Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1991, Blaðsíða 43
MÚLAÞING
41
„Bessahaugur svo nefndur, fyrir neðan túnið. Sett niður friðlýsingarmerki í
lágri, hringlaga tóft, neðst í túnjaðri, beint niður af bæ. Tóftin nefnist „Bessa-
haugur“, segir Andrés bóndi á Bessastöðum, vaxinn illgresi og óræktargróðri.“
Ég skoðaði Bessahaug fyrst sumarið 1986, og ritaði þá eftirfarandi
lýsingu:
„Bessahaugur er neðst og syðst í túninu á Bessastöðum, niður við aura Bessa-
staðaár, og er slétt tún allt umhverfis hann. Hann er nú nánast skeifulaga, því
að mikið skarð eða lægð hefur verið grafið í hann SA frá, og er botn þess nánast
í sömu hæð og völlurinn umhverfis. Líkist haugurinn því fremur lítilli tóft. Hæð
þessa skeifulaga garðs (eða tóttarveggjanna) er um 2-3 fet, og er hann þakinn
stórvöxnu grasi sem og dældin innan hans. Pvermál skeifunnar er um 4 m. Á
einum stað innan í skeifunni sér þó í mold í garðinum, þar sem nýlega virðist
hafa verið stungið niður. Sér þar í bein og ýmislegt drasl, sem bendir til þess að
þetta sé annaðhvort gamall sorphaugur, eða þá að sorpi hafi verið fleygt í haug-
inn, eftir að hann var grafinn upp.“
Reyndar verður að telja ólíklegt, að þarna hafi nokkru sinni verið
ekta grafhaugur, því að þeir voru yfirleitt settir á staði sem voru hærri
en bærinn og ekki í neinni hættu af vatnagangi, en hvorugt á við
þennan haug. (Sjá þó um kumlið á Sturluflöt hér á eftir).
Príhaugasögnin á Héraði
Sú saga gengur í munnmælum víða um landið, að þrír fornmenn sem
bundnir voru vináttuböndum, létu heygja sig hver í sínum haugi, þar
sem vel mátti sjá milli hauganna. Þannig gátu þeir notið samfélags eftir
dauðann. Kemur hér fram sú forna trú, sem var algeng í norrænni
heiðni, að menn búi áfram í haugunum og lifi þar sínu lífi, ekki svo
ýkja frábrugðnu því sem þeir lifðu áður en þeir létust.
Sama trúin liggur til grundvallar þeirri ræktarsemi sem menn sýndu
fornum haugum í landareign sinni, og álögum þeim sem menn trúðu
að ættu að hindra haugbrot. Ljóst er, að ýmsir litu á haugbúana sem
verndarvætti viðkomandi jarðar eða býlis, og verður enn vart þeirrar
trúar. Er líklegt að haugbúum hafi í fyrndinni verið færðar fórnir, t.d.
í formi matar, eins og enn tíðkast í sumum löndum Afríku og Asíu.
Þríhaugasögnin er með ýmsu móti hér á Fljótsdalshéraði, eins og
fram kemur í þætti Sigfúsar af Spak-Bersa, en oftast eru til nefndir,
auk Bessahaugs, Ormarshaugur á Hlíðarseli í Fellum, og Rauðshaugur
upp á hálsinum ofan við Ketilsstaði á Völlum. Frá Rauðshaugi er afar
víðsýnt um Héraðið, og sést þaðan til Bessahaugs og Ormarshaugs,
auk nokkurra fleiri fornhauga.