Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1991, Qupperneq 84
82
MÚLAÞING
Austurlandspóstur
Eðvald Eyjólfsson var lengi póstur frá Seyðisfirði og um Hérað, upp
Jökuldal að Skjöldólfsstöðum. Þaðan lá svo leiðin upp úr Jökuldal um
Arnórsstaðamúla, um Ármótasel og um Lönguhlíð og Þrívörðuháls að
Rangalóni, en þar var áningarstaður póstsins um árabil. Síðan lá leiðin
norður yfir Fjallgarða til Möðrudals og svo þaðan um Vegaskarð til
Víðidals. Endastöð póstsins var svo að lokum Grímsstaðir þar sem
hann mætti norðanpósti.
Þessi póstleið var, held ég að megi segja, allvel vörðuð, en þó svo
væri var ekki hægt að treysta því að vörðurnar sæjust alltaf að vetri til
þegar dimmt var í lofti og snjóbreiða huldi flest kennileiti. Þá var oft
ekki heiglum hent að fara rétta leið, einkum þó ef eitthvað bar út af
með veður. Því var það, að sóst var eftir að verða pósti samferða ef
menn þurftu að ferðast yfir fjöll og heiðar að vetri til, og var Eðvald
þekktur fyrir að vera ferðagarpur og ratvís með afbrigðum. Hann var
jafnframt heljarmenni að burðum, sem oft mun hafa komið sér vel
fyrir sjálfan hann og aðra sem urðu honum samferða í erfiðum vetrar-
ferðum. Hann var alla tíð aufúsugestur hjá okkur heima á Seli, og
þangað kom hann alltaf á ferðum sínum, þó það væri töluvert úr leið
þá Rangalón var óbyggt, en byggð þar var ekki úrtakslaus, uns býlið
lagðist að fullu í auðn 1925. Það var óbyggt þegar þessi saga sem hér
fer á eftir, gerðist.
Feigs manns hlátur
Á jólaföstu 1917, er ég var á sjötta árinu, var Eðvald póstur á leið
frá Möðrudal austur yfir Fjallgarða. Með honum í förinni voru þrír
menn: Bjarni Þorgrímsson, þá í Brunahvammi, síðar á Veturhúsum,
Steinþór Jónsson, þá vinnumaður í Möðrudal, en ættaður var hann af
Hólsfjöllum, og unglingspiltur úr Vopnafirði, sem mig minnir að væri
kallaður Óli. (Líklega Ólafur Tryggvason bróðir Helga bókbindara).
Þeir Bjarni og áðurnefndur piltur skildu svo við póstinn við Lindará og
ætluðu sem leið lægi til Vopnafjarðar, um Kollseyrudal eða Gestreið-
arstaðadal. Sem betur fór náðu þeir heilir til Vopnafjarðar en þó illa
hraktir, því þeir hrepptu hið versta veður og urðu viðskila hvor við
annan á leiðinni.
Sæmilegt veður hafði verið á Seli um morguninn, svo pabbi hafði
rekið fé sitt til beitar suður á Stóramó og var nýkominn inn. En svo
minnist ég þess að syrti snögglega að, og pabbi hraðaði sér sem mest