Bændablaðið - 13.05.2015, Qupperneq 36
36 Bændablaðið | Miðvikudagur 13. maí 2015
Helstu nytjaplöntur heimsins
Kassavarót er líklega sú af
helstu nytjaplöntum heims sem
Íslendingar þekkja minnst nema
helst sem tapíókamjöl sem meðal
annars var vinsælt í búðingum á
sjöunda áratug síðustu aldar. Engu
að síður er kassava í fimmta sæti
yfir mest nýttu plöntu í heimi.
Árið 2013 nam heimsframleiðsla
á kassava tæpum 277 milljónum
tonna og hafði aukist um 21 milljón
tonn frá árinu áður samkvæmt
því sem segir á heimasíðu
Alþjóðamatvælastofnunarinnar
(FAO). Spár gera ráð fyrir að
framleiðslan eigi eftir að aukast enn
meira í framtíðinni. Ekki síst vegna
aukins framboðs á erfðabreyttu
kassava en til skamms tíma hafa
rannsóknir og framræktun á
plöntunni verið takmarkaðar.
Mest ræktað í Afríku
sunnan Sahara
Þrátt fyrir að mikið sé ræktað af
rótinni í Asíu og Suður-Ameríku
er mest ræktað af kassava í Afríku
sunnan Sahara. Framleiðsla í Nígeríu
nam 53 milljónum tonna árið 2013,
sama ár voru rúm 30 milljón tonn
ræktuð í Taílandi, 24 milljón í
Indónesíu og 21,5 í Brasilíu. Næst á
eftir fylgja Afríkuríki eins og Kongó,
Angóla, Gana og Mósambík með
framleiðslu sem er milli 10 og 16
milljón tonn hvert.
Mikilvægi kassava í ríkjum
sunnan Afríku er slíkt að í Gana
er plantan stærstur hluti af allri
landbúnaðarframleiðslunni og yfir
30% af fæðu sem neytt er í landinu.
Gana er jafnframt stærsti útflytjandi
kassava í Afríku. Nafn plöntunnar á
máli innfæddra þar er agbeli og þýðir
það er líf.
Meðaluppskera af kassava á
hektara er nálægt 13 tonnum en á
Indlandi hefur hún farið í 35 tonn.
Taíland, Víetnam og Indónesía
flytja mest út af kassava og afurðum
sem unnar eru úr plöntunni en í
Afríkulöndunum er mest af henni
neytt heimafyrir enda gríðarlega
mikilvæg matjurt og uppspretta
næringarefna þar.
Fátækrafæða
Nafnið kassava er spænskt að
uppruna en víða um heim gengur
plantan undir heitunum manihot
eða tapioka en á latínu kallast
hún Manihot esculenta. Innan
Manihot ættkvíslarinnar teljast
tæplega hundrað tegundir sem eru
smáplöntur, runnar og klifurjurtir og
eiga allar það sameiginlegt að vaxa
upp af stórum rótarhnúð. Staðbrigði
kassavarótarinnar skipta þúsundum.
Stór hluti ræktunar á rótinni
fer fram á smábýlum og oftar en
ekki sjá konur um ræktunina með
frumstæðum verkfærum. Talið er að
kassava sé undirstöðufæða tæplega
eins milljarðs fólks á fátækustu
hitabeltissvæðum heims.
Plantan dafnar vel við margs
konar skilyrði og gerir litlar kröfur
til jarðvegs. Hún þrífst bæði í röku
og þurru loftslagi en þolir ekki að
hitinn fari niður fyrir frostmark.
Kjöraðstæður fyrir plöntuna liggja
yfir miðbaug milli 30. breiddargráðu
suður og norður þar sem árúrkoma
er um 50 millimetrar. Við slíkar
aðstæður vex kassava vel allt frá
fjöruborði og upp í 2000 metra hæð
yfir sjávarmáli.
Lengst af hefur verið litið á rótina
sem fátækrafæðu en þar sem hún er
harðgerð og þurrkþolin hefur hún
oft komið í veg fyrir hungurdauða
milljóna manna á þurrkatímabilum
þar sem enga aðra fæðu hefur verið
að fá.
Útlit og ræktun
Plantan er fjölær runni með
trékenndum stöngli og nær fimm
metra hæð. Blöðin heilrennd og
fimm til níu fingruð og standa á
Vilmundur Hansen
vilmundur@bondi.is
Stór hluti ræktunar á rótinni fer fram á smábýlum og oftar en ekki sjá konur um ræktunina.
Hitabeltisrótin Kassava