Læknablaðið

Ukioqatigiit

Læknablaðið - 01.04.2018, Qupperneq 40

Læknablaðið - 01.04.2018, Qupperneq 40
200 LÆKNAblaðið 2018/104 Stefán Sigurkarlsson Hann Hann lést sviplega fyrir aldur fram og enginn flutti beinin heim en þegar hvessa tekur, eftir miðnætti á vorin syngur stundum yfir þúfunni lítill fugl. Ljóðakvöld Læknafélagsins Ferdinand Jónsson Á Þjórsárbökkum áður en stelkurinn vaknar meðan grasið glitrar af dögg þar sem fljótið breiðir úr sér um hjartað streymir friður fjöllin tær í norðri ósnertir jöklar júlínætur angan af sumri Íslands dagrenning blá úr djúpi hugans yfir daga mína yfir dauðann inn í morguninn Úr ljóðabókinni Innsævi Ögmundur Bjarnason Þessar raddir „Eitthvað nýtt! Meira af meistaralegu sullumbulli síbernskunnar“ - Hermann Stefánsson/Sigfús Daðason Þessar raddir: okkur öllum að góðu kunnar. Einatt og aftur biðja þær um meira af meistaralegu sullumbulli síbernskunnar. Og hví ekki það? Annmarkar orðræðunnar eru ofljósir. Við þurfum ekki nema heyra þessar raddir: okkur öllum að góðu kunnar til að skiljast að senn eru þær allar runnar á enda (og orðnar að undirstöðugeira í meistaralegu sullumbulli síbernskunnar) en velsældarár fortakslausrar fyrirhyggjunnar feginsamlega afstaðin. Og einmitt þá keyra þessar raddir: okkur öllum að góðu kunnar að sönnu um bak þvert - og þunnar og þykkar alhæfingar votta það og fleira úr meistaralegu sullumbulli síbernskunnar hve bilið á milli hugvitsins og heimskunnar er hryggilega mjótt. Ljáum því eyra þessum röddum: okkur öllum að góðu kunnar af meistaralegu sullumbulli síbernskunnar. Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir Þú brosir og enn bíðurðu svars. En hvernig get ég skýrt þér frá skugganum, sem aldrei átti að fá að skyggja á bros þitt? Frá því sem aldrei var en verður þó alltaf, því ævilöng augnablik geymast vel í snarköldum faðmi tímans. Hverjar þær sálir sem átt hafa augnablik, þurfa ekki á eilífðinni að halda. Því það eru augnablikin sem mynda eilífðina. Þau raða sér upp í glitrandi þúsundum, öxl við öxl, þar til úr verður tónlistin bak orðunum, ljósið bak augum þínum, eilífðin. Minningarnar sofnuðu ofan á brjóstkassa mínum á meðan við þögðum. Sváfu þar svo létt, líkt og fuglar á vatni, risu og hnigu með hverjum andardrætti – en nú rumskar ein þeirra. Það er sú sem sofið hafði næst hjarta mér, sú allra fallegasta, léttasta. Hún hafði sofið með annan vænginn breiddan yfir kolsvört augun og hana hafði dreymt. Sannarlega hafði hana dreymt. Nú baðar hún út vængjunum, hefur sig til flugs, flögrar til þín, yfir himininn sem enn sefur á milli okkar. Sest á hægri öxl þína, kúrir sig ofan í hálsakotið þitt og nartar í eyra þitt. Hún er blíðmælt og falleg til augnanna, er hún hvíslar: „Manstu? Manstu? Manstu kvöldið, manstu nóttina, manstu morguninn, manstu daginn? Manstu, þá er tíminn hvarf þér sjónum og allt var kvæði, kvæði er hvein og söng sem ýlfrandi stormur í æðum þér? Manstu?“ Og ég sé að þú kinkar kolli, hægt, varlega. Hvernig gætirðu gleymt, þegar minningin hvíslar í eyra þitt, svangur smáfugl um vetur, og ber undursamleg augnablik vel falin undir hverri fjöður. Þú manst. Brot úr sögunni Þú þegir svo fallega Afmælisnefnd LÍ ákvað í tilefni 100 ára afmælis félagsins að fagna því með lúðraþyt og söng allt árið. Eitt atriði á dagskrá var að opna skáldæð kolleganna og sjá hverju skolaði fram. Í marsbyrjun var stóri salurinn í Hlíðasmára 8 tilbúinn eftir gagngerar breytingar, stækkun og nýtt hljóðkerfi. Af þessu tilefni var ákveðið að vígja salinn með fögrum orðum og úr varð ljóðakvöld LÍ. Félagið kallaði eftir skáld- skap frá kollegunum og Ferdinand Jónsson geðlæknir í London, sem gefið hefur út tvær ljóðabækur, hélt utan um dagskrána og lagði á ráðin um þennan gjörn- ing. Þegar upp var staðið stigu 13 læknar/skáld á stokk og fluttu frumsamið efni: ljóð, hefðbundin og óhefðbundin, örsögur og brot úr viðameiri verkum. Læknafélagið bauð upp á vínglas í upphafi kvölds, og kaffi og konfekt í hléinu. Salur var skreyttur með kertum og upplesturinn fór fram fyrir miðjum sal – sem sagt allt til að búa til notalega umgjörð, og Gerður Gröndal stýrði samkomunni. Á annað hundrað gestir mættu þetta föstudagskvöld og nutu orðkynngi og hugarflugs þessara góðu penna úr læknastétt, sem lásu einsog þrautþjálfaðir englar og fipaðist hvergi, enda var þeim vel og lengi fagnað í lok dagskrárinnar. Haft var á orði að skúffur kolleganna væru hvergi nærri tæmdar, og það væru næg skáld og skúffur til halda annað svona kvöld að ári. Þau sem komu fram á ljóðakvöldinu brugðust öll mjög vel við beiðni Læknablaðsins um að fá að birta brot af uppskeru kvöldsins. –VS

x

Læknablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.