Skagfirðingabók - 01.01.1994, Síða 111
NÝBJÖRG
þvílíkum búskap, hafði hann jafnan margt lamba og gemlinga
á fóðrum. Hann var bærilegur skattþegn.
Þá er að nefna til sögunnar vinnukonu sem ekki miklu síðar
kom að Helgárseli og tók stöðu Margrétar Sigurðardóttur, en
Margrét giftist nokkru síðar Pétri Eiríkssyni og var lengst eftir
það húsfreyja á Syðri-Tjörnum í Öngulsstaðahreppi.
Randver Randversson af Randversætt, vinnumaður, og Sig-
rfður Gunnarsdóttir vinnukona, bæði ógift, sitt í hvorum Vill-
ingadal í Saurbæjarhreppi, eignuðust stúlkubarn 2. september
1832 og giftust seinna. Barnið hlaut nafnið Halldóra og varð
alnafna föðursystur sinnar, enda hefur þeim stundum verið
ruglað saman, jafnvel í góðum heimildum. Halldóra Randvers-
dóttir yngri fermdist á Munkaþverá á hvítasunnudag 1847
með góðum vitnisburði, þá til heimilis að Björk, titluð skömmu
áður tökubarn, enda ekki með foreldrum sínum. Hún var svo
á Björk, uns hún fór að Helgárseli 1850. Dregur nú enn til
tíðinda á hinni afskekktu sauðjörð Friðriks konungs sjöunda.
Þrem vikum eftir að fulltrúi hans sleit þjóðfundi í Reykjavík
við fræg mótmæli, fæddist á bænum stúlka, og voru foreldrar
Halldóra vinnukona 19 ára og Jón bóndi 45 ára. Litla stúlkan
var skírð heima og samdægurs. Hún var látin heita Nýbjörg.
Jón bóndi hefur í tíma trúað konu sinni fyrir broti sínu og feng-
ið fyrirgefningu hennar. Nafngiftin var henni til staðfestingar.
Mikils þótti líka við þurfa að öðru leyti, þar sem þetta var
annað hórdómsbrot Jóns. Guðfeðgin hins nýja lífs á Helgárseli
voru „Sr. Magnús Thorlacius á Hrafnagili, Þorsteinn Thorlac-
ius frá Saurbæ og Aldís Stefánsdóttir gift og búandi kona á
Skálpagerði." Húsfreyja var hyggin og skýr, eins og segir í vís-
unni. Vera má að sr. Magnús hafi verið með í orði og athöfn, er
eftirfarandi bréf var stílað og sent:
Ég undirskrifuð bóndakona Nýbjörg Jónsdóttir flý hér
með í trausti og skjóli hinnar mildu löggjafar frá 24. jan.
1838 til yðar hávelborinheita með þá auðmjúku bæn, að
109