Skagfirðingabók - 01.01.1994, Síða 22
SKAGFIRÐINGABÓK
við þetta, og tjáði ekki um að sakast, á sjó varð hann að fara
eins fyrir því.
Friðrik Stefánsson mun hafa lagt hart að Stefáni að gerast
bátsformaður á útvegi hans. Fékk hann þeim hjónum til um-
ráða lítinn, nýlegan bæ, þurrabúð, skammt frá lendingunni, og
var enginn túnkragi í kringum hann. Þau áttu eina kú og nokkr-
ar ær, og taldi Dýrleif einsætt að rækta dálitla túnskák, og
hófst þegar handa. Leið ekki á löngu, unz laglega nýrækt gat
að líta við litla bæinn. Svo kvað Símon Dalaskáld, er hann eitt
sinn brá sér út í eyna að sumri til:
Rósin víra rausnarhá
rösk á túni sínu,
faldahlíð, með fríða brá,
farin Dýrleif er að slá.
Ekki höfðu þau hjón lengi dvalizt í Málmey, er þeim fæddist
þriðja barnið. Það var drengur, sem kom í heiminn 6. desem-
ber 1902. Hann var skírður Indriði. Hinn 12. júlí 1906 eign-
uðust þau dóttur. Hún var vatni ausin og látin heita Guðveig.
Það stóð nokkurn veginn á endum, að húsbóndinn fékk slag
öðru sinni, er litla stúlkan kom í heiminn. Lengi hafði Dýrleif
óttazt, að svo kynni að fara. Síðustu árin hafði heilsu Stefáns
hrakað jafnt og þétt, enda hlífði hann sér aldrei. Málmeyjar-
vistinni hlaut senn að ljúka eftir fimm ára dvöl, er svo var kom-
ið, að Stefán var örvasa, þótt hann hefði nokkra fótavist með
köflum og gæti fetað sig áfram innan húss með góðum stuðn-
ingi og hjálp.
Friðrik Stefánsson hafði ekkert með öryrkja að gera á snær-
um sínum. Það var sveitarfélagsins að kjálka fjölskyldunni nið-
ur, einu barninu hér, öðru þar. Ungabarnið og Indriða litla hlaut
móðir þeirra vitaskuld að taka með sér í vist um sinn; gat haft
þau systkin á kaupi sínu. Eldri strákarnir voru karskir og vanda-
laust að koma þeim fyrir með lítilli meðgjöf. En það var verri
20