Skagfirðingabók - 01.01.1994, Qupperneq 25
AF SKAFTA FRÁ NÖF
koma lítilfjörlegum búsgögnum heim að Nöf. Aðkoman reynd-
ist köld: Allt í niðurníðslu, túnskákin og kofarnir. Baðstofan
var tvö stafgólf með moldargólfi og ber upp um sig, þ.e.a.s. óþilj-
uð, nema hvað fjöl var fyrir ofan rúmbálkana. Þeir voru tveir
öðrum megin í baðstofunni, einn hinum megin. I auða bilið
við staka rúmstæðið setti Dýrleif síðar niður eldavél sína, svo
að ekki reyndist mjög kalt í baðstofunni. Fyrir framan bað-
stofunefnuna var dálítil geymsluskonsa með hlóðum. Þá voru
bæjarhús upp talin.
Hjónunum blöskraði að flytja í þetta greni með börnin, en
fárra kosta var völ. Að vísu hafði þeim staðið til boða að setjast
að á Spáná, afdalakoti fremst í Unadal. Það kom þó aldrei til
greina að þekkjast það. Fjölskyldan batt allar vonir sínar við
sjósókn og fiskvinnu.
Fyrsta verk Dýrleifar og eldri drengjanna var að hreinsa til,
fjarlægja húsaskúm, myglu og annan óþverra, sem loddi við
allt. Síðan var farangurinn borinn inn, og ósjálfbjarga húsbónd-
anum komið í rúmið, svo og yngsta barninu. Dýrleif flýtti sér
að kveikja undir pottinum, elda og hita kaffi. Allir fengu að
borða og drekka, fjölskyldan og flutningsmennirnir. Þá var líka
allt upp urið. Ekkert matarkyns eftir nema pottbrauðsbarð. Dýr-
leif nefndi það ekki, svo að gestirnir heyrðu.
Olíklegt er, að Dýrleifu hafi orðið svefnsamt fyrstu nóttina á
Nöf. Um það er enginn til frásagnar. I rauðabítið morguninn
eftir var hún komin á fætur, enda mörgu að sinna. Utbúa
þurfti bás fyrir kúna og laga til, svo að mjólkurdropinn nýttist
fjölskyldunni tafarlaust, en eins og á stóð, var ekki um aðra
björg að ræða.
Það féll í hlut Skafta að ganga frá básnum og líta til með
föður sínum og litlu systkinunum, er Dýrleif fór að sækja kúna
að Bæ og hafði Pétur sér til halds og trausts, karskan níu ára
snáðann, tilvonandi kúarektor.
Aður en Dýrleif lagði af stað, skipti hún pottbrauðsbarðinu
milli manns síns og barna, sem heima voru, en sagði við Pétur:
23