Læknablaðið - 01.06.2018, Síða 39
LÆKNAblaðið 2018/104 311
að skoða aðrar leiðir. Það er til mikils að
vinna að rannsaka meðgöngueitrun og
leita leiða til lausna.
Á Íslandi hefur í áratugi verið boðin
skimun fyrir litningagöllum fósturs, frá
um 1978 fyrir konur ≥35 ára en frá 2003
fyrir allar konur. Í dag er orðið mun ein-
faldara að skima fyrir litningagerð fósturs,
nú er það hægt með einfaldri blóðprufu
frá móður. Til greiningar hefur til þessa
þurft að gera inngrip með ástungu í leg
og ýmist tekið sýni frá fylgju eða legvatni,
en slík inngrip fela í sér um 0,5-1% líkur
á fósturláti. Einföld blóðprufa sem gefur
nákvæmar vísbendingar um litningafrávik
er því stórt stökk framávið því þessi aðferð
leiðir til mikillar fækkunar inngripa og
hefur ekki í för með sér hættu á fósturláti.
Þarna er hægt að auka samstarf verulega
þó hvert land hafi sín lög hvað þetta varð-
ar og Noregur er reyndar með þrengri
lagaramma sem takmarkar verulega
hvað má rannsaka miðað við hin Norður-
löndin,“ segir Hildur.
Vinsæl sérgrein meðal kvenna
Þær segja að þótt nýburadauði sé með því
lægsta sem þekkist í heiminum, um fjög-
ur börn af hverjum 1000 fæddum, megi
vissulega gera betur. „Þetta er tvíþætt,“
segir Hulda. „Annars vegar að rannsaka
og finna lausnir á fyrirburafæðingum,
sem eiga stóran þátt í dánartíðninni, en
einnig að rannsaka orsakir þess að full-
burða börn fæðast andvana eða deyja
skömmu eftir fæðingu. Þetta eru mjög fá
börn en í okkar litla samfélagi vegur hvert
tilfelli mjög þungt.“
„Það fæðast líka alltaf nokkur börn
með meðfædda missmíð til dæmis hjarta-
galla, þindarslit eða aðra líkamlega galla
en oft erum við búin að greina vandann
í móðurkviði og erum búin að undirbúa
fæðingu og nýburagjörgæsluna. Þá er
mjög mikill viðbúnaður af hálfu gjör-
gæsludeildar nýbura og það getur skipt
sköpum varðandi horfur barnsins eftir
fæðingu. Þindarslit fósturs getur leitt til
vanþroska í lungum en núna er hægt að
gera aðgerð á fósturskeiði sem dregur úr
þeim vanda. Það felst í aðgerð á fóstrinu í
móðurkviði þar sem tappi er settur í barka
sem leiðir til þess að lungun þenjast betur
út. Það er mikil framför og er þetta ein
af þessum sérhæfðu aðgerðum sem við
erum að tala um. Áherslur sérgreinarinn-
ar „fósturgreining og áhættumeðganga“
eru fósturgreining sem fer fram fyrst og
fremst með ómskoðun með það markmið
að undirbúa sem best komu barnsins sem
þarf á sérstakri aðstoð að halda. Nú eru að
koma upp æ fleiri möguleikar á aðgerðum
á fóstri í móðurkviði til að bæta enn frekar
hag ófædda barnsins. Sérgreinin „fetal
medicine“ er sums staðar nefnd „ma-
ternal-fetal medicine“ og er viðurkennd
undirsérgrein fæðingarlækninga í mörg-
um löndum. Á Íslandi heitir sérgreinin
„Fósturgreining og áhættumeðganga“.
Hér á fæðingardeild Landspítala er sérstök
fósturgreiningardeild og við erum fjórir
læknar sem þar starfa en sinnum jafnframt
einnig öðrum störfum innan fæðinga- og
meðgöngudeilda,“ segir Hildur.
Á Landspítala er í boði fyrri hluti sér-
náms í fæðingarlækningum eða tvö ár og
að sögn Huldu og Hildar hafa sérnáms-
stöðurnar verið fullskipaðar undanfarin
ár. Í undirbúningi er að fá þriðja árið
metið til sérnámsviðurkenningar. „Það
hefur skapast sú hefð að sérnámslæknarn-
ir okkar taka fyrstu tvö árin hér heima
auk eins árs í skurðlækningum og síðan
seinni tvö árin erlendis, oftast í Svíþjóð, og
geta þá sótt um sérfræðiréttindi í fæðinga-
og kvensjúkdómalækningum. Margir taka
svo eitthvað til viðbótar þó það leiði ekki
endilega til réttinda í undirsérgrein en er
engu að síður mikilvæg viðbót við sér-
námið,“ segir Hildur.
Þær segja að fæðingarlækningar séu
orðin kvennagrein að miklum meirihluta.
Hvað veldur er samspil margra þátta að
þeirra sögn. „Það hefur komið fram í rann-
sóknum að konur sæki frekar í sérgreinar
innan læknisfræði þar sem vaktabyrði
er lítil en það stenst ekki þegar kemur að
fæðingarlækningum þar sem vaktabyrði
er mjög þung og konurnar í meirihluta,“
segir Hulda.
„Fæðingarlækningar höfða eflaust
meira til kvenna en við megum heldur
ekki gleyma því að konur eru í meirihluta
meðal útskrifaðra lækna og svo vitum við
að ungu karlmönnunum finnst þeir ekki
jafn velkomnir í þessa grein og ýmsar aðr-
ar. Það er mjög leitt því við viljum gjarn-
an hafa meira jafnvægi milli kynjanna í
greininni.“
Þær segja það einnig hluta af vandan-
um að margar konur vilja síður eða alls
ekki að karlmenn sjái um skoðun þeirra.
„Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því
sem liggja að baki en ef konan vill þetta
ekki verður að virða það þó við læknarnir
getum haft aðrar skoðanir. Þetta er þó ekki
meirihluti kvenna sem hefur þessa afstöðu
en við verðum að virða slíkar óskir sé þess
nokkur kostur,“ segir Hildur.
Margar og flóknar siðferðisspurningar
Siðferðilegar hliðar á fósturrannsóknum
eru flóknar og í dag er hægt að afla ýmis
konar upplýsinga um fóstrið. „Þetta er
mjög flókið mál og verður í rauninni sífellt
Reynir Tómas Geirsson fyrrverandi yfirlæknir fæðingar-
deildar og María Hreinsdóttir ljósmóðir voru heiðruð
fyrir framlag sitt til fæðingarlækninga á fundinum.