Bændablaðið - 13.05.2015, Blaðsíða 6
6 Bændablaðið | Miðvikudagur 13. maí 2015
Málgagn bænda og landsbyggðar
Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjöl margra annarra er tengjast land búnaði.
Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu.
Árgangurinn kostar kr. 7.500 en sjötugir og eldri og lífeyrisþegar greiða kr. 3.750. Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands.
Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300– Fax: 562 3058 – Kt: 631294-2279
Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 – Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is
Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is
Auglýsingastjóri: Erla H. Gunnarsdóttir ehg@bondi.is – Sími: 563 0303 – Frágangur fyrir prentun: Prentsnið.
Netfang blaðsins (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Netfang auglýsinga er augl@bondi.is Vefsíða blaðsins er www.bbl.is
Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Landsprent og Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins. ISSN 1025-5621
LEIÐARINN
Háhraða nettenging um landið
þykir sjálfsögð krafa nú á tímum,
þannig að jafnræðis sé gætt meðal
landsmanna.
Góð nettenging, ekki síður en gott
aðgengi að rafmagni, er nauðsynlegt
til að fólk geti verið í eðlilegum
samskiptum við tæknivæddan
heim nútímans. Í sveitum er þetta
lykilatriði, þar sem mjaltaþjónar eru
t.d. meira og minna beintengdir við
þjónustuaðila í þéttbýlinu.
Ef áætlanir um netvæðingu
sem Haraldur Benediktsson,
alþingismaður og fyrrverandi
formaður Bændasamtaka Íslands,
hefur verða að veruleika, þá þarf svo
sem ekki að örvænta. Hefur greinilega
vel verið unnið að þeim áætlunum.
Talandi um þetta þá varð
undirritaður vægast sagt fyrir
áfalli þegar í ljós kom hvernig
ástand netvæðingar og símamála
er á höfuðborgarsvæðinu. Þar
er kerfisfargan samkvæmt EES-
reglum greinilega farið að hamla
málum allverulega, nú eða getuleysi
fyrirtækja til að sinna sínu hlutverki.
Ef fólk flytur úr einni íbúð í aðra
og tilkynnir sínu símafélagi um slíkt,
þá er boðið upp á viku til 14 daga bið.
Allavega er það þannig hjá Vodafone
og ég geri ráð fyrir að slíkt eigi líka
við um önnur símafélög. Þegar spurt
er um ástæðu þessarar afturfarar í
síma- og nettengingum er fyrst vísað
í að það sé mikið að gera og síðan í
að fyrirtæki sem heitir Míla sjái um
tengingar úti í götu og það geti tekið
langan tíma. Var þó lofað að tengja
þetta með hraði eftir að spurt var hvort
önnur fyrirtæki væru ekki með betri
þjónustu.
Eftir hálfan mánuð í net- og
símaleysi og endalaus símtöl héldu
þessi tvö fyrirtæki áfram að vísa hvort
á annað og lítið gerðist. Þegar bent var
á að þetta gengi ekki lengur var loks
sendur maður merktur Vodafone sem
fullvissaði sig um að þetta væri allt
Mílu að kenna. Fór svo sami maður,
og nú í hlutverki starfsmanns Mílu,
og kippti netmálinu í lið í gegnum
götutengingu sem hafði verið rangt
tengd frá upphafi.
Beiðni um flutninginn var gerð um
miðjan apríl, nú þegar þetta er skrifað
nær mánuði síðar, er enn ekki komið
samband á heimasímann. Sjónvarp
var farið þó að virka nokkurn
veginn skammlaust eftir lagfæringar
á kerfinu hjá símafyrirtækinu á
mánudagskvöldið 11. maí.
Á þessu sést að það er greinilega
eitthvað mikið að í fjarskiptamálum
á Íslandi. Það að ástandið sé jafnvel
verra en það var fyrir aldarfjórðungi
hvað færslu á síma og nettengingum
áhrærir á höfuðborgarsvæðinu,
hlýtur að vekja spurningar um hvort
fyrirtækin séu yfirhöfuð fær um að
sinna þessari þjónustu. /HKr.
LOKAORÐIN
Enn vinnustöðvanir
Verkfall dýralækna og fleiri starfsstétta innan
BHM hefur nú staðið frá 20. apríl og lengur
hjá sumum. Lítil hreyfing hefur verið á málinu
þó að síðustu fréttir hermi að einhverjar nýjar
lausnir gætu verið að fæðast.
Slíkar fregnir eru þó enn í besta falli óljósar.
Þá eru aðgerðir Starfsgreinasambandsins hafnar
og aftur er von á tveggja daga vinnustöðvun þar
í næstu viku og svo allsherjarverkfalli þann 26.
maí. Því til viðbótar er verið að greiða atkvæði
um verkföll innan VR og Flóabandalagsins og
hjúkrunarfræðingar hafa boðað verkfall á sama
tíma. Takist ekki að afstýra þeim aðgerðum
verður atvinnulíf í landinu allt meira og minna
lamað um næstu mánaðamót.
Grafalvarleg staða
Vaxandi áhyggjur eru af stöðunni og vegna
þessa sendu Bændasamtökin sjávarútvegs- og
landbúnaðarráðherra bréf þann 4. maí þar sem
segir meðal annars:
„Staðan í íslenskum landbúnaði vegna
verkfallsins er grafalvarleg. Þar brennur heitast
á í alifugla- og svínarækt en starfsemi í þeim
greinum er með þeim hætti að eldi og slátrun fer
fram jafnt og þétt allt árið um kring. Afurðirnar
eru að langmestum hluta seldar ferskar og verð
þeirra fellur um leið og þær eru frystar.
Vegna verkfalls dýralækna fer engin
heilbrigðisskoðun fram í sláturhúsum og þar með
fer engin slátrun fram. Kjúklingar vaxa hratt upp
í sláturstærð og ef þeim er ekki slátrað á þeim
tíma sem gert er ráð fyrir, halda þeir eðlilega
áfram að stækka. Það verður svo aftur til þess
að of þröngt verður um þá í húsunum. Samfara
eykst verulega hætta á sjúkdómum.
Samkvæmt lögum nr. 55/2013, um velferð
dýra og reglugerða með stoð í þeim eru ríkar
kröfur gerðar um aðbúnað búfjár, þar með talið
þéttleika í húsum. Sé ekki hægt að slátra dýrum
áður en farið er yfir mörk um þéttleika í eldi
er með því brotið á dýrunum sem í hlut eiga.
Jafnframt eru bændur settir í þá stöðu að vera
gert ókleift að fylgja lögum sem þeim er ætlað
að starfa eftir, af völdum kjaradeilu sem þeir eiga
engan hlut að.“
Engir góðir kostir í stöðunni
Undanþágur hafa fengist, fyrst vegna alifugla- og
síðar svínaslátrunar sem hafa gert bændum kleift að
létta á þeim húsum þar sem orðið var of þröngt. Til
þess að hún fengist þurftu framleiðendur að lofa að
afurðirnar færu ekki á markað, heldur yrðu frystar
og ekki markaðssettar fyrr en deilan væri leyst. Það
er engin lagaskylda að gera slíkt og þessi leið var og
er afarkostur fyrir bændur, en annað var einfaldlega
ekki talið forsvaranlegt með hliðsjón af dýravelferð.
Engir góðir kostir voru í stöðunni.
Fagráð um velferð dýra fundaði síðan þann 5.
maí að beiðni fulltrúa Bændasamtakanna og ályktaði
eftirfarandi
„Fagráð um velferð dýra lýsir yfir þungum
áhyggjum vegna áhrifa yfirstandandi verkfalls
dýralækna hjá Matvælastofnun á velferð dýra.
Ráðið hvetur stofnunina til þess að hafa náið eftirlit
með velferð eldisdýra meðan á verkfalli stendur. Í
þeim tilvikum sem ljóst er að þéttleiki sláturdýra er
yfir leyfilegum mörkum þarf að bregðast við strax
með slátrun. Ráðið tekur ekki afstöðu til þess hvort
afurðir séu geymdar eða settar á markað.“
Hinar takmörkuðu undanþágur sem að framan
greinir eru aðeins skammtímalausn á bráðavanda.
Afurðirnar fara ekki á markað og það þýðir að
bændurnir fá ekki greitt fyrir þær. Það hefur fljótt
áhrif á lausafjárstöðu búanna. Innan tíðar geta þau
ekki keypt fóður og önnur nauðsynleg aðföng, borgað
af lánum, að ekki sé talað um að greiða starfsfólki
eða eigendum laun. Það bitnar að lokum enn harðar
á dýravelferðinni en aðbúnaðarvandamálin sem lýst
er að framan.
Tjónið er verulegt hvern einasta dag sem
verkfallið stendur og er þegar óafturkræft, því þær
frosnu afurðir sem safnast hafa upp eða munu gera
það eru undantekningalaust verðminni en ferskar. Það
munu bændur ekki fá bætt. Afleiðingar verkfallsins
munu því hafa varanleg áhrif á rekstrargrundvöll
búanna sem um ræðir. Verkfallið getur hreinlega
knúið sum þeirra í gjaldþrot og valdið mikilli röskun
á kjötframleiðslu í landinu. Samhliða verða um leið
afar neikvæð áhrif á afkomu afurðastöðva, enda geta
þær hvorki sinnt sínum viðskiptavinum eða staðið
við gefnar skuldbindingar.
Sala á innlendu alifugla- og svínakjöti er 260
tonn á viku að meðaltali. Sú framleiðsla er ekki
að koma á markaðinn við núverandi aðstæður,
heldur er henni safnað upp, annaðhvort með því að
fresta slátrun eða með frystingu. Þegar samningar
loks nást er hætt við því að mikið magn af kjöti
leiti á sama tíma út á markaðinn, með tilheyrandi
verðlækkunum á öllu kjöti og verulega neikvæðum
áhrifum á afkomu bænda og afurðastöðva. Áhrif
þess geta staðið allt þetta ár og fram á það næsta.
Það er langt umfram þann tíma sem verkfallið er
líklegt til að standa, þó það sé þegar orðið allt of
langt.
Skilningur á þeim langtímaáhrifum sem
verkfallið mun hafa er því miður takmarkaður.
Það kom berlega í ljós síðastliðinn föstudag
þegar að hafnað var undanþágum um innflutning
á frjóeggjum annars vegar til eggjaframleiðslu og
hinsvegar til kjúklingaræktar. Fáist þær sendingar
ekki afgreiddar kemur gat í innlenda framleiðslu
eggja og kjúklinga sem kemur fram síðla þessa árs,
eða á því næsta. Það er í hæsta máta ósanngjarnt
að verkfallsaðgerðir geti valdið tjóni þriðja aðila,
löngu eftir að deilunni sjálfri lýkur. Slíkt er hrein
árás á bændur sem eru ekki aðilar að deilunni.
Semjið strax!
Verði af verkfalli Starfsgreinasambandsins verður
vandinn víðtækari. Það mun hafa mikil og veruleg
áhrif á matvælavinnslu og dreifingu matvæla sem
og víða annars staðar í samfélaginu. Það mun m.a.
hafa áhrif á söfnun mjólkur frá bændum á tíma
þar sem mjólkurframleiðsla bænda er í hámarki.
Náist ekki samningar gæti þurft að hella niður allt
að þremur milljónum lítra af mjólk á viku sem er
tjón upp á 250 milljónir króna
Það verður því að ítreka aftur þá kröfu til
deiluaðila sem kom fram hér í blaðinu síðast.
Semjið strax! Þetta getur ekki gengið svona lengur.
/SSS
Netvæðing hvað?
er haldið í skorðum með nælonspotta.