Orð og tunga - 01.06.2001, Page 90
80
Orð og tunga
3.5 Staða innan orðsgreina
í hugtakabundinni lýsingu orðasambanda verðurekki nema að takmörkuðu leyti gengið
að skýrum og áþreifanlegum röðunarþáttum þegar ákvarða á innbyrðis skipan orða-
sambandanna innan orðsgreina. Það fer eftir því hversu þröngt eða rúmt hugtakið er
afmarkað og hvernig merkingarvenslum orðasambandanna er háttað hvort og í hvaða
mæli ástæða er til að láta merkingarleg einkenni ráða ferðinni. Ef merkingin er einsleit
reynir minna á slíka flokkun svo að hægara er að vekja athygli á formlegum einkennum,
t.d. stilla saman samböndum sem sýna tilbrigði við sameiginlegan stofn. Setningarlegir
þættir koma einnig til greina í þessu sambandi, t.d. þannig að atviksliðum með sam-
stæðri merkingu sé skipað saman. Þá kemur til álita að gefa gaum að notkunarbundnum
einkennum, sérstaklega að því er varðar viðkvæði og málshætti.
Niðurstöðu slíkrar flokkunar má beina að notendum með þrennum hætti. I fyrsta
lagi getur innbyrðis röð orðasambandanna (þar sem samstæðum samböndum er stillt
saman) ein og sér talað sínu máli. í öðru lagi má koma fyrir skýringum og ábendingum
um einkenni sem eiga við ákveðnar samstæður innan orðsgreinarinnar, jafnvel samfara
heildarflokkun á orðasamböndunum sem greinin hefur að geyma. I þriðja lagi má hugsa
sér að auðkenna sérstaklega orðasambönd tiltekinnar tegundar til að auðvelda notendum
að koma auga á þau óháð efnisskipaninni í heild.
Hér gefst ekki rúm til að gera frekari grein fyrir útfærslu þessarar flokkunar. Þótt
æskilegt sé að ná fram sem mestu samræmi í efnisskipan verður að gera ráð fyrir að
flokkunarþættirnir vegi misjafnlega þungt og móti lýsingu hugtakanna á ólíkan hátt.
Slíkt ósamræmi þarf ekki að vera notendum til mikils óhagræðis, þar sem hugtaksheitið
bindur hverju sinni saman náskylt orðafar og orðsgreinin myndar þannig þétta heild.
Notendur eiga í enn ríkari mæli en gagnvart orðbundinni lýsingu erindi við orðsgreinina
í heild sinni og að sama skapi síður erindi við einstök orðasambönd.
3.6 Heildarskrá um orð og orðasambönd
Hversu vel sem til tekst við val hugtakaheitanna og þá flokkun sem þar er að baki
dugir heitaskráin ekki ein sér til að tryggja notendum aðgang að orðabókarlýsingunni.
Notendur þurfa einnig að geta fetað slóðina að viðeigandi hugtaki út frá hverju því
orðasambandi sem í huga þeirra tilheyrir því merkingarsviði sem þeim leikur forvitni á
að athuga. Til þess dugir ekki annað en stafrófsröðuð heildarskrá um öll orðasambönd
sem orðabókin hefur að geyma. Þótt formsins vegna væri hægt að láta orðasamböndin
mynda eina samfellda skrá er raunhæfara og haganlegra að skipa samböndunum undir
stök orð, þ.e. ákvarða fyrst við hvert orðasamband undir hvaða lykilorð (eitt eða fleiri)
það kæmi og láta lykilorðin síðan mynda samfellda stafrófsraðaða skrá.2 Síðan yrði
orðasamböndunum stafrófsraðað undir hverju lykilorði fyrir sig.
2Hér er notað heitið lykilorð um flettiorð í þessu hlutverki, til aðgreiningarfrá þvíhlutverki sem flettiorð
gegna í orðbundinni lýsingu.