Bændablaðið - 13.05.2015, Page 46

Bændablaðið - 13.05.2015, Page 46
46 Bændablaðið | Miðvikudagur 13. maí 2015 Talsverð umræða hefur verið um búnaðargjald undanfarin misseri og hvort innheimta þess sé lögleg og ef svo er í hvað gjaldið fari. Í lögum um búnaðargjald (nr. 84/1997) segir að innheimta skuli sérstakt búnaðargjald af búvöruframleiðendum, sem nemur 1,2%, af gjaldstofni. Gjaldið telst skattur og innheimta þess lýtur sömu lögmálum og innheimta annarra skatta, þó að það renni allt aftur til baka í starfsemi á vegum samtaka bænda. Gjaldstofn búnaðargjalds er velta búvöru og tengdrar þjónustu hjá búvöruframleiðendum. Gjaldið er lagt á alla starfsemi sem flokkast undir ÍSAT atvinnugreinanúmer Hagstofunnar sem byrja á 01 eða 02, með örfáum undantekningum (ÍSAT nr. 01.61 eða hærri og 02.40). Framleiðendum sem eru bæði með búnaðargjaldsskylda starfsemi og aðra sem ekki er gjaldskyld, ber að halda þeim aðskildum í bókhaldi sínu. Leysti eldri gjöld af hólmi Gjaldið var upphaflega tekið upp 1997 og leysti þá af hólmi nokkur eldri sjóðagjöld sem landbúnaðurinn greiddi til að fjármagna sameiginleg verkefni. Í upphafi var gjaldið 2,65% en þá runnu hlutar þess til Framleiðsluráðs landbúnaðarins og Lánasjóðs landbúnaðarins. Framleiðsluráð var lagt niður í árslok 1999 og samhliða lækkaði gjaldið, fyrst í 2,55% og síðan í 2%. Ríkið seldi Landsbankanum Lánasjóð landbúnaðarins árið 2005 og sjóðurinn var í kjölfarið sameinaður bankanum, sem þá var í eigu einkaaðila. Samhliða þeim breytingum lækkaði gjaldið í 1,2% og hefur verið óbreytt síðan. Gjaldið er rekstrarkostnaður Búnaðargjald er rekstrarkostnaður og frádráttarbært frá tekjum þess árs sem það reiknast af. Búnaðargjald er innheimt fyrirfram og tekur fyrirframgreiðslan mið af álagningu fyrra árs og greiðist með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum mánuðina ágúst til desember á viðkomandi tekjuári. Ef álagning er hærri en ákvörðuð fyrirframgreiðsla skal greiða mismuninn með sem næst jöfnum greiðslum samhliða innheimtu annarra skatta. Álagning búnaðargjalds fer fram um leið og álagning annarra opinberra gjalda og kemur til innheimtu um leið og þau. Gjaldskyldir búvöruframleiðendur skulu skila framtali til ríkisskattstjóra þar sem gjaldskyldar fjárhæðir eru sundurliðaðar eftir búgreinum og jafnframt búvöruframleiðandi sundurgreina gjaldstofn eftir starfsstöðvum ef aðsetur þeirra er annað en lögheimili framleiðanda og á starfssvæði annars búnaðarsambands. Þetta er nauðsynlegt til að skipting gjaldsins gangi upp en það rennur bæði til félaga sem starfa á landsvísu, eftir búgreinum og eftir svæðum. Greiðendur búnaðargjalds 3.156 Árið 2014 greiddu bændur alls 516,7 milljónir króna í búnaðargjald. Samkvæmt því var gjaldskyld velta 43,1 milljarður króna. Greiðendur voru alls 3.156. Þessir fjármunir renna til Bændasamtakanna, búgreinafélaga, búnaðarsambanda og Bjargráðasjóðs, samkvæmt ákveðnum hlutföllum sem ráðast af því um hvaða búgrein er að ræða. Bæði Bændasamtökin og búnaðarsamböndin láta hinsvegar talsverðan hluta af sínum skerf renna beint til Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML), sem sinnir ráðgjafastarfi í landbúnaði en því starfi var áður skipt á milli Bændasamtakanna og búnaðar- sambandanna. Af framangreindum 516,7 milljónum króna runnu því 180,6 til RML í fyrra, 150,4 milljónir skiptust milli búgreinafélaganna ellefu, 102,6 milljónir runnu síðan til Bændasamtakanna, 50,5 milljónir til Bjargráðasjóðs og 32,6 milljónir samtals til búnaðarsambandanna, sem einnig eru ellefu. Fjármunirnir til Ráðgjafar- miðstöðvarinnar eru nýttir til fræðslustarfs, menntunar- og kynningarmála og til að greiða niður þjónustu fyrirtækisins. Starfsemi RML er um allt landi og er þjónustan í boði fyrir allar bændur óháð búsetu, búnaðargjald nýtist til jöfnunar á þeim kostnaði. Þeir viðskiptavinir RML sem greiða búnaðargjald fá 50% afslátt af tímagjaldi fyrirtækisins. Greiðslur í bjargráðasjóð mismunandi eftir búgreinum Mjög mismunandi er eftir búgreinum hvað hátt hlutfall búnaðargjaldsins rennur til Bjargráðasjóðs. Loðdýra- og skógarbændur greiða ekkert til sjóðsins og ekki heldur grænmetis- eða blómaframleiðendur. Aðrar búgreinar greiða 5 til 30 punkta, en alifuglabændur skera sig úr á hinum endanum því þeir greiða 75 punkta. Með punktafjölda er miðað við að gjaldið í heild sé 120 punktar (1,2%). Búgrein sem greiðir 30 punkta til Bjargráðasjóðs er því að láta fjórðung tekna af gjaldinu renna til sjóðsins. Bjargráðasjóður notar tekjurnar til að fjármagna bótagreiðslur úr B-deild sjóðsins. Sjóðurinn veitir ekki tryggingavernd heldur ráðast bótagreiðslur til einstakra búgreina alfarið af fjárhagslegu svigrúm í „potti“ hverrar búgreinar á hverjum tíma. Heildartekjur sjóðsins af búnaðargjaldi voru 50,5 milljónir árið 2014 eins og að framan greinir. Það á sameiginlega við búgreinafélögin, Bændasamtökin og búnaðarsamböndin að þau hafa litið á tekjur sínar af búnaðargjaldi sem félagsgjöld og þau eru nýtt til þess að fjármagna almenna starfsemi samtakanna svo sem hagsmunagæslu, skrifstofuhald, laun starfsmanna kynningarstarf, aðalfundi og önnur verkefni. Áherslur eru mótaðar af félagsmönnum hvers félags fyrir sig og ráðast mjög af þeim málum sem brenna á þeim á hverjum tíma. Misjafnt er eftir búgreinum hvað mikið þær greiða til sinna búgreinafélaga. Sauðfjárræktin greiðir minnstan hluta, eða 15 punkta, en mest greiðir eggja-, grænmetis- og blómaframleiðsla eða 75 punkta. Aðrir raða sér þar á milli Búgreinafélögin fengu samtals 150,4 milljónir í fyrra í tekjur af búnaðargjaldi. Landssamband kúabænda fékk þar stærstan hlut eða 58,4 milljónir, í krafti mikillar veltu í þeirri grein og næst kom Samband garðyrkjubænda með 27,3 milljónir og þar á eftir Landssamtök sauðfjárbænda með 15,3 milljónir, en aðrir minna. Til Bændasamtakanna renna á bilinu 15 til 40 punktar frá hverri búgrein. Minnstur hluti eða 15 punktar kemur frá svína-, alifugla- og eggjaframleiðslu en 40 punktar koma frá loðdýra-, sauðfjár-, hrossa- og æðarrækt. Heildartekjur BÍ af búnaðargjaldi voru 102,6 miljónir árið 2014 eins og að framan greinir. Þá er búið að draga frá þau 31% af tekjunum sem renna til RML. Síðan skiptast 32,6 milljónir á milli búnaðarsambandanna. Hlutur búgreinanna er sem fyrr ólíkur. Nautgripa-, sauðfjár- og hrossarækt greiða 40 punkta, en allar aðrar búgreinar greiða 10 punkta. Stærsti hlutinn rennur til Búnaðarsambands Suðurlands eða 10,5 milljónir. Næst kemur Búnaðarsamband Eyjafjarðar með 4,2 milljónir og þá Búnaðarsamtök Vesturlands með 4,1 milljón. Árétta verður að búnaðarsamböndin láta 80% af búnaðargjaldstekjum sínum renna til RML en tölurnar hér að framan miðast við þá fjármuni sem renna beint til þeirra. Lögmæti búnaðargjalds skoðað Árið 2010 kvað Mannréttinda- dómstóll Evrópu upp dóm um að innheimta iðnaðarmálagjalds, sem var af svipuðum toga og búnaðargjaldið, stæðust ekki ákvæði um félagafrelsi Mannréttindasáttmála Evrópu. Innheimtu iðnaðarmálagjaldsins var hætt skömmu síðar, en það hafði að hluta runnið til Samtaka iðnaðarins á svipaðan hátt og búnaðargjaldstekjur renna til samtaka bænda. Mikil líkindi eru með innheimtu búnaðargjalds og iðnaðarmálagjalds og vegna þess fóru Bændasamtökin þess á leit við Lagastofnun Háskóla Íslands að hún tæki að sér að gera lögfræðilega álitsgerð um búnaðargjald. Sigurður Líndal skilaði álitsgerð sinni fyrir hönd. Lagastofnunar Íslands í október 2011. Að mati Bændasamtakanna var niðurstaða álitsgerðarinnar sú að tekjum af búnaðargjaldi mætti verja til þekkingar- og þróunarstarfs í landbúnaði, til dæmis með rekstri Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, upplýsinga- og kynningarstarfs sem og reksturs Bjargráðasjóðs. En verulegur vafi léki á því að nota mætti tekjurnar til reksturs hagsmunagæslu. Segja má að innheimta gjaldsins hafi verið í nokkurri óvissu síðan þá. Stjórnvöld hafa boðað að innheimtunni verði hætt, en ekkert liggur fyrir um tímasetningu þess eða hvernig það verður útfært það er hvort innheimtan falli alfarið niður eða haldi áfram til þeirra verkefna sem fullvíst er talið að standist lög. Búnaðarþing 2015 markaði þá stefnu að halda ætti áfram innheimtu til slíkra verkefna, en ekki fella gjaldið niður í heild. Nýrra leiða leitað Meðal samþykkta sem gerðar voru á síðastliðnu Búnaðarþingi var að leita nýrra leiða til að fjármagna Bændasamtök Íslands fari svo að búnaðargjald verði lagt niður. Sú stefna var mörkuð hvað varðar Bændasamtökin að þegar og ef tekna af búnaðargjaldi nýtur ekki lengur við skuli fjármagna samtökin með 0,3% veltutengdu félagsgjaldi. Sú stefna nær bara til BÍ en ekki búnaðarsambanda eða búgreinafélaga, sem ætlað er að móta eigin áherslur um málið eftir því sem félögin sjálf telja ákjósanlegast. /VH Gjaldstofn búnaðargjalds er velta búvöru og tengdrar þjónustu hjá búvöruframleiðendum: Hvað er búnaðargjald og í hvað er það notað? Núgildandi kjarasamningur milli Starfsgreinasambands Íslands og Bændasamtaka Íslands gildir frá 1. febrúar 2014 til 28. febrúar 2015. Þótt samningurinn sé runninn út eiga aðilar ekki í neinum vinnudeilum og kaup og kjör skulu vera samkvæmt honum þar til nýr samningur verður gerður. Aðild að kjarasamningi er lögbundin og ákvæði um hana er að finna í 5. og 6. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Kjarasamningur bindur ekki aðeins félagsmenn þess stéttarfélags sem hann gera, heldur einnig alla þá sem vinna þau störf sem samningur tekur til á félagssvæðinu. Samkvæmt 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 skulu laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir. Því skiptir ekki máli hvort launamaður er félagsmaður í stéttarfélagi eða ekki, né hvort atvinnurekandi er aðili að samtökum atvinnurekenda eða ekki. Kjarasamningurinn kveður á um lágmarkskjör þessara aðila. Tilgangur þessa ákvæðis er sá að tryggja launafólki ákveðin lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningum og koma í veg fyrir að menn séu þvingaðir til að standa utan stéttarfélaga. Engu skiptir heldur varðandi ráðningarkjör þótt vinnumiðlanir eða starfsmannaleigur hafi haft milligöngu um ráðningu. Greiðsla tryggingagjalds af launum er einnig forsenda þess að starfsmaðurinn hafi rétt til bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði og lífeyris- og slysatryggingum almannatrygginga. Samningurinn tekur til starfsfólks sem starfar við hvers kyns búfjárrækt, jarðrækt, skógrækt, garðrækt og ylrækt. Einnig eftirfarandi starfsemi, fari hún fram á lögbýlum: Eldi og veiðar vatnafiska, nýting hlunninda, framleiðsla og þjónusta. Hann nær hins vegar ekki til þeirra sem starfa við ferðaþjónustu nema hún sé stunduð í smærri stíl eins og segir í samningnum, enda sé það samþykkt af hálfu viðkomandi stéttarfélags. Kaup og kjör Laun þau sem samið er um í samningnum eru lágmarkslaun og miðast við að virkur vinnutími í dagvinnu sé 37 klst. og 5 mínútur á viku. Vinnutíma skal hagað þannig að unnið sé frá kl. 07.55 – 17.00 mánudaga til föstudaga eða 07.30 – 16.35 mánudaga til föstudaga. Í sérstökum tilvikum er heimilt að semja um rofinn vinnutíma ef skipulag búrekstursins krefst slíks. Dagvinna skal þó aldrei hefjast fyrr en kl. 07.00 og aldrei standa lengur en til kl. 19.00. Dagvinna getur þó ekki staðið lengur en 7 klst. og 25 mínútur (virkar vinnustundir) á þessu tímabili. Samningsbundin yfirvinna hefst þegar umsaminni dagvinnu er lokið, 7 klst. og 25 mín. virkum vinnustundum á ofangreindu tímabili. Fyrir vinnu á laugardögum, sunnudögum og örðum samningsbundnum frídögum greiðist yfirvinnukaup. Einnig vinnu umfram 173,33 dagvinnustundir á mánuði. Sé unnið á dögum sem skilgreindir eru sem stórhátíðardagar í aðalkjarasamningi SGS og SA skal greiða stórhátíðakaup. Í kjarasamningi Bændasamtaka Íslands og fyrrnefndra aðila er að finna nánari ákvæði um launakjör, frítíma o.s.frv. Einnig aðbúnað og hámarks greiðslur fyrir fæði og húsnæði. Í sérstökum tilvikum er heimilt að semja um rofinn vinnutíma ef skipulag búreksturs krefst slíks og skal það skilgreint í ráðningarsamningi. Sé það gert skal dagvinna ekki hefjast fyrr en kl. 07.00 og eigi standa lengur en til 19.00. Dagvinna getur eftir sem áður ekki staðið lengur en 7 klst og 25 mín. (virkar vinnustundir) á þessu tímabili. Aðbúnaður og öryggi Vinnuveitandi skal leggja starfsmönnum til vinnufatnað og skófatnað eftir þörfum og eðli vinnunnar. Um öryggisbúnað, aðbúnað og hollustuhætti gilda ákvæði 7. kafla aðalkjarasamnings Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Samkvæmt lögum um vinnustaðaskírteini nr. 42/2010 skal atvinnurekandi sjá til að hann sjálfur og starfsmenn hans fái vinnustaðaskírteini er þeir hefja störf. Samkvæmt reglugerð 1174/2011 gildir þetta ákvæði m.a. um rekstur gististaða, þar með talið tjaldsvæða og svæða fyrir húsbýla og hjólhýsi. Einnig eiga allir starfsmenn í veitingasölu og þjónustu að bera vinnustaðaskírteini við störf sín. Ráðningarsamningar Mikilvægt er að gera skriflega ráðningarsamninga. Þar skal t.d. tilgreina ráðningartíma, uppsagnarfrest, hvort samið sé sérstaklega um vinnutíma og einnig útfærslur ef um hlutastarf er að ræða eða ef skipulag krefst þess að samið sé um rofinn vinnutíma. Einnig um frádrátt vegna fæðis og húsnæðis, lífeyrissjóð og fleira. Vinnuveitandi ber ríka ábyrgða á því að gerður sé skriflegur ráðningarsamningur og þarf því að kynna sér vel hvaða atriði þurfa að koma fram í honum. Tryggingar og vinnuslys Greiðsla tryggingagjalds er forsenda þess að starfsmaðurinn hafi rétt til bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði og lífeyris- og slysatryggingum almannatrygginga. Atvinnu- rekendum ber einnig að kaupa atvinnuslysatryggingu fyrir starfsmenn sína samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Tryggingin gildir að jafnaði vegna slysa á vinnustað og á beinni leið til eða frá vinnu. Örorkubætur eru greiddar vegna varanlegrar örorku sem reiknuð er í prósentustigum. Dagpeningar eru greiddir vegna tímabundinnar örorku og dánarbætur vegna andláts launamanns. Öll slys á vinnustað ber að tilkynna til Vinnueftirlitsins ef starfsmaður er frá vinnu einn eða fleiri daga vegna þess. Rannsókn lögreglu og Vinnueftirlits er nauðsynleg ef líkamstjón hefur orðið og er oft frumgagn við sönnun orsaka og skaðabótaskyldu. Nauðsynlegt er einnig að halda saman öllum kvittunum vegna útlagðs kostnaðar og eignatjóns. Um vinnu barna og unglinga gildir reglugerð nr. 426/1999. Í henni eru m.a. talin upp verkefni sem ekki má fela unglingum undir 18 ára aldri og undanþágur frá því að tilteknum kröfum uppfylltum. Að lokum Að mörgu er að hyggja við ráðningu fólks í vinnu. Auk þess að greiða laun og standa skil á gjöldum þeim tengdum bera atvinnurekendur ýmsar skyldur t.d. varðandi aðbúnað starfsfólks og tryggingar. Bændur er hvattir til að kynna sér vel þá kjarasamninga og reglur sem gilda hverju sinni og tryggja þannig að þessi mál séu í góðum farvegi. Skriflegir samningar eru mikilvægir ef ágreiningur kemur síðar upp milli aðila. /EB Kjarasamningar starfsfólks í landbúnaði

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.