Bændablaðið - 13.05.2015, Blaðsíða 12
12 Bændablaðið | Miðvikudagur 13. maí 2015
Á dögunum fór undirritaður
í magnaða ferð með
skemmtikraftinum Jóhannesi
Kristjánssyni vestur á
Patreksfjörð, ferðalagið var
sólríkt og skemmtilegt að
fara um landið. Við sáum
að vísu að vondi vegurinn á
Barðaströndinni sem enn er í
deiluferli er hættulegur og þar
verður að nást fram sátt um
vegastæði.
Teigsskógur er annars
enginn skógur heldur falleg
kjarrivaxin lyngbrekka þar
sem sumarbústaðaeigendur í
kjarrlendinu risu gegn veginum,
ekki heimamenn. Vestfirðingar
þurfa þarna veg og vegir opna
landið alveg eins og óskabarn
þjóðarinnar Landsvirkjun opnaði
hálendið fyrir almenningi með
mikilvægri vegagerð vegna
virkjana sem færa okkur arð, ljós
og yl. Vegagerðin kann ekkert
síður að velja vegstæði í sátt við
heimamenn,vegi sem falla vel að
náttúrunni.
Við Jóhannes hittum marga
og nutum þess að koma
víða við, fórum með bæjum
og vegasjoppurnar röktum
við þar sem allir ferðamenn
staldra við og kasta mæðinni.
Jóhannes varð svangur og bæði
í Borgarnesi og Búðardal fékk
hann sér kjúklingalæri og seðjaði
sárasta hungrið. Við spurðum
hvers vegna þarna væri ekki
á boðstólum lambakótelettur
í raspi sem alveg eins væri
hægt að grípa í lófann og væri
örugglega íslensk afurð sem
allir Íslendingar, ja eða flestir,
kunna að meta, unga fólkið
allavega í eldhúsinu hjá mömmu
og ömmu. Og útlendingarnir
dásama lambið, fiskinn og skyrið
og vilja eins og við á ferð um
hin ýmsu lönd upplifa og njóta
matarmenningarinnar.
Ég sagði Jóhannesi að spyrja
um upprunann á kjúklingalærinu,
það gæti verið frá Rúmeníu,
slátrað í Danmörku og flutt
til Íslands og selt hér án allra
upplýsinga um upprunalandið.
Jóhannes fékk ákaft hóstakast
þegar ég nefndi Rúmeníu.
Kjötsúpan er víða aðalrétturinn
í vegasjoppunum og þykir ódýr,
góð og þjóðleg, aldrei fæ ég mér
annað að borða hjá Stefáni vini
mínum í Litlu kaffistofunni.
Bóndi er bústólpi, bú er
landstólpi
Íslenskur landbúnaður þarf
sem aldrei fyrr á því að halda
að efla metnað sinn, reka
minnimáttarkenndina burtu og
takast á við gullin tækifæri.
Svavari Halldórssyni er hér
með óskað til hamingju með
að gerast framkvæmdastjóri
Landssambands sauðfjárbænda.
Ég þekki hann af fleiru en að
vera fréttamaður eða gera góða
hamborgara. Svavar hefur af
miklum metnaði hugsað djúpt um
matvælalandið Ísland og gæði
afurðanna, kjötið okkar,fiskinn
og mjólkurvörurnar. Ég treysti
honum til að hrista upp í
sölumálum hvað lambakjötið
varðar. Svo hefur hann búið sem
gestgjafi um tíma á Kirkjubóli
í Bjarnardal með fjölskyldu
sinni og áreiðanlega lesið ljóð
Guðmundar Inga Kristjánssonar,
þjóðskálds sveitanna, um
Hrútana eða baráttuljóðið:
Þú átt að vernda og verja,
Þótt virðist það ekki fært,
allt sem er hug þínum heilagt
og hjarta þínu kært.
Við Jóhannes heimsóttum
tvö sauðfjárbýli í ferðinni, á
öðrum bænum voru eitt þúsund
ær en hinum fimm hundruð.
Það er ekkert mikilvægara nú
en að verja hið hóflega stóra
fjölskyldubú og ætla að bóndinn
og fjölskylda hans sem er að auki
mikilvægur hlekkur í byggð
landsins á ferðamannaöld geti
framfleytt sér og fjölskyldu
sinni af viðráðanlegri vinnu og
bústærð og sinnt hinu fjölbreytta
hlutverki bóndans í þjónustu við
landið og þá sem fara um það,
innlenda og erlenda ferðamenn.
Við skulum forðast að steypa
hér öllu í þær stærðir að bæði
gleðin og afkoman hverfi og
hinn íslenski landbúnaður fari
í þær stærðir sem er að drepa
bændur í t.d. Danmörku. Þar ku
bændahjónin segjast eiga eina
ósk, að börnin þeirra velji sér
annað lífsstarf en taka við búinu,
þrælakistunni þar sem ríkið bæði
mjólkar búpeninginn og bóndann
og arðurinn er bankans en ekki
fjölskyldunnar. Ríkið hefur
skyldur við landbúnaðinn og
menningu sveitanna og ég veit að
margir stjórnmálamenn skynja
þetta hlutverk bóndans. Ég hvet
þingmenn og ráðherra til dáða
og að fara um landið og koma
heim á bæina og tala við fólkið.
Karpið og blótsyrðin á Alþingi
gleðja engan og skila engu, en
að vera með fólkinu í landinu
er aflvaki frjórrar hugsunar og
gleði en gleðina virðist vanta í
pólitíkina í dag. Kjarasamningum
og sátt á vinnumarkaði verður
að ljúka án frekari verkfalla,
annað er glæframennska. Land-
búnaðar ráðherra er nú að hefja
samningagerð við bændur,
vonandi stefnumarkandi
samning til langs tíma og að
umgjörðin uppfylli þau markmið
sem hér er drepið á. „Bóndi er
bústólpi, bú er landstólpi, því
skal hann virður vel,“sagði Jónas
Hallgrímsson forðum.
Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra:
Lambakótelettur í
vegasjoppurnar
Fréttir
Menntaskóli Borgarfjarðar
og Landbúnaðarháskóli
Íslands á Hvanneyri bjóða
upp á sameiginlega braut,
náttúrufræðibraut – búfræðisvið.
Námið hentar vel fyrir nemendur
sem vilja búa sig undir háskólanám
í náttúru- og búvísindum en
að sama skapi er námið einnig
hagnýtt og útskrifaður nemandi á
að hafa þekkingu og færni til að
takast á við búrekstur og alhliða
landbúnaðarstörf að loknu námi.
Námið tekur fjögur ár. Fyrri
tvö árin eru tekin í Menntaskóla
Borgarfjarðar þar sem áhersla er
lögð á kjarnagreinar til stúdentsprófs
ásamt völdum greinum á sviði
raungreina.
Seinni tvö árin eru tekin við
búfræðibraut Landbúnaðarháskólans
á Hvanneyri þar sem m.a. er
kennd búfjárrækt, jarðvegs- og
umhverfisfræði, nytjaskógrækt,
búvélafræði og bókhald. Að loknu
námi útskrifast nemendur með
stúdentspróf frá Menntaskóla
Borgarfjarðar og búfræðipróf frá
Landbúnaðarháskóla Íslands.
Árið 2011 hófu MB og Lbhí
samstarf til reynslu og um haustið
2013 fóru 3 nemendur af stað í
búfræðinám við Lbhí frá MB. Nú í
vor er fyrsti nemandinn að útskrifast
með þessa tvíþættu gráðu og eru
skólastjórnendur mjög stoltir af
Berglindi Ýri Ingvarsdóttur sem
hefur staðið sig dæmalaust vel í
báðum skólunum.
Nú á dögunum komu stjórnendur
MB og Lbhí saman og báru saman
bækur sínar og í kjölfarið var tekin
sú ákvörðun að samstarfinu yrði
haldið áfram.
Í MB eru þegar nemendur sem
hyggjast fara þessa leið en það er
pláss fyrir fleiri aðila og hvetja
stjórnendur skólans áhugasama
um að hafa samband í síma 433-
7700 eða á netfangið menntaborg@
menntaborg.is til að afla sér frekari
upplýsinga og skrá sig svo til leiks.
Menntaskóli Borgarfjarðar og Landbúnaðarháskóli Íslands:
Bjóða upp á sameiginlegt nám á
náttúrufræðibraut – búfræðisviði
Nám á náttúrufræðibraut – búfræðisvið hentar vel fyrir nemendur sem vilja búa sig undir háskólanám í náttúru- og
búvísindum.
Nám á náttúrufræðibraut – búfræðisvið gefur margháttaða möguleika.