Bændablaðið - 13.05.2015, Síða 30

Bændablaðið - 13.05.2015, Síða 30
30 Bændablaðið | Miðvikudagur 13. maí 2015 Útflutningur – Verðmætasköpun og ný tækifæri Sæmark: Útflutningur á ferskum fiski til Bandaríkjanna alltaf að aukast Sölu- og markaðsfyrirtækið Sæmark flytur út um átta þúsund tonn af ferskum og frystum fiski á ári til Evrópu og Bandaríkjanna. Allir fiskur sem fyrirtækið selur til Bandaríkjanna er ferskur og sendur með flugi og er kominn til dreifingaraðila þar tveimur sólarhringum eftir að hann er veiddur. Svavar Þ. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sæmark ehf., segir að fyrirtækið sé 30 ára gamalt og með þeim fyrstu sem fóru að selja ferskan fisk úr landi. „Með tímanum hafa þróast traust sambönd í viðskiptalöndum okkar og í dag er svæðið í kringum Boston í Bandaríkjunum einn af okkar stærstu ferskfiskmörkuðum og eftirspurn eftir ferskum íslenskum fiski mikil þar.“ Ferskleiki og afhendingaröryggi Svavar segir að þjónustukerfi Icelandair veiti útflytjendum á ferskum fiski frá Íslandi forskot á samkeppnisaðila í öðrum löndum þar sem fiskurinn frá Íslandi geti verið eingöngu eins sólarhrings gamall þegar hann berst til dreifingaraðila í Bandaríkjunum. „Þrátt fyrir að ferskur flugfiskur frá Íslandi sé álitinn dýr kostur vegur upp á móti að hann er góður, ferskur og afhendingaröryggið er tryggt og það kunna okkar viðskiptavinir að meta. Við getum svo ekki litið framhjá því að meðferð hráefnisins hefur líka batnað gríðarlega hér heima frá því sem áður var. Í dag er fiskurinn kældur um leið og hann kemur um borð og honum haldið kældum í gegnum allt ferlið og það eykur gæði og lengir líftíma vörunnar.“ Leigðum flugvél „Fyrst þegar við fórum að flytja út ferskan fisk var framkvæmdin mjög þung í sniðum. Við þurftum til dæmis að leigja okkur flugvél og hlaða þær sjálfir með 20 til 30 tonnum af afurðum í miklu stressi. Með tímanum hefur flutningakerfið breyst mikið til batnaðar og nú sér Icelandair um flutningana með miklum sóma og er órjúfandi hluti af okkar markaðs- og þjónustukerfi.“ Vaxandi markaður fyrir ferskan fisk Markaður fyrir ferskan fisk er vaxandi segir Svavar og hefur þróast úr því að vera smáútflutningur yfir í að vera stór iðnaður í dag sem er að flytja út verðmætustu sjávarafurðirnar. „Ég er ekki í neinum vafa um að eftirspurn eftir ferskum fiski frá Íslandi til Bandaríkjanna eigi eftir að aukast á næstu árum. Helsti flöskuhálsinn hvað það varðar að mínu mati er flutningsgetan en þar sem Icelandair ætlar að taka stærri vélar í notkun fljótlega horfir það til betri vegar. Horfurnar á Bandaríkjamarkaði eru því góðar.“ /VH Svavar Þ. Guðmundsson, fram- kvæmda stjóri Sæmark ehf. Eva Sæland, sölu- og markaðsstjóri Foss distillery: Hugmyndin fæddist á Dill Restaurant Foss distillery framleiðir Björk líkjör og Birki snaps, vörur unnar úr íslensku birki og birkisafa, ásamt því að þróa og framleiða fleiri vörur sem verða unnar úr hráefni úr íslenskri náttúru. Saga Foss distillery hefst á Dill restaurant í Norræna húsinu árið 2009 þar sem félagarnir Gunnar Karl Gíslason kokkur og Ólafur Örn Ólafsson barþjónn voru að feta sig áfram í nýnorrænni matarmenningu og leika sér með hráefni úr íslenskri náttúru í mat og drykk. Fyrir tilviljun, þar sem birkigreinar gleymast í vodka, verður Björk líkjör til en svo strax í framhaldinu Birkir snaps. Eva Sæland, sölu- og markaðsstjóri Foss distillery, segir að árið 2010 hafi Jakob S. Bjarnason mjólkurtæknifræðingur komið inn í myndina. Foss distillery ehf. er þá stofnað og tekur Jakob yfir þróun á vörunum til að koma þeim á almennan markað. Fyrstu flöskur af Björk og Birki eru svo framleiddar og settar í sölu haustið 2011. „Salan hefur svo aukist að meðaltali um 80–100 prósent ár frá ári síðan þá. Við erum einstaklega stolt af þeirri þróun,“ segir Eva. „Samstarf við Skógrækt ríkisins, Matís, Háskóla Íslands og fleiri aðila hefur leitt af sér verðmætasköpun þar sem bæði eru miklir möguleikar á að skapa fleiri störf og einnig erum við að nýta íslenskt hráefni við vinnslu og þróun á vörum frá Foss distillery sem ekki hefur áður verið gert í þessum tilgangi. Þegar fyrirtæki eru orðin jafn stór og við erum í dag er mikilvægt að stýra öllum þáttum framleiðslu og pökkunar sjálf og það hefur verið stærsti hjallinn að komast yfir. Það er gríðarlega mikilvægt að geta skaffað vöru miðað við eftirspurn og þegar einhver hluti framleiðslu og pökkunar er í höndum annarra og magnið orðið svona mikið er erfitt að vera upp á aðra komin. En í dag erum við stolt að segja frá því að stefnt sé að því öll þróun, framleiðsla og pökkun á okkar vörum muni fara fram í okkar eigin húsnæði í Mosfellsbæ í nánustu framtíð.“ Helstu þröskuldar að ná réttum samböndum „Á Íslandi er varan komin inn á alla helstu bari og veitingahús í Reykjavík og víðar um land. Erlendir ferðamenn vilja smakka eitthvað séríslenskt og hefur okkar vara fallið alveg sérstaklega vel þar að. Á innanlandsmarkaði eru erlendir ferðamenn langstærstu neytendurnir og selst um 75 prósent af okkar vöru í „Duty Free“ á Keflavíkurflugvelli og um borð í flugvélum Icelandair. Að koma vörunni okkar á erlenda markaði krefst mikillar vinnu og hafa okkar helstu þröskuldar verið að ná samböndum við rétta samstarfsaðila erlendis. Það er þolinmæðisvinna og tekur marga mánuði og upp í nokkur ár í hverju landi. En við erum þolimóð. Salan á Keflavíkurflugvelli og um borð í flugvélum Icelandair hjálpar okkur mikið við erlenda markaðssetningu. Bæði þar sem neytandinn fer með vöruna beint úr landi og kynnir hana fyrir ættingjum og vinum og einnig þar sem við getum betur greint hvaðan áhuginn erlendis frá kemur. Þannig kortleggjum við hvar áhuginn fyrir okkar vörum liggur og sækjum stífar að þeim löndum. Lykillinn að velgengni Foss distillery er fyrst og fremst vel heppnuð vöruþróun – en margir koma að því verkefni. En að sjálfsögðu spilar dugnaður, þolimæði og þrautseigja stórt hlutverk,“ segir Eva Sæland. /smh „Omnom ehf. var stofnað haustið 2013, áður vorum við búnir að vera heima í eldhúsi að gera tilraunir,“ segir Óskar Þórðarson, framkvæmdastjóri og stofnandi súkkulaðigerðarinnar Omnom. „Í september 2013 hefst framleiðslan á Austurströnd 7 og var ákveðið að koma með fimm tegundir á markað; Dirty Blonde (hvítt), Milk of Madagascar 45% (mjólkursúkkulaði), Dark milk + Burned Sugar 55% (dökkt mjólkursúkklaði), Madagascar 66% (upprunasúkkulaði) og Papua New Guinea 70% (upprunasúkklaði). Í nóvember sama ár hófst sala á Reykjavík Roasters við Kárastíg sömu helgi og Iceland Airwaves-hátíðin var haldin, sem skilaði okkur mikilli athygli á samfélagsmiðlum og þá fór boltinn að rúlla. Fyrr en varði vorum við komnir með sölu í nokkrum búðum hér heima; meðal annars í Duty free. Einnig tókum við þátt í Matarmarkaði Búrsins í Hörpunni sem vakti mikla lukku, við náðum að framleiða og selja 5.000 súkkulaðiplötur 2013,“ segir Óskar um þróun vörulínunnar í upphafi. Árið 2014 hófst með vélakaupum hjá Omnom til að auka framleiðsluna. „Í febrúar komum við með á markaðinn Sea salted almonds + milk 45% (mjólkursúkkulaði með ristuðum möndlum) og í maí 2014 með Lakkrís + sea salt (hvítt súkkulaði með lakkrísrót), fyrir jólin kom svo Milk + Cookies (mjólkursúkkulaði með möndlukryddköku) og Dark Nibs + Raspberries (Dökkt súkkulaði með nibbum og hindberjum). Í lok árs voru útsölustaðir og viðskiptavinir um 150 – þar af 100 erlendir og við náðum að framleiða og selja hundrað þúsund plötur á síðasta ári,“ segir Óskar. Tæknileg vandamál Að sögn Óskars fer 2015 mjög vel af stað. „Dreifing og sala gengur vel en augljóst er að auka þarf framleiðslugetu og bæta aðstöðu til að hafa við aukningu sem er fram undan. Omnom framleiðir súkkulaði frá grunni sem þýðir að við kaupum inn kakóbaunir frá ólíkum landsvæðum og blöndum fáum hráefnum saman við til að búa til bragð sem okkur finnst gott. Síðan setjum við súkkulaðið í umbúðir sem okkur finnst flottar. Helstu þröskuldar eru vélatengdir, því hráefni og vélar tala ekki alltaf vel saman. Markaðsstarfið felst í því að bjóða góða þjónustu til viðskiptavina, heiðarlegum samskiptum við neytendur, notkun á samfélagsmiðlum og matarmarkaðir. Lykillinn að velgengni okkar er að við vitum af hverju við erum í þessu, nefnilega að skapa góða upplifun. Þá skiptir máli að hafa gott starfsfólk og góða tilfinningu fyrir þeim ákvörðunum sem eru teknar.“ /smh Sköpum góða upplifun

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.