Skagfirðingabók - 01.01.1994, Qupperneq 149
„SYNGIÐ DROTTNI NÝJAN SÖNG!"
ustu orðsins hafði verið verðugur sómi sýndur. Nú skyldi syngja
nýjan söng í öllum kirkjum landsins. Þess vegna hlaut ný, stór-
aukin og endurbætt sálmabók að vera næsta stórverkið, sem
huga varð að í útgáfumálum.
I konungsbréfi, dagsettu 29- apríl 1585, er þess getið, að
„mikill ruglingur sé á sálmum þeim, er sungnir séu í kirkjum
á Islandi, með því að ýmsar séu þýðingar þeirra, svo að menn,
er sæki aðrar kirkjur en sóknarkirkjur sínar, geti ekki fylgzt
með söngnum." Svo virðist sem nokkurrar togstreitu hafi gætt
milli biskupsdæmanna á þessum vettvangi. Sálmar Olafs bisk-
ups virðast hafa verið meira notaðir nyrðra, en í Skálholtsbisk-
upsdæmi voru Marteins- og Gíslasálmar hins vegar vinsælli.
I nefndu bréfi býður konungur biskupunum báðum, Gísla
og Guðbrandi, að hafa samfund hið bráðasta og ákveða eina,
fasta þýðingu sálma, einkum þeirra, er sungnir séu í kirkjum,
svo að allir geti farið eftir því. Þeim er með öðrum orðum boð-
ið að efna til nýrrar sálmabókar handa íslenzku kirkjunni, til
þess að afstýra frekari glundroða í safnaðarsöngnum. Ekki er
vitað, hvort Gísli biskup hefir haft einhver afskipti af sálma-
bókarverkinu, þar eð hann var þá orðinn mjög aldurhniginn og
andaðist tveimur árum síðar. En hitt er víst, að 1586 sendir
Guðbrandur utan í handriti sálmasafn sitt, því að í bréfi kon-
ungs 1587 er frá því greint, að „hinir hálærðu", þ.e. guðfræði-
kennarar háskólans í Höfn, hafi lesið handritið yfir og fallizt á
það. Sjálfsagt hefir það verið til málamynda, þvf að ekki verður
gert ráð fyrir íslenzkukunnáttu danskra háskólakennara á þeim
árum. I sama bréfi er Guðbrandi veitt einkaleyfi til prentunar
sálmanna og öðrum bannað að prenta þá annars staðar og flytja
til Islands. Gera má ráð fyrir, að Guðbrandur hafi verið farinn
að undirbúa þetta sálmaverk nokkru áður en konungsbréfið frá
1585, sem fól honum að vinna þetta verk, var gefið út — þar
sem handrit sálmabókarinnar var fullsamið að ári liðnu. Þótt
Guðbrandur biskup væri flestum stórvirkari, þá er óhugsandi,
að ekki færi lengri tími í að safna sálmunum saman, og það því
147