Gerðir kirkjuþings - 01.01.2014, Page 7
7
Predikunarstóllinn var öflugt samskiptatæki í margar aldir. Í raun mikilvægur fjölmiðill
í sóknarkirkjunni. Hér er því ekki haldið fram að predikunarstóllinn sé ónýtur en
kurteisislega á það bent að það er meiri samkeppni um athygli fólksins en áður var og
boðleiðirnar sem bjóðast fleiri en nokkru sinni fyrr.
Skipulag kirkjunnar er í stórum dráttum eins á öllu landinu. Sóknin er grunneining þar
sem á því er þörf landfræðilega og eins í þéttbýlinu þar sem ekki eru í sjálfum sér eins
mikil landfræðileg rök fyrir því skipulagi. Fólk sem býr þar horfir á það sem það vill horfa
á þegar það vill. Verslar í búðum sem eru opnar 24 tíma á sólarhring. Lætur senda sér það
sem það vill borða þegar það er svangt. Sendir og sækir börnin sín á allskonar æfingar á
öllum tímum dags virka daga sem um helgar. Vinnur langan vinnudag og á sjaldan alveg
frí þar sem tölvupósturinn er í símanum sem lætur það ekki í friði.
Líf fólks hefur breyst mikið, bæði hegðunarmynstur og neysla, ekki síst neysla eða móttaka
upplýsinga, fróðleiks, fræðslu og afþreyingar. Þurfum við ekki að velta því fyrir okkur
hvort kirkjan hafi nægja þekkingu á þeim tækifærum sem þessar breytingar opna á?
Hér er aðeins verið að hvetja til þess að við skoðum með opnum huga hvernig við getum
þjónað fólki sem býr við mismunandi aðstæður sem best. Hvetja til þess að við hlustum,
skoðum og reynum að skilja betur fólk, þarfir þess og umhverfi. Það er nefnilega svo fátt
sem er sjálfgefið í dag og beinlínis hættulegt að taka einhverju sem gefnum hlut.
Það er samkeppni um tíma fólks og það er mikil samkeppni um athygli. Kirkjan er í þeim
skilningi í samkeppni um tíma og pláss í lífi fólks.
Á undanförnum kirkjuþingum hafa verið lögð fram mál sem á einn eða annan hátt snúast
um skoðun á áherslum kirkjunnar, athugun á stefnu og skilgreiningu á þjónustu. Eða með
öðrum orðum, hvar erum við og hvert eigum við að fara? Öll slík mál hafa verið lögð fram
af góðum hug af fólki sem vill kirkjunni vel og hefur á því áhuga á starfsemi hennar sé
árangursrík.
Stundum hefur mér þótt að margar af þessum tillögum snúist um of lítinn hluta af
starfsemi þjóðkirkjunnar og að ekki sé líklegt að nægur árangur verði af því sem þar er lagt
til. Ekki af því að það skorti áhuga eða góðan vilja heldur af því að það skorti grundvallar
hugmyndafræði til að byggja stefnumótunina á.
Á þessu þingi eru til umræðu mál sem varða stefnu þjóðkirkjunnar. Mikilvægt er þau
verði skoðuð í samhengi og niðurstaða þeirra verði grundvölluð á skýrri sýn á það hvernig
kirkjan rækir hlutverk sitt sem best. Það er mikilvægt að allt það sem varðar hverskonar
stefnumótun sé vel samræmt.
Umræða um stefnumál þjóðkirkjunnar verður ekki verri þó staldrað sé við og það skoðað
hvort þær aðferðir sem hafa komið okkur hingað muni duga til að koma okkur þangað.
Mjög mörg fyrirtæki gera á því kannanir hvernig viðskiptavinum þeirra líkar þjónustan.
Er ekki nauðsynlegt fyrir þjóðkirkjuna að vita hvernig fólki finnst hún uppfylla þær