Bændablaðið - 13.05.2015, Page 41
41Bændablaðið | Miðvikudagur 13. maí 2015
Aðalfundur Búnaðarsambands Vestfjarða:
Heimilum með fasta búsetu verði tafarlaust
tryggður aðgangur að stafrænu sjónvarpi
– Einnig ályktað um bætt netsamband, sauðfjárveikivarnir, Landbúnaðarháskólann og stoðkerfi bænda
Eins og greint var frá í síðasta
Bændablaði var aðalfundur
Búnaðarsambands Vestfjarða
haldinn á Reykhólum þann 11.
apríl síðastliðinn og þar mættu
fulltrúar frá Bændasamtökum
Íslands, þrátt fyrir slæma færð.
Ýmis mál brenna á bændum
t.d. að allir njóti aðgengis að
sjónvarpsútsendingum eftir
að hliðrænum útsendingum
Ríkissjónvarpsins var hætt.
Þrátt fyrir slæma færð og
veður tókst að fá erindi á fundinn
frá Bændasamtökum Íslands.
Sigurður Eyþórsson, nýráðinn
framkvæmdastjóri BÍ, mætti fyrir
hönd þeirra og fór yfir breytingar á
BÍ og stefnu um búvörusamninga.
Á fundinum var farið eftir
nýjum samþykktum um kosningu
fulltrúa á Búnaðarþing. Aðalmenn
á Búnaðarþing til tveggja ára fyrir
BSV eru:
Sigmundur H. Sigmundsson,
formaður.
Rebekka Eiríksdóttir, ritari.
Gústaf Jökull Ólafsson.
Sólveig Bessa Magnúsdóttir.
Bændadagur á Bíldudal
Það hefur verið til siðs hjá
Búnaðarsambandi Vestfjarða að
halda bændadag á hverju ári. Hefur
sú hátíð flakkað milli sveitarfélaga
og þá tengdur bæjarhátíðum á
hverjum stað. Nú er til skoðunar að
halda árlegan bændadag á Bíldudal
á komandi sumri.
Á fundinum voru samþykktar
eftirfarandi ályktanir:
Bætt netsamband
Aðalfundur Búnaðarsambands
Vestfjarða haldinn á Reykhólum
11. apríl 2015 samþykkir ályktun
um internetsamband:
,,Í ljósi þess að nú er boðið af
hálfu ríkisvaldsins stórátak í að
bæta aðgengi dreifbýli landsins að
fullnægjandi Internetsambandi er
skorað á stjórnvöld og viðkomandi
stofnanir að láta þau landsvæði
sem lakast standa í þessum efnum
njóta forgangs þegar kemur að
framkvæmdum. Eins og staðan er í
dag er staða þessara mála í dreifbýli
Vestfjarða algjörlega óásættanleg,
hamlar eðlilegri búsetuþróun og
kemur í veg fyrir nýsköpun og
nýliðun í hverskonar starfsemi sem
stunduð er eða getur verið í hinum
dreifðu byggðum.
Þá er það skýlaus krafa að
þau heimili sem hafa fasta búsetu
og misstu möguleika á að ná
sjónvarpútsendingum við breytingar
á útsendingum yfir í stafrænt form
verði tafarlaust tryggður aftur
aðgangur að dreifikerfinu.“
Sauðfjárveikivarnargirðingar
Aðalfundur Búnaðarsambands
Vestfjarða haldinn á Reykhólum
11. apríl 2015 beinir því til
MAST og landbúnaðarráðherra
að fjármagn verði merkt í
viðhald, uppbyggingu og niðurrif
sauðfjárveikivarnargirðinga.
Greinargerð:
Mikil vöntun er á fjármagni
til viðhalds þeirra girðinga
sem nú þegar eru virkar, þá
þarf á sumum stöðum að
setja upp nýja kafla og á enn
öðrum rífa niður girðingar
sem ekki eru í gildi en geta
verið hættulegar búfénaði. Þá
þarf að setja skýrar reglur um
útboð er varða girðingar svo
þeir sem fái séu innan raunhæfs
viðmiðs til að framkvæma það
sem boðið er út, annað tefur
framkvæmdir. Hrein svæði
eiga að vera í forgangi hvað
varðar girðingar sem að þeim
liggja, mikilvægi þess að halda
hólfunum hreinum er gífurlegt.
Áframhaldandi sjálfstæði
Landbúnaðarháskólans
Aðalfundur Búnaðarsambands
Vestfjarða haldinn á Reykhólum
11. apríl 2015 fagnar því
að fallið var frá sameiningu
Landbúnaðarháskóla Íslands og
Háskóla Íslands. Jafnframt telur
hann rétt að skoða nýja hugmynd
um að gera landbúnaðarháskólana
á Hólum og Hvanneyri að
sjálfseignarstofnunum og að kanna
frekara samstarf á milli háskólanna
innan Norðvesturkjördæmis.
Stoðkerfi fyrir bændur
Aðalfundur Búnaðarsambands
Vestfjarða haldinn á Reykhólum
11. apríl 2015 hvetur Bændasamtök
Íslands að búa til stoðkerfi
fyrir bændur sem eru aðilar að
Bændasamtökunum og greiða til
þeirra.
Greinargerð: Þegar bændur
slasast eða veikjast er lítinn stuðning
að fá. Bændur eru ekki aðilar að
verkalýðsfélagi og eiga því ekki rétt
á stuðningi við óvæntar uppákomur,
t.d. við endurhæfingu eða kostnað
við aðgerðir eins og sum félög
bjóða upp á. Þá geta bændur lent í
vanda ef vegna slyss eða veikinda
þeir þurfi að bregða sér frá bæ
og þurfi afleysingu án fyrirvara.
Bændasamtökin þurfa að huga að
því hvort hægt sé að setja upp kerfi
sem sé til staðar þegar eitthvað
bjátar á. Óhöppin gera ekki boð á
undan sér auk þess sem aðstæður
geta verið nógu krefjandi ef hægt
er að létta undir.
Myndir / Helga Guðný Kristjánsdóttir bóndi Botni II
Haraldur Benediktsson, Oddný
-