Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1991, Page 54
52
MÚLAÞING
er á kumlstaðnum. Eiríkur segist hafa fundið bein í ruðningnum, lík-
lega hrossbein.
Þetta er raunar gott dæmi um það hvernig vanþekking leiðir til eyð-
ingar á minjum, því að enginn virðist hafa orðið til að vara vegagerð-
ina við þeim.
Á afréttum Fljótsdæla eru nokkrir fornhaugar, svo sem Eyvindar-
haugur (Eyvindartorfa) við Eyvindarfjöll í Rana, og Herjólfshaugur og
Einarsdys á Vesturöræfum. Þótt landssvæði þessi hafi frá örófi alda
verið nýtt og smöluð úr Fljótsdal, þykir eðlilegra að þau teljist til
Jökuldals, og verða því ekki tekin fyrir í þessari grein.
Viðauki um ýmislegt skylt efni úr Fljótsdal.
Bjarnajaðar, Víðivöllum fremri. — í örnefnaskrá Víðivalla fremri í Fljótsdal
stendur þetta:
„Bjarnajaðar er inn við merkin; þar á að vera heygður sakamaður.“
Ekki fylgir þessu nein skýring, og ég hef ekki heldur getað fengið neinar frek-
ari upplýsingar um þennan stað.
„Kistuhaldan“ á Víðivöllum ytri. — í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar 1. útg.
9. bindi, bls. 44 er eftirfarandi smásaga:
„Nálægt 1800 var Eiríkur Einarsson, vinnumaður á Víðivöllum ytri í
Fljótsdal, að elta á, austur í svonefndri Víðivallahlíð. Hljóp hann ofan í grafn-
ing og greip í víðitág, til að létta sér hlaupið, og sleit hana lausa og hélt í hendi
sér. Kom hann ánni til manna, eins og hann ætlaði. En þá brá honum í brún,
því að tágin var þá járnhalda, auðsjáanlega úr kistugafli. Oft síðan leitaði hann
staðarins, en fann aldrei.“
Sögnin er höfð eftir Sveini Jónssyni, og honum sagði bróðir þess er fann höld-
una. Sagan speglar fyrst og fremst trú manna á falda fjársjóði, því svo er að
skilja, að menn hafi talið að haldan væri af einhvers konar „gullkistu“.
Spjótsoddur frá Glúmsstöðum. — í Minjasafni Austurlands er varðveittur
spjótsoddur úr járni, sem fannst á bænum Glúmsstöðum í Fljótsdal kringum
1955-60. Finnandinn var Sveinn Jónsson, síðast í Brekkugerði.
Að sögn Jóhönnu J. Kjerúlf (11. 7. 1975), tengdadóttur Sveins, var hann að
dytta að girðingum skammt frá bænum, þegar hann fann oddinn. Oddurinn var
orðinn töluvert ryðgaður, sem vonlegt er. Hugsanlegt er að þarna hafi verið
kuml.
Silfurhnapparnir í Geitagerði. — Það mun hafa verið um 1910, að Vigfús G.
Þormar síðar bóndi í Geitagerði, fann tvo stóra og íburðarmikla silfurhnappa