Morgunblaðið - 17.05.2018, Blaðsíða 24
24 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 17. MAÍ 2018
Sindragata 12c | Ísafirði | Sími 456 1300 | smidjan@velsmidjan.is
• Verndar vopnið þitt gegn
flestum skemmdum
• Byggir upp sterka vörn
gegn tæringu
• Verst frosti niður í – 80°C
• Lengir líftíma vopnsins
• Hryndir frá sér ryki
og skotleifum
• Ver vopnið í mjög langan tíma
Smurefni fyrir skotvopn
SVIÐSLJÓS
Guðmundur Magnússon
gudmundur@mbl.is
„Segja má að þessi rannsókn hafi
byrjað árið 1991 með samræðum mín-
um við Pétur Sigurðsso, fyrrum for-
stjóra Landhelgisgæslu Íslands. Þá
kom í ljós að við Pétur höfðum báðir
furðað okkur á því sama, nefnilega
hvernig íslensk yfirvöld fóru að því að
leysa úr þeim verkefnum sem leiddi
af strandi herskipsins Gautaborgar
hér við land 7. nóvember 1718. Þá
þurfti fyrirvaralaust að taka við hátt á
annað hundrað skipbrotsmönnum,
hýsa þá og fæða að minnsta kosti til
sumars 1719 og síðan senda þá utan
til áframhaldandi þjónustu í sjóher
konungs vors. Þetta getur ekki hafa
verið auðvelt í fátæku og strjálbýlu
landi og kominn vetur.“
Þetta eru upphafsorð ritgerðar
Halldórs Baldurssonar til meist-
araprófs í sagnfræði við Háskóla Ís-
lands í byrjun þessa árs, Þegar fylgd-
arskipið fórst. Aðgerðir yfirvalda á
Íslandi vegna strands herskipsins
Gautaborgar á Hraunsskeiði 1718.
Um er að ræða afrakstur margra ára
rannsóknar hans á frumskjölum
málsins, jafnt hér heima sem erlend-
is. Halldór, sem er 75 ára gamall, er
ekki maður einhamur, hann er læknir
að mennt og hefur um árabil verið
einn helsti bæklunarsérfræðingur
hér á landi, doktor í því fagi. Um alda-
mótin var hann í um hálft ár ár læknir
og majór í norska NATO-frið-
argæsluliðinu í Kosovo. Sagnfræði
hefur hins vegar lengi verið ástríða
hans og dró hann sig út úr daglegum
læknisstörfum til að geta sinnt rann-
sóknum og fræðum, þar á meðal há-
skólanámi.
Fékk dagbækur skipsins
Það var með aðstoð Péturs Sig-
urðssonar og danskra kollega hans
sem Halldór fékk í hendur dagbækur
Gautaborgar úr þessari síðustu ferð
skipsins. Þar er sjóferðinni lýst með
færslum oft á dag. Dagbækurnar eru
varðveittar í Ríkisskjalasafni Dan-
merkur sem góðfúslega lét hann fá 35
mm ljósmyndir af hverri síðu í bók-
unum. Könnun Halldórs á sögu
Gautaborgar og aðgerðum íslenskra
yfirvalda vegna strands skipsins var
þó stopul framan af og oft með
margra mánaða og jafnvel nokkurra
ára hléum. hann segir að eftir því sem
hann kynnti sér málið nánar hafi
hann fengið annað og betra álit á yf-
irvöldum þess tíma en hann hafði áð-
ur haft. „Áður hafði ég helst haft í
huga þrálátar deilur og sundrungu
meðal embættismanna landsins í upp-
hafi 18. aldar,“ segir hann. En undir
stjórn nýkomins amtmanns, Norð-
mannsins Níels Fuhrmann, var leyst
úr þeim erfiðu verkefnum sem til
komu vegna strands Gautaborgar, en
það útheimti ekki aðeins samvinnu
embættismanna innbyrðis, heldur
einnig samvinnu embættismanna við
á þriðja hundrað bændur. Yfirvöld á
Íslandi stóðu sig hér með prýði þegar
á reyndi
Vegna styrjaldar milli Dana og
Svía sigldu kaupför Íslandsversl-
unarinnar í skipalestum með her-
skipafylgd á árunum 1714 til 1720.
Gautaborg var eitt þessara fylgdar-
skipa. Það var sænskt að uppruna,
smíðað 1696. Notuðu Svíar skipið í
margar herferðir gegn Rússum og
Dönum á árunum 1700 til 1715 þegar
Danir náðu skipinu á sitt vald.
Vopnabúnaður skipsins auk hand-
vopna var veglegur: 18 tólf punda
fallbyssur, 18 sex punda fallbyssur
og 8 fjögurra punda fallbyssur. Byss-
urnar voru allar steyptar úr járni.
Venjuleg áhöfn Gautaborgar var 250
manns. Í síðustu sjóferðinni sumarið
1718 var áhöfnin þó aðeins 189
manns. Segir Halldór að ótilgreindur
fjöldi sjóliða hafi á síðustu stundu
verið tekinn af Gautaborg til að
manna annað herskip og strandvirki
Kaupmannahafnar. Liðsforingjar um
borð voru flestir danskir, en meiri
hluti háseta var Norðmenn.
Siglingin til Íslands gekk áfallalaust
og kom skipið til Hafnarfjarðar í lok
ágúst eftir að hafa sótt vistir í Kefla-
vík. Að undanteknum stuttum sigl-
ingum til eftirlits og æfinga lá skipið í
Hafnarfirði í nærri tvo mánuði, meðan
kaupskip losuðu farm sinn og tóku
farm til utansiglingar.
Strandar í ofsaveðri
Gautaborg sigldi frá Hafnarfirði og
áleiðis heim 23. október 1718. Nú var
kominn vetur og allra veðra von. Skip-
ið var ekki komið langt frá landi þegar
fárviðri skall á. Það varð fyrir tjóni á
reiða, hraktist upp að suðurströnd Ís-
lands og króaðist inni í Hafnarvík við
Þorlákshöfn. Þar var akkerum varpað
4. nóvember. Öll þrjú siglutré voru
höggvin og felld fyrir borð til að
minnka vindfang og auka þar með lík-
ur á að akkeri héldu. Sunnudaginn 6.
nóvember var kóngsins flagg (Danne-
brog) ásamt bréfi Friis skipherra sett
í tunnu sem var látin reka í land. Í
bréfinu skýrði skipherra frá þeirri
hafsnauð sem hann var í staddur og
bað um að merktur yrði staður þar
sem helst væri björgunarvon, ef hann
neyddist til að hleypa skipsflakinu til
brots.
Mánudaginn 7. nóvember fór skipið
að reka og var greinilegt að akkeri
héldu ekki. Höggvið var á akkeris-
festar og siglt í strand við Hrauns-
skeið á Ölfusi. Neyðar-framsigla hafði
verið reist til að hafa nokkra stjórn á
skipinu. Átta menn úr áhöfninni
drukknuðu í strandinu. Þegar skip-
verjar voru komnir í land, skrifaði
skipherra bréf til Fuhrmanns amt-
manns. Lýsti hann neyð sinni og bað
amtmann að koma sem fyrst ásamt
landfógeta til að gera ráðstafanir til
bjargar skipverjum og til að bjarga
því sem unnt væri af kóngsins eigum.
Þegar bréf skipherrans barst til
Bessastaða var amtmaður staddur í
Skálholti, en Cornelius Wulf land-
fógeti brást röggsamlega við hjálp-
arbeiðninni. Hann kallaði til sín
nokkra landseta konungs ásamt
varalögmanninum Niels Kier. Þeir
héldu að Hrauni í Ölfusi með 56
hesta. Þegar amtmaður frétti af at-
burðunum skrifaði hann þegar bréf
til sýslumanns Árnessýslu, Brynjólfs
Thorlaciusar, og skipaði honum að
fara þegar í stað til Þorlákshafnar og
gera þar viðeigandi ráðstafanir til að
bjarga áhöfn og þeim verðmætum úr
Gautaborg sem unnt væri. Amtmað-
ur kvaðst mundu hitta sýslumanninn
á strandstað og kom þangað að
kvöldi 11. nóvember ásamt landfóg-
eta. Varð Hraun í Ölfusi stjórnstöð
fyrstu aðgerða vegna strandsins.
Sjóliðunum komið fyrir
Nú verður að gera langa sögu
stutta. Að skipan Fuhrmanns hóf
Brynjólfur sýslumaður sjópróf að
Hrauni 15. nóvember. Áhöfnin var
yfirheyrð um það sem gerst hafði og
framburður allra vitna skráður. Jafn-
framt hófst sýslumaður handa um að
skrá og varðveita öll þau verðmæti
sem björguðust úr skipsflakinu.
Ákveðið var að lesa upp fyrir almúg-
ann á viðeigandi stöðum í nágrenninu
tilskipun konungs frá 1705 um hvern-
ig fara skyldi með góss sem bjargað
yrði eða ræki upp við strand svo eng-
inn freistaðist til refsiverðs athæfis,
svo sem þjófnaðar, hilmingar eða
launverslunar. Skylt var heimamönn-
um að aðstoða við björgun og vörslu á
strandgóssinu gegn sanngjarnri
þóknun.
Skipið liðaðist sundur á tveim vik-
um frá strandinu. Fram eftir vetri
var reynt að bjarga verðmætum á
strandstað. Tæki skorti til að rífa
flakið og til að bjarga fallbyssunum.
Þær eru enn einhvers staðar djúpt í
sandinum á Hraunsskeiði og hafa
ýmsir látið sig dreyma um að ná þeim
upp, en það mun vera þrautin þyngri.
Sjóliðarnir 174 sem björguðust
voru dýrmætir menn, sérstaklega
þegar Danakonungs ríki átti í styrj-
öld. Mikilvægt var að koma þeim ut-
an til áframhaldandi þjónustu í sjó-
hernum. Kaupskip sem komu til
landsins 1718 voru farin frá Íslandi.
Því varð að koma skipverjum fyrir á
bæjum þar til unnt yrði að senda þá
til Danmerkur. sem gat í fyrsta lagi
orðið haustið 1719 með þeim kaup-
skipum sem kæmu til landsins sum-
arið 1719, ef stríðið hindraði ekki
siglingar. Amtmaður bað Friis skip-
herra að láta sem fyrst gera skrá yfir
alla skipverja. Þar skyldi tilgreina
hverjir væru sjúkir og yrðu því að
flytjast frá ströndinni, einnig hverjir
væru vanir fiskveiðum svo þeim yrði
komið fyrir við sjávarsíðuna. Greini-
legt er að sjóliðum hefur verið ætlað
að taka þátt í störfum þar sem þeir
hefðu vetursetu. Tókst að finna pláss
fyrir alla skipverjana á bæjum á
svæðinu frá Fljótshlíð til Álftaness.
Liðsforingjar voru vistaðir hjá höfð-
ingjum, á Bessastöðum, hjá Skál-
holtsbiskupi, varalögmanni í Nesi við
Seltjörn og hjá sýslumönnum.
Samkomulag gestanna og heima-
manna um veturinn virðist hafa verið
gott. Sums staðar kannski full gott
því þegar skipbrotsmenn fóru heim
skildu þeir eftir ein 8 lausaleiksbörn.
Íslensku barnsmæðurnar voru
dæmdar í fjársektir því barneignir
utan hjónabands voru refsiverðar.
Barnsfeðurnir heyrðu ekki undir ís-
lenska lögsögu og fóru af landi brott
án eftirmála.
Innlyksa á Íslandi heilan vetur
Í nóvember 1718 fórst danskt herskip við Hraunsskeið í Ölfusi Finna þurfti 174 skipbrotsmönn-
um heimili næstu mánuði Örsmátt og veikt stjórnkerfi á Íslandi réð við þetta margbrotna verkefni
Herskip Á þessu málverki frá því í lok 18. aldar er herskipið Gautaborg sýnt innan um fleiri sænsk herskip á siglingu; það er fimmta skip frá hægri.
Morgunblaðið/Valli
Fræði Sagnfræði er ástríða Halldórs Baldurssonar læknis. Ritgerð hans um
strand Gautaborgar byggist á viðamikilli rannsókn frumskjala málsins.