Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1991, Blaðsíða 70
68
MÚLAÞING
og kennt honum. Hann sagði okkur ekki í kot vísað ef við næðum í
hennar hús.
Þangað var nú þrammað og hann knýr dyra. Að lítilli stundu liðinni
kom kona til dyra og þau heilsast innilega og hann segir farir okkar
ekki sléttar, enda mátti á sjá, við í rennblautum druslum. Konan býður
í bæinn og hún fer strax að hita kaffi og mjólk. Rökkurt var, við
komum þarna inn í herbergi sem heimafólk hefur ekki sofið í, þar sem
skuggsýnt var, og við drifum okkur í sæti hver sem betur gat. Á gólfi
var einhver hrúga og var hún einnig notuð fyrir sæti því göngulúnir fæt-
ur höfðu þörf fyrir að hvílast. En ekki leið á löngu þar til hrúgan fór að
iða. Þá varð mannskapnum heldur hverft við, en við vorum fljót að
átta okkur á að ekki mundi vera hér um reimleika að ræða í annars
svona hlýlegu húsi, sennilega hefur verið þarna aðkomumaður sem
hefur fengið að leggja sig og lagt yfir sig gæruskinn og fleira til að skýla
sér. Ekki varð nema spaug úr þessu. Svo kom blessuð konan með sjóð-
heitt kaffið, og var það mikill náðardrykkur sem hitaði þessum hröktu
ferðalöngum.
En ævintýrin voru ekki á enda þó gönguför væri að styttast. Nú var
næsta skrefið að biðja þessa blessaða Jónínu að lána hesta til að fara
yfir Grímsá. Þetta bað hinn fyrrverandi nemandi kennslukonunnar
hana um fyrir okkar hönd. Allt gekk þetta sem um var beðið, og sendi
hún heimamann eftir hestum. Vorum við að vonum innilega þakklát
þessari elskulegu konu sem í öllu vildi greiða götu Fáskrúðsfirðing-
anna, og verður í minni höfð sú fyrirgreiðsla fyrir unglinga sem áttu
ekki aðgang að hóteli eða neinu slíku. Allt var þetta á bæ hennar
endurgjaldslaust, þetta var bara talinn sjálfsagður hlutur í þá daga.
Vorum við svo selflutt yfir Grímsá, en þá var engin brú þar yfir, farið
var yfir í Sandfell. Það síðasta sem konan á Geirólfsstöðum var beðin
um, var að hringja að morgni næsta dags í Guðna Jóhannsson, bílstjór-
ann okkar góða, til að sækja mannskapinn í Sandfell.
Það sem eftir var nætur tróðu menn sér í hlöðu sem í var nýhirt hey,
en ekki held eg að fólkið hafi náð sér í fegurðarblund eftir rigningu og
ferðaþreytu, fötin voru blaut eins og gefur að skilja, það var sterkja úr
heyinu og pöddur í því, áreiðanlega lítið um svefn.
En um morguninn kom bíllinn og tók mannskapinn og ók honum
niður á Reyðarfjörð.
Þá var kominn hádagur að loknum akstri niður Fagradal, og beið
þar sjóferðarfarkosturinn eftir okkur og allt tilbúið til heimferðar.
Skipstjóri og hans frú tóku fagnandi á móti hópnum, þau biðu á