Orð og tunga - 01.06.2001, Page 71
Jón Hilmar Jónsson
Staða orðasambanda í orðabókarlýsingu
1 Orðasambönd sem einingar og viðfangsefni
í orðabókum
Orðasambönd af ýmsu tagi eru mikilvægar einingar í flestum almennum orðabókum.
Hlutverk þeirra í orðabókartextanum er oft í því fólgið að vitna um notkunareinkenni
orðsins sem verið er að lýsa, gjarna til glöggvunar á umsögn um merkingu þess eða
tiltekið merkingarafbrigði. En orðasambönd geta einnig verið tilgreind sem sjálfstæð-
ar einingar, óháð merkingarlegri flokkun og greiningu. Hér ræður mestu hvers eðlis
orðasambandið er, sjálfstæði þess er að öðru jöfnu meira því fastmótaðra sem það er
og því sjálfstæðari merkingu sem það hefur gagnvart orðunum sem það er myndað úr.
Önnur hlið málsins er sú að fastmótuð og sjálfstæð orðasambönd hafa meira og skýrara
uppflettigildi en þau sem lausari eru í sér, og notendur geta fremur vænst þess að finna
þau í orðabókartextanum. Á hinn bóginn getur verið óljósara hvar slíkum orðasam-
böndum er fyrir komið, bæði gagnvart flettiorðaskipan orðabókarinnar og innan þeirrar
efnisskipanar sem höfð er á lýsingu viðkomandi flettiorðs. Það hefur því löngum verið
vandkvæðum bundið að ganga að tilteknum orðasamböndum vísum í almennri orða-
bókarlýsingu og að sama skapi reynst torvelt að fá yfirsýn um notkun og stöðu einstakra
orða í slíkum samböndum. Þessi vandi snýr einnig að þeim sem skipar efni orðabókar-
innar og semur orðabókartextann og veldur því að hlutur orðasambanda verður víðast
óskýrari og rýrari en vera ætti og margir notendur vildu. Af þessum sökum hafa verið
samdar orðabækur um orðasambönd sérstaklega, þar sem þeim eru gerð rækilegri skil
en kosturer á í almennri orðabókarlýsingu (sjá m.a. Cowie 1998: 15-18, 209-228).
Um þetta efni verður nánar fjallað í þeirri grein sem hér fer á eftir. Fyrst verður
vikið að tengslum orðasambanda og notkunardæma en síðan gerð grein fyrir formi og
framsetningu orðasambanda í orðabókum. Þá verður fjallað um stöðu orðasambanda í
orðbundinni orðabókarlýsingu, bæði gagnvart skipan flettiorða og innri skipan orðlýs-
ingarinnar. Þar er annars vegar um að ræða almenna merkingarmiðaða lýsingu, þar sem
merking og merkingarfjölbreytni orðsins er í fyrirrúmi, hins vegar orðtengslamiðaða
61