Bændablaðið - 13.05.2015, Side 32
32 Bændablaðið | Miðvikudagur 13. maí 2015
Ég hef haldið því fram í ræðu og
riti, bæði áður og eftir að ég varð
ráðherra, að íslenskur matur og
framleiðsla hans eigi sér bjarta
framtíð. Það hef ég meðal annars
byggt á spám um fólksfjölda og
kaupgetu fólks á komandi árum og
áratugum. Allir þurfa að borða og
því þarf að framleiða meira af mat
en nú er gert. Þetta tækifæri eigum
við að grípa og notfæra. Okkur
hefur gengið vel í markaðssetningu
á sjávarafurðum og erum þar
fremst meðal jafningja.
Betur má ef duga skal í
landbúnaðarvörum og verkefni
eins og Matvælalandið Ísland er
mikilvægur áfangi á þeirri leið.
Stjórnvöld víðast hvar taka þátt í
markaðssetningu á framleiðslu sinna
landa. Enda útflutningur og verslun
á alþjóðlegum markaði hverju landi
mikilvæg. Aukinn útflutningur
á íslenskum matvælum getur því
treyst betur stoðir efnahagslegrar
hagsældar. Og það virðast fleiri hafa
áttað sig á því. Arla er fyrirtæki í
Svíþjóð, um hundrað sinnum stærra
en Mjólkursamsalan. Það hefur nú
komið auga á verðmætin sem liggja
í íslensku skyri. Þeir skirrast ekki
við að segja skyrið sem þeir selja
vera íslenskt. Markaðsstjóri MS
segir það ekki satt. Einnig kemur
fram í máli hans að Arla hafi varið
sem svarar einum milljarði króna
í auglýsingaherferð á „íslensku
skyri“. Ef eitt fyrirtæki er tilbúið
að verja þessari upphæð í að
auglýsa skyr, þá hljóta að felast í
því gríðarleg verðmæti.
Á fundi ríkisstjórnarinnar á
þriðjudaginn í fyrri viku var kynnt
minnisblað þar sem lagt er til að
ríkisstjórnin samþykki að leggja
árlega 80 milljónir króna í fimm
ár í verkefnið „Matvælalandið
Ísland“. Umsjón verkefnisins verður
í höndum Íslandsstofu, en stýrt af
þriggja manna hópi frá atvinnuvega-
og nýsköpunarráðuneytinu og
utanríkisráðuneytinu. Samtals er
upphæðin 400 milljónir króna á fimm
árum. Þótt upphæðin sé vissulega
há, er hún þó ekki nema 40% af
þeirri sem Arla er tilbúið að verja í
auglýsingu á einni vöru frá Íslandi.
Það er umhugsunarefni.
Og á tímum fjölgandi ferðamanna
er hægt að taka undir með
veitingamanninum á Þremur Frökkum
í sjónvarpsfréttum fyrir nokkrum
vikum, þar sem umræðan snerist
um veitingastaði og útlendinga; „fólk
vill sjá íslenskt!“ sagði hann. Það
felast verðmæti í því að geta sagt
að matvara sé „íslensk“. Ég treysti
aðstandendum Matvælalandsins til
að koma þeim verðmætum áleiðis.
Pistill sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
„Fólk vill sjá íslenskt“
Útflutningur – Verðmætasköpun og ný tækifæri
Sigurður I. Jóhannsson. Mynd / HKr.
Ecotrophelia Ísland er
vöruþróunarsamkeppni meðal
háskólanemenda sem felst í
að þróa markaðshæf, vistvæn
matvæli eða drykki. Aðstandendur
keppninnar eru Háskóli Íslands,
Matís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands
og Samtök iðnaðarins.
Meginmarkmið keppninnar er að
stuðla að nýsköpun og þróun nýrra,
umhverfisvænna matvara fyrir
íslenskan og alþjóðlegan markað,
ásamt því að auka umhverfisvitund
og þjálfa frumkvöðlahugsun
nemenda. Umhverfisþátturinn getur
m.a. falist í notkun vannýttra hráefna,
notkun nýrra og umhverfisvænna
framleiðsluaðferða, umbúða eða
flutningsmáta.
Þátttaka í keppninni er
opin nemendum frá öllum
háskólastofnunum í landinu. Að
hverju verkefni þarf að standa
hópur nemenda (minnst 2, mest 10
í hverjum hópi). Nemendur mega
ekki vera eldri en 35 ára. Hóparnir
eru hvattir til að þróa hugmynd sína í
samstarfi við starfandi fyrirtæki til að
öðlast hagnýta reynslu af starfsemi
fyrirtækja.
Keppnin í ár verður haldin 20.
maí og verða verðlaun afhent á
ráðstefnu Matvælalandsins Íslands
á Hótel Sögu 21. maí. Jafnframt
verður afrakstur keppninnar til sýnis
á ráðstefnusvæðinu. Fimm verkefni
keppa til úrslita í ár, Bragðefni
úr beingörðum karfa, Grafinn
skötuselur, Kex fyrir smábörn,
Pate úr humarmarningi og Þarate.
Hver nemendahópur kynnir sína
vöru-, markaðs- og viðskiptaáætlun
fyrir dómnefnd sem er skipuð
sérfræðingum frá
íslenskum iðnaði,
rannsókna- og
vísindaumhverfi
og stjórnvöldum.
Sigurliðið hlýtur
að launum rétt
til að taka þátt í
alþjóðlegri keppni,
E c o t r o p h e l i a
Europe http://
www.ecotrophel ia .eu/ , á
meginlandi Evrópu seinna á
árinu, auk peningaverðlauna
og ráðgjafar frá sérfræðingum
Matís og Nýsköpunarmiðstöðvar.
Ecotrophelia Ísland-keppnin
hefur verið haldin árlega frá árinu
2012. Sigurvegarar fyrri ára eru
mysudrykkurinn Íslandus árið 2012,
sæbjúgnasúpan Hai Shen árið 2013
og þaramajónesið Fjara árið 2014.
Þess má geta að sæbjúgnasúpan
Hai Shen hlaut sérstök verðlaun
sem athyglisverðasta nýjungin í
Evrópukeppninni árið 2013.
Vöruþróunarsamkeppnin Ecotrophelia Ísland:
Verðlaun afhent á ráðstefnunni
Matís – bak við tjöldin
Mysudrykkurinn Íslandus bar sigur
úr býtum árið 2012.
Þaramajónesið Fjara sigraði í fyrra.
Sæbjúgnasúpan Hai Shen var sig-
urvegari ársins 2013 og hlaut sérstök
verðlaun sem athyglisverðasta
nýjungin í Evrópukeppninni þar ár.
Útflutningur – forsenda vaxtar
Íslenskur matvælaiðnaður býr að
mörgu leyti við sérstakar aðstæður.
Landið er umlukið hreinum sjó
með gjöful fiskimið innan seilingar.
Við höfum gnægð af hreinu vatni
og lofti, mikið landrými og á
margan hátt góðar aðstæður til
framleiðslu matvæla.
Hér á landi starfa blómleg
iðnfyrirtæki sem vinna bæði úr
innlendu og innfluttu hráefni.
Smæð markaðarins er hins vegar
hamlandi á vöxt matvælafyrirtækja
og því mikilvægt að sækja á stærri
markaði. Tvær leiðir eru færar til að
stækka markaðinn, annars vegar fleiri
neytendur á innanlandsmarkaði með
auknum fjölda ferðamanna og hins
vegar útflutningur á erlenda markaði.
Hvort tveggja er til þess fallið að
skapa verðmæti í matvælaiðnaði og
auka gjaldeyristekjur.
Mikilvægt að nýta vel fjárfestingu
í húsnæði og tækjum
Mikilvæg áskorun íslenskra
matvælaframleiðenda er að nýta
vel fjárfestingu í húsnæði, tækjum
og tólum. Framleiðslugetan er oft
mun meiri en sem nemur þörf á
innanlandsmarkaði. Af þessum
sökum þarf að stækka markaðinn eins
og kostur er. Í því samhengi hefur
fjölgun ferðamanna skapað tækifæri
og stækkað innanlandsmarkað
verulega. Á sama tíma felst í þessu
mikil áskorun þar sem miklar
árstíðabundnar sveiflur eru í fjölda
ferðamanna. Ekki má gleyma því
að sala á íslenskum mat til erlendra
ferðamanna er í reynd útflutningur og
gæti kallað á eftirspurn eftir íslenskum
mat á erlendum mörkuðum síðar
meir. Jákvæð upplifun ferðamanns
á íslenskum mat er gulls ígildi.
Einn lykill að vexti
matvælafyrirtækja liggur í vöruþróun.
Forsenda þess að sækja fram á
erlenda markaði felst ekki síst í sterkri
stöðu á heimamarkaði – þar skiptir
vöruþróun sköpum. Í því samhengi
hafa Samtök iðnaðarins beitt sér
fyrir samstarfi matvælafyrirtækja og
tæknifyrirtækja. Hér á landi starfa
margir færir tæknimenn sem eru
útsjónarsamir við að finna lausnir
sem henta íslenskum fyrirtækjum og
slíkt samstarf leiðir oft til hagkvæmra
lausna sem ekki eru fáanlegar á
almennum markaði.
Hvetja til nýtingar á möguleikum
til útflutnings
Samtök iðnaðarins leggja áherslu á
að auka framleiðni og hagkvæmni í
rekstri félagsmanna sinna. Hvatning
og leiðsögn til að nýta til fulls þá
möguleika sem sókn á stærri markaði
hefur í för með sér er liður í þeirri
viðleitni. /Guðrún Hafsteinsdóttir
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður
Samtaka iðnaðarins.
Þegar matvara er skoðuð úti í búð
þá eru flestir að velta fyrir sér t.d.
verði, gæðum eða hollustu. Okkur
finnst það sjálfsagt mál að varan
uppfylli allar kröfur um heilnæmi
og öryggi og það á ekki að vera
matvara á boðstólum í verslunum
sem ekki er fullkomlega í lagi.
Við veltum því ekkert mikið fyrir
okkur hvernig heilnæmi og öryggi
matvæla er tryggt, við hugsum ekki
of oft til opinberra eftirlitsaðila eða
rannsóknastofnana, við gerum bara
ráð fyrir að einhver sjái um þetta
fyrir okkur. Og þannig er það líka
að miklu leyti, Matís mælir og
fylgist með óæskilegum efnum í
matvælasýnum og umhverfinu og
við getum treyst því að þar sé unnið
af heilindum.
Það sem virðist ganga fumlaust
fyrir sig í dag, hefur ekki alltaf
gengið eins vel. Margs konar
framfarir hafa mótað samfélagið,
daglegt líf fólks og viðfangsefnin.
Fyrir eyþjóð umlukta lífvænlegu hafi
er mikilvægt að hlúa að umhverfinu
svo nýta megi auðlindirnar hér
eftir sem hingað til. Mestur hluti
sjávarfangsins er fluttur út og seldur
til gjaldeyrisöflunar fyrir samfélagið.
Fyrir Íslendinga skiptir máli að
nýta auðlindirnar með ábyrgum
hætti. Matís þjónar allri virðiskeðju
matvæla af metnaði með áherslu á
lykilþætti virðiskeðjunnar m.a. með
vöruþróun, með áherslu á að hámarka
gæði, nýtingu og stöðugleika,
fagmennsku við meðhöndlun og
síðast en ekki síst öryggi matvæla.
Hér á landi starfa kröftug fyrirtæki
sem þjóna innanlandsmarkaði og
framleiða af fagmennsku örugg
matvæli. Alla jafnan ganga hlutirnir
vel fyrir sig, þökk sé þrotlausri þróun
og eftirfylgni.
Hvort heldur sem er þegar
eitthvað bjátar á eða þegar unnið er
að nýjungum, er oftar en ekki haft
samband við sérfræðinga hjá Matís.
Í því ljósi á Matís í margvíslegu
samstarfi við bæði þá sem framleiða
matvæli, meðhöndla matvörur eða
jafnvel þjónustufyrirtæki innan
matvælageirans ásamt því að Matís
hefur átt í góðum samskiptum við
bæði neytendur og fyrirtæki.
Matís hefur unnið að þróun
lífhagkerfisins hvort heldur sem
er við þróun vinnsluferla sem fært
hafa þjóðarbúinu milljarða eða
með stuðningi við frumkvöðla
í upphafi síns rekstrar og
nýsköpunar. Framþróun íslensks
matvælaiðnaðar væri til lítils ef
forsenda verðmætasköpunar væri
ekki trygg, öryggi er lykilatriði í
traustum viðskiptum og vöktun er þar
með mikilvægur þáttur í viðskiptum
með matvæli.
Vöktun felur í sér sívirka
gagnaöflun um mengunarefni í
matvælum og umhverfi. Kerfisbundin
gagnaöflun gerir okkur kleift að segja
til um hvernig styrkur mengandi efna
á tilteknum svæðum hefur þróast
og breyst með tíma. Gögn af þessu
tagi eru nauðsynleg til þess að unnt
sé að sýna fram á öryggi íslenskra
matvæla, vernda ímynd þeirra og
tryggja útflutningstekjur íslenskra
afurða. Einnig eru gögnin mikilvægur
liður í því að íslensk stjórnvöld geti
staðið við skuldbindingar sínar og
samninga við önnur lönd varðandi
umhverfismengun.
Matís hefur sinnt vöktun á
óæskilegum efnum í sjávarafurðum
en nauðsynlegt er að líta á slíka vöktun
sem langtímaverkefni þar sem eftirlit
og endurskoðun á eftirlitsþáttum, eins
og hvaða sjávarfang og efni eru mæld
hverju sinni, er nauðsynleg. Helstu
nytjategundir sjávar voru vaktaðar
og rannsökuð voru á bilinu 60-90
óæskileg efni. Þeirra á meðal voru
díoxín og díoxínlík PCB-efni en
einnig voru mæld önnur PCB efni,
varnarefni, þungmálmar og PAH efni.
Ef ástæða þótti til var bætt við ákveðnu
áhersluefni, t.d. ný mengandi efni sem
lítið eða ekkert er vitað um í íslensku
umhverfi. Með vöktunarverkefninu
fengust nauðsynlegar upplýsingar
um magn óæskilegra efna í
íslensku sjávarfangi til langs tíma
sem nýtast m.a. til að meta með
vísindalegum aðferðum hvort
óæskileg efni í íslensku sjávarfangi
séu í samræmi við reglugerðir um
matvælaöryggi og veita íslenskum
stjórnvöldum, framleiðendum
íslensk sjávarfangs, mörkuðum og
neytendum óháð vísindaleg gögn
um öryggi sjávarafurða. Niðurstöður
vöktunarinnar hafa nýst útflytjendum
sjávarfangs, sjávarútvegsfyrirtækjum,
eftirlits aðilum og fleirum til að sýna
kaupendum íslenskra sjávarafurða
fram á stöðu þeirra með tilliti til
öryggis og heilnæmis.
Matís kemur því með óbeinum
hætti að því að tryggja markaðsaðgengi
íslenskra matvæla. /ABB & HJ
„Öryggi er lykilatriði í
traustum viðskiptum
og vöktun er þar með
mikilvægur þáttur í
viðskiptum með matvæli.“Arnljótur Bjarki Bergsson og Hrönn
Jörundsdóttir.