Morgunblaðið - 24.09.2015, Blaðsíða 6
6 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 24. SEPTEMBER 2015
Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Ekki náðist að veiða 103 hreindýr af
þeim 1.274 sem fella átti fram til 20.
september.
Gefin voru út leyfi til veiða á 630
törfum og veiddust 589, ekki tókst
að veiða 41 tarf. Tarfaveiðarnar
stóðu frá 15. júlí
til 15. september.
Leyfðar voru
veiðar á 782
hreinkúm. Af
þeim á að veiða
138 kýr í nóv-
ember. Veiðar á
hreinkúm hófust
1. ágúst og lauk
20. september.
Fella átti 644 kýr
á því tímabili.
Þegar upp var staðið höfðu verið
felldar 582 kýr. Það gengu því af 62
kýr. Tekið skal fram um að bráða-
birgðauppgjör er að ræða.
Jóhann G. Gunnarsson, sérfræð-
ingur hjá Umhverfisstofnun á Egils-
stöðum, hefur umsjón með hrein-
dýraveiðunum og er í sambandi við
leiðsögumenn með hreindýraveiðum
á veiðitímanum.
„Það eru fleiri dýr óveidd nú en
nokkru sinni fyrr í núverandi kerfi,“
sagði Jóhann. „Þetta var líka stærsti
hreindýrakvótinn sem gefinn hefur
verið út í þessu kerfi, 1.412 dýr.“
Tvisvar á 8. áratug 20. aldar voru
gefnir út stærri kvótar, en veiðin var
miklu minni þá en nú.
Flest dýrin sem ekki veiddust eru
á svæði 7, í Djúpavogshreppi. Þar
náðist ekki að veiða um 20 tarfa og
20 kýr eða tæplega helming þess
sem gekk af. Einnig gekk talsvert af
á svæði 9, í Hornafirði, Suðursveit
og á Mýrum, og eins á svæði 6 í
Breiðdalshreppi, þeim hluta Fjarða-
byggðar sem áður var Austurbyggð
og hluta Fljótsdalshéraðs. Á öðrum
veiðisvæðum gengu færri dýr af.
Erfiðar aðstæður til veiða
Jóhann sagði margt skýra hvað
mörg dýr gengu af að þessu sinni.
Stærsti kvótinn á einstöku veiði-
svæði var á svæði 7 og það hafði
áhrif. Þá hafði veðurfarið mikið að
segja. Snjóa leysti seint og skaflar
voru að hlána í allt sumar vegna
kuldans. Það olli því að nýgræðingur
var að koma upp allt sumarið. Dýrin
héldu sig hátt til fjalla þar sem menn
treystu sér ekki til að veiða.
„Svo voru þokukaflar tíðari og
lengri en áður sem olli því að veiði-
menn fóru heim án þess að hafa veitt
og sumir gátu ekki komið aftur,“
sagði Jóhann. Hann sagði að síðustu
daga veiðitímans hefðu aðstæður til
veiða verið slæmar og þeir dagar því
nýst illa. „Það voru klárlega menn
sem brunnu inni með dýrin sín því
þeir treystu á daga í lokin sem ekki
var hægt að veiða á.“
Jóhann kvaðst einnig oft heyra
um veiðimenn sem gefi sér allt of
skamman tíma í veiðiferðina. Þeir
fari heim í flýti eftir ógæftir en dag-
inn eftir sé fínasta veður. Þá veiði
þeir sem ekki fóru heim.
Menn sæki um veiðidaga
Jóhann segir að margir hrein-
dýraveiðimenn fari of seint til veiða
á tímabilinu. Þunginn í veiðinni byrji
ekki fyrr en eftir 20. ágúst. Þannig
hefur þetta verið mörg undanfarin
ár, þrátt fyrir að menn hafi verið
hvattir til að nýta fyrri hluta veiði-
tímans betur.
Verið er að athuga með að taka
upp nýtt fyrirkomulag við umsóknir
um hreindýraveiðileyfi á þeim svæð-
um þar sem kvótinn er stærstur.
Það yrði gert til að dreifa veiðunum
betur yfir veiðitímann. Veiðitím-
anum verði þá skipt í þrjú þriggja
vikna tímabil. Veiðimenn þurfi síðan
að sækja um veiðar á einu þessara
þriggja tímabila. Svo yrði dregið úr
umsóknum um hvert tímabil.
Engin ákvörðun hefur verið tekin
um þetta fyrirkomulag en hún mun
liggja fyrir áður en opnað verður
fyrir umsóknir fyrir næsta hrein-
dýraveiðitímabil.
Aldrei fleiri hreindýr verið óveidd
Ekki náðist að veiða 103 hreindýr af þeim 1.274 dýrum sem veiða átti til 20. september Dýrin
héldu sig víða hátt til fjalla og fjarri hefðbundnum veiðislóðum Þokur settu strik í reikninginn
Morgunblaðið/RAX
Hreindýr Veiðikvótinn var óvenju stór eða alls 1.412 hreindýr. Eftir er að veiða 138 hreinkýr nú í nóvember.
Jóhann G.
Gunnarsson