Skagfirðingabók - 01.01.1994, Page 142
SKAGFIRÐINGABÓK
mannsins þarna, þegar hann er fyrir neðan neðri brúnina. Er
þar eitthvert mesta loftið í eynni. Einn af þeim, sem hélt sig-
kaðlinum, segir svo frá:
Friðrik kallaði af stallinum að draga upp. Hann var van-
ur að kalla til okkar hcegt eða hratt, en við heyrðum
aldrei til hans aftur. Þegar við höfðum dregið nokkra
stund, þyngdi mjög, varð þá þyngra á en venjulega. Þá
tók brúnamaður eftir því, að sigreipið var ekki á réttum
stað. I neðri brúninni er eikarklampi með klömpum beggja
vegna svo að reipið færi ekki út af. En nú var sigreipið
svo sem rúman faðm fyrir utan eikardrumbinn, rann þar
eftir skoru í neðri brúninni. Við drógum áfram og tók-
um þá eftir, að einn þátturinn var slitinn í kaðlinum. En
þegar slitið kom á keflið á efri brún, þá slitnaði. Friðrik
var þá rétt neðan við neðri brún. Þeir hlupu þá ofan af
eynni, kölluðu eftir bát, sem kom á staðinn eftir á að
gizka 15 mínútur, en þá sást ekki neitt. Og þeir fundu
þá ekki líkið. En í gær komu þeir með líkið, það var fast
við bjargið í steinkistu þar. Dýpið var nokkuð, en þeir
komust þar ekki að fyrir brimi fyrr en í fyrrinótt.
Eg sá líkið í dag. Einbeitni og kraftur einkenndi svipinn. Höf-
uðið var hoggið í hnakkanum og blárautt á enninu og fram á
nefið. Það var hruflað á framhandleggnum fyrir neðan olnbog-
ann og ein lítil hrufla á öxlinni, en lærbrotið. Annars var líkið
hvítt og fallegt, brjóstið hvelft og hraustlegt, handleggsvöðv-
arnir kraftalegir. Friðrik var líklega einhver fimasti bjargmaður
hér á landi, kjarkmikill, og þó gætinn við sigið. Hann bjargaði
Maroni, sem slasaðist í sigafestinni í fyrra. Sýndi Friðrik þar
dæmalausa hreysti og kjark. Friðrik var framúrskarandi hæfi-
leikamaður og virtist svo að segja jafnsnjall á öllum sviðum,
laginn og fimur, kraftmikill og kjarkmikill. Hann var minn
bezti æskuvinur, og á eg margar æskuminningar honum að
þakka. Hann var söngmaður og gleðimaður, hagorður vel og
140