Bændablaðið - 13.05.2015, Qupperneq 16
16 Bændablaðið | Miðvikudagur 13. maí 2015
Trúin á mátt steina var almenn
hér á landi fyrr á öldum og
náttúrusteinar taldir til ýmissa
hluta nytsamlegir og gæddir
töframætti.
Sumum steinum átti að
fylgja hamingja og gæfa, öðrum
lækningamáttur eða peningar og
enn aðrir voru til þess ætlaðir
að vernda menn fyrir ásóknum
drauga eða illra vætta.
Í Grágás segir að menn skuli
eigi fara með steina, eða magna
þá til að binda á menn eða á fé
manna. Samkvæmt þessu hafa
forfeður okkur haft það mikla trú
á mætti steinanna að þeir hafa talið
nauðsynlegt að setja sérstök lög
til að koma í veg fyrir misnotkun
á þeim.
Hjátrúin er söm við sig og enn
í dag loðir talsvert af henni við
steinaríkið eða hluti sem líkjast
steinum. Fólk ber á sér happasteina
sem lukkugripi.
Samkvæmt þjóðtrúnni er best
að leita að máttarsteinum við
sólarupprás því þá liggja þeir
lausir á jörðinni. Þegar menn
leita þeirra eiga þeir að bera á
sér brjóstagras, surtarbrand, álún,
gráurt og kertavax svo að álfarnir
leiði þá ekki af réttri braut eða villi
þeim sýn.
Vilji menn verða ósýnilegir og
sjá það sem fer fram í kringum þá
á að vefja hulinhjálmssteini í blað
eða hárlokk svo að hvergi sjáist
í hann.
Sagt er að hulinhjálmssteinar
séu dökklifrauðir á litinn og það
eigi að geyma þá undir vinstra
armi.
Lausnarsteinar voru vinsælir
meðal yfirsetukvenna og
ljósmæðra og sagt að þeir
auðvelduðu fæðingar með því að
leysa konur frá fóstri sínu. Áður
fyrr voru steinarnir lagðir á kvið
kvennanna, undir koddann eða við
vinstra læri þeirra. Einnig þótti
gott að láta þær kreista steininn
í lófanum eða bíta í hann. Sumir
sögðu að nóg væri að gefa konu í
barnsnauð vatn eða vín að drekka
sem lausnarsteinninn hafði legið
í eða verið skafinn út í til að
auðvelda fæðinguna.
Lífsteinar eru gæddir þeirri
náttúru að lífga við dauða eða
dauðvona menn og sagt er að hús
sem lífsteinn er geymdur í geti
ekki brunnið.
Óskasteinar eru miklir
kjörgripir því þeir sem eiga slíka
gripi fá allar óskir sínar uppfylltar.
Sá sem finnur óskastein á að setja
hann undir tungurótina og mæla
fram óskir sínar.
Sögusteinar finnast í
maríuerluhreiðri snemma í maí
eða í hrafnshreiðri í páskavikunni.
Sé sögusteinninn settur í blóðugan
hálsklút og látinn á hægra eyrað
segir hann eiganda sínum allt
sem hann vill vita en sé hann
settur undir tunguna skilja
menn hrafnamál. Bindi menn
steininn aftur á móti undir hægri
handarkrikann dreymir þá allt sem
þeir vilja vita.
Segulsteinar eru góðir til að
koma upp um þjófa. Skrifa skal
nöfn hinna grunuðu á blað og
leggja steininn fyrir neðan nöfnin,
segulsteinninn dregst að nafni þess
seka. Svo eru líka til ólánssteinar
sem valda mönnum ógæfu og
óhamingju.
Nú á tímum njóta marglitir
orkusteinar og kristallar talsverðra
vinsælda. Kristallarnir eiga að
auka næmi og virkja innsæið
séu þeir lagðir við orkustöðvar
líkamans. Þeir eiga líka að hreinsa
óhreinindi af áruhjúpnum og deyfa
óæskilega yang-orku frá sólarljósi.
Það hefur ekkert breyst. /VH
Ekki steinn
yfir steini
Kótelettan BBQ Festival verður
haldin í sjötta skipti helgina 12.–
14. júní á Selfossi. Hátíðin var
fyrst haldin árið 2010 og hefur
hún vaxið ár frá ári og er nú orðin
ein stærsta grill-tónlistarveisla á
Íslandi.
Víða er farið að halda slíkar
hátíðir sem byggja á sneiðum úr
lambshrygg sem aðalrétti. Skiptar
skoðanir eru um stafsetningu á
heiti réttarins sem Selfyssingar
kalla kótelettu með e-i, en flestir
aðrir sem slíkar hátíðir hafa haldið
á Íslandi nota orðið kótiletta með
i. Þar sem verið er að tala um
sunnlenska hátíð í þetta sinn látum
við heimamenn ráða stafsetningunni
sem er reyndar með sama hætti og
Þjóðverjar myndu rita nafn réttarins.
Dálæti á góðum mat
Þrátt fyrir að veðurguðirnir séu
enn að kæla landsmenn er Einar
Björnsson, aðalskipuleggjandi
hátíðarinnar, með kótelettur á
grillinu þegar blaðamaður kom
í heimsókn. Hann segir frá
hugmyndinni á bakvið hátíðina um
leið og hann hugar að kjötinu.
,,Ég hef mikið dálæti á góðum
mat og enn meira af því að grilla
hann. Ég hef unnið lengi í kringum
hvers kyns hátíðir á Íslandi, þó
mest í gegnum fyrirtækið mitt, EB
Kerfi, sl. 23 ár og átti ég mér gamlan
draum, sem gekk út á að sameina
grillið, fjölskylduna og tónlistina
í eina hátíð. Ég ákvað með mjög
skömmum fyrirvara fyrir um 5
árum að slá til. Þökk sé góðum
viðtökum hjá Landssambandi
kúa og sauðfjárbænda auk
Svínaræktarfélagi Íslands, Eimskip
og fleiri góðum aðilum að Kótelettan
varð að veruleika. Hátíðin hefur
fengið góðar undirtektir hjá ungum
sem öldnum, enda sniðin fyrir alla
fjölskylduna,“ segir Einar.
Helstu landssamböndin í
kjötiðnaði með
Einar er stórhuga og hefur lengi
verið með það á prjónunum að
kynna hátíðina erlendis.
,,Við ákváðum að breyta nafninu
lítillega og kalla kjöthátíðina
„Kótelettan BBQ Festival“ en
slíkar hátíðir eru haldnar um víða
veröld undir svipuðum heitum. Þetta
er þá hugsað til þess að auðvelda
kynningu hátíðarinnar erlendis
með von um að hún muni dag einn
draga til sín erlenda aðila til að
smakka íslenskar afurðir og kynnast
landinu um leið,“ segir Einar og snýr
kótelettunum.
,,Undanfarin ár höfum við
fengið til liðs við okkur helstu
landssamböndin í kjötiðnaði
ásamt fleiri íslenskum
framleiðslufyrirtækjum sem
hafa boðið gestum og gangandi
á að bragða á afurðum sínum.
Hingað til hefur til dæmis verið
boðið upp á íslenskt grænmeti
heilgrillað naut, svín, lamb o.fl.
sem hefur alltaf vakið mikla
athygli gesta á hátíðarsvæðinu,“
segir Einar sem býður íslenskum
framleiðslufyrirtækjum stórum sem
smáum á svæðið til að koma sér og
sínu á framfæri, hvort sem það er
Beint frá býli eða stærri aðilar.
Skemmtileg grillstemning
Eftir að hafa kynnst nýjungum
á hátíðarsvæðinu yfir daginn er
tilvalið að fólk fari heim og haldi
veislunni áfram og grilli íslenskar
afurðir.
,,Á sjálfan hátíðardaginn
vonumst við til þess að sem flestir
geti kynnt sér allt sem viðkemur
grillinu hvort heldur sem er kjöt,
kol, grill, gas og öllu hinu sem
fullkomnar alvöru grillveislu,
bragðað á nýjungum og umfram
allt kynnt sér íslenska framleiðslu,“
segir Einar sem hefur gert úr þessu
keppni á milli hátíðargesta.
,,Við höfum bryddað upp
á ýmsum nýjungum í gegnum
árin og í fyrra kynntum við til
leiks bráðskemmtilega keppni.
Okkur bættist liðsauki frá
Götugrill Securitas og Weber á
Íslandi og fórum við í að finna
Götugrillmeistara Íslands Anton Örn
Eggertsson. Þar grilla keppendur
sinn besta rétt og vinningshafinn
hlýtur glæsileg verðlaun, m.a. Weber
gasgrill, öryggispakka frá Securitas,
kjöt o.fl. Í fyrra voru í dómnefnd
Jói Fel matreiðslumeistari, Sigurður
Ing landbúnaðarráðherra o.fl.,“
segir Einar og á tilburðum hans við
grillið er ekki annað að sjá en að
hann stefni á sigur í keppninni þetta
árið. Hann bætir við að fleiri keppnir
verði í gangi yfir helgina.
„Á síðasta ári verðlaunuðum við
einnig flottustu grillveisluna við
góðar undirtektir. Við höfum hvatt
bæjarbúa til þess að velja íslenskt á
grillið og bjóða vinum og ættingjum
til sín og njóta helgarinnar með
okkur. Þetta var mjög skemmtileg
stemning, við fengum sendar til
okkar margar frábærar myndir af
fólki sem kom saman og naut þess
að vera til og grilla,“ segir Einar
og brosir.
Tónlist að kvöldverði loknum
Ekki verður einungis boðið upp á
íslenskar matarafurðir á Kótelettunni
heldur einnig það besta sem íslenskt
tónlistarlíf hefur fram að færa.
Stórskotalið tónlistarmanna stígur
á svið á hátíðinni, meðal annars
Sálin hans Jóns míns, Amabadama,
Páll Óskar, Dúndurfréttir & Magni,
Jónas & Ritvélar framtíðarinnar,
SSSól, Skítamórall ásamt fleirum.
„Við erum afar ánægð með að
fá öll þessi frábæru tónlistaratriði
á hátíðina. Það er mikill metnaður
í mönnum að gera þetta vel. Við
finnum að við höfum góðan meðbyr
enda hefur hátíðin heppnast með
ágætum undanfarin ár og vona ég að
sem flestir leggi leið sína á Selfoss
þessa helgi og njóti lífsins og alls
þess sem Kótelettan og svæðið hefur
upp á að bjóða,“ segir Einar um leið
og hann skutlar kótelettunum á
silfurfat og býður til borðs. „Gjöriði
svo vel!“
Allar nánari upplýsingar er að
finna á www.kotelettan.is.
/RR
STEKKUR
Kótelettan BBQ Festival á Selfossi er orðin ein stærsta grill-tónlistarveisla á Íslandi:
Íslenskar afurðir í fyrirrúmi
Það voru ekki bara kótelettur á boðstólum á hátíðinni á Selfossi í fyrra. Hér eru Eyþór Arnalds, tónlistarmaður með meiru, og Sigurður Ingi Jóhannsson,
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrar að bíta hvor í sinn endann á risapylsu frá Goða. Myndir / Kótelettan BBQ Festival
Dómnefnd að störfum í keppninni um Götugrillmeistara Íslands 2014, Hjörtur,
Jói Fel, Sigurður Ingi og fulltrúi frá Weber.
Sigurður Ingi ásamt Tómasi hjá Hamborgarabúllu Tómasar að lyfta stærsta
hamborgara á Íslandi.