortir þó heimildir.
Venja var að tryggja sér jarðnæði í síðasta lagi fyrir jól árið
áður. Málmey á Skagafirði þótti á margan veg vildisjörð þeim,
sem öðrum þræði ætluðu að gera sjósókn að ævistarfi. Þar voru
gjöful fiskimið skammt undan og mikið um fugl. Lending var
slæm, ef út af bar með veður, og sjávargata æði brött og erfið.
16