Bændablaðið - 13.05.2015, Síða 4
4 Bændablaðið | Miðvikudagur 13. maí 2015
Yfirvofandi verkföll 26. maí og 4. júní:
Munu lama alla olíu-
dreifingu á landinu
– Bændur hvattir til að birgja sig upp af olíu
Olíufélögin eru nú í óða önn að
búa sig undir yfirvofandi verkfall
Starfsgreinasambandsins sem að
óbreyttu mun hefjast þann 26. maí.
Ef til verkfalls kemur þá mun
dreifing eldsneytis á landsbyggðinni
að mestu leyti stöðvast frá og með
þeim degi.
Eins hefur VR, Flóinn og Efling
boðað til verkfalla sem mun stöðva
starfsemi olíufélaganna frá og með
4. júní. Frá þeim degi mun því
öll dreifing eldsneytis á landinu
stöðvast.
Páll Örn Líndal, viðskiptastjóri
hjá N1, vildi koma þeim tilmælum til
bænda að panta tímanlega eldsneyti á
heimatanka. Sama gildir eflaust um
önnur olíufélög sem bændur eru í
viðskiptum við. /HKr.
Fréttir
Árni Snæbjörnsson lét af
störfum, vegna aldurs, sem
framkvæmdastjóri Bjarg-
ráðasjóðs 1. apríl sl. en hann
hefur verið þar í forsvari frá
ársbyrjun 2010. Hann mun
áfram sinna framkvæmdastjórn
Landssamtaka veiðifélaga.
Árni lauk prófi úr búvísindadeild
Bændaskólans á Hvanneyri 1970
og hóf störf við skólann það haust.
Eftir að hann lauk meistaraprófi í
jarðvegsfræði og vatnsmiðlun, frá
Edinborgarháskóla 1977, kenndi Árni
við búvísindadeildina á Hvanneyri
til 1985, þegar hann var ráðinn sem
jarðræktar- og hlunnindaráðunautur
hjá BÍ. Hjá Bændasamtökunum hefur
hann sinnt fjölmörgum verkefnum á
síðustu 30 árum.
Á síðasta fundi stjórnar sjóðsins
voru honum þökkuð einkar góð
samskipti og farsæl handleiðsla
allar götur. Fékk Árni tóbakshorn
sem viðurkenningarvott fyrir
starf sitt, sem Guðmundur Ísfeld
handverksbóndi gerði.
/Sigurgeir Hreinsson
Árna afhent tóbakshorn
Lambfé hýst í vorhúsum
á Norðausturlandi
Í Þistilfirði og á Langanesi eru
fjölmörg vorhús sem notuð eru
til að hýsa lambfé í beitarhólfum.
Fyrstu húsin voru reist laust fyrir
aldamót eftir nokkur köld vor.
Algengt er að bændur á svæðinu
séu með tvö og allt upp í fjögur slík
hús á jörðum sínum.
Sigurður Þór Guðmundsson,
bóndi í Holti í Þistilfirði, segir að
vorhúsin hafi komið í kjölfarið á
nokkrum köldum vorum á svæðinu
en þá þurfti stundum að hýsa allt
fé í byrjun júní, jafnvel í snjóhríð.
Það er ekki sjálfgefið að hafa pláss
til að hýsa allt lambfé og því hafa
margir farið þessa leið. Uppúr
árinu 2000 fóru að sjást fleiri
hús og eru núna flestir bændur í
sveitinni með slík hús. Sigurður
segir að þetta sé ekki bara spurning
um skjól fyrir krapahríð heldur
kulda, það sé erfitt fyrir lömb að
þrífast í rigningu og tveggja gráðu
hita. Þá segist hann hafa tekið eftir
því að ærnar eigi það til að koma
lömbum sínum fyrir inni í húsinu
en fari sjálfar út á beit, en þegar
kuldatíð er þá troðist þær allar inn
í húsin. Hann segir að slíkt skjól
geti komið í veg fyrir lambadauða
og einnig júgurbólgu.
Stærð húsanna er aðeins misjöfn
en oftast er miðað við að um 40
lambær komist fyrir í húsunum.
Kristján Indriðason, bóndi á Syðri
Brekkum á Langanesi, er með
þrjú vorhús í notkun og hefur
stundum haft þar ær á vetrarbeit
ef tíð er góð eftir áramót. Hann
segist þó ekki hafa gert það í ár þar
sem tíðin hafi ekki verið sérstök.
Húsið sem sjá má á myndinni
er 12m x 6m og miðast það við
lengd raflínustauranna sem notaðir
eru í kantinn og grindin smíðuð
upp frá þeim. Engin einangrun er
í húsunum heldur eru þetta bara
einfaldar trégrindur og bárujárn.
Hann segir það þó aðeins misjafnt
hve mikla vinnu menn leggi í
húsin, sumir vandi til verka og
er þá gert ráð fyrir að nota húsin
meira en bara að vorlagi. Yfirleitt
er ekki gjafaaðstaða inni í húsunum
en auðvelt að hafa gjafagrind
fyrir utan. Kristján segir að sum
hús séu þannig gerð að hægt sé
að færa þau og er þetta hús fest
niður með fjórum horndrumbum,
og væri því hægt að færa það. Það
er hægt að gera ef mikið tað er
komið inn í húsið eftir margra ára
notkun. Bændur eru orðnir nokkuð
langeygir eftir vorinu eftir kuldatíð
undanfarið og segir Kristján að
þetta sé með því mesta af snjó sem
hann hafi séð í maímánuði í lengri
tíma. Hann segir að sauðburður sé
að byrja og erfitt að horfa upp á
túnin undir snjó því hætt sé við
því að gróðurinn verði einhvern
tíma að taka við sér eftir svo langa
kuldatíð. /GBJ
Kristján Indriðason við eitt af vorhúsunum sem hann hefur komið sér upp. Myndir / Gréta Bergrún Jóhannesdóttir
Sigurður Þór Guðmundsson með nýfætt lamb en sauðburður í Holti hófst
um liðna helgi.
Hér sjást tvö vorhús við bæinn Syðri Brekkur.
Vorhús á Brúarlandi.
Sigurgeir Hreinsson, formaður stjórnar Bjargráðasjóðs, færir Árna tóbaks-
hornið góða. Mynd / smh
Gistinóttum á hótelum fjölgaði í mars
Gistinætur á hótelum í mars voru
216.900 sem er 14% aukning
miðað við mars 2014.
Gistinætur erlendra gesta voru
86% af heildarfjölda gistinátta í
mánuðinum en þeim fjölgaði um
19% frá sama tíma í fyrra á meðan
gistinóttum Íslendinga fækkar um
8% milli ára.
Á vef Hagstofunnar segir að
flestar gistinætur á hótelum í mars
voru á höfuðborgarsvæðinu eða
156.700 sem er 8% aukning miðað
við mars 2014. Næstflestar voru
gistinætur á Suðurlandi eða um
31.000. Erlendir gestir með flestar
gistinætur í mars voru; Bretar 70.600,
Bandaríkjamenn með 41.200, og
Þjóðverjar með 17.500 gistinætur.
Á tólf mánaða tímabili apríl
2014 til mars 2015 voru gistinætur
á hótelum 2.409.700 sem er fjölgun
um 14% miðað við sama tímabil ári
fyrr. /VH