Breiðfirðingur - 01.04.1998, Blaðsíða 32
30
BREIÐFIRÐINGUR
kom að hún var forsöguleg, hafði fallið áður en landið var
byggt. Kenningar um að hún hefði hrunið á bæinn og rifið
með sér norðurhlið hans gátu ekki staðist. Skriðan var sjálfur
veggurinn! Húsagerðarmenn á víkingaöld höfðu af aðdáunar-
verðri verklagni fært sér hana í nyt, hlaðið norðurvegginn utan
í hana og sums staðar haft sjálft skriðugrjótið sem undirstöðu.
Þannig er og hluti austurgaflsins myndaður.
Eiríksstaðarústin er afskaplega skýrt og gott dæmi um
hvemig hyggnir landnemar hagnýttu sér aðstæður og náttúruna.
Landrými til bygginga hefur augsýnilega verið lítið úr því að
bærinn er reistur í svo miklum halla og hefur þurft nokkra
verkfræðikunnáttu til að gera sér þennan jarðarskika að góðu.
Langeldur og bæjardyr
Inngangurinn á suðurhlið við vesturgaflinn reyndist einnig
vera misskilningur. Það sem Þorsteini Erlingssyni hafði virst
vera dyrahella var í raun steinn í innri brún veggjarins. Bilið,
sem sást á yfirborðinu og okkur virtist vera inngangur, hafði
Þorsteinn búið til sjálfur.
En hvar hafði þá verið gengið inn í skálann? Utan við
miðjan suðurvegginn og undir hann var hlaðin stétt og dyra-
þrep. Þessum inngangi hafði verið lokað og hlaðið kyrfilega
upp í dymar. Annar inngangur fannst á sömu hlið, en nær
austurgaflinum. Framan við hann var önnur stétt, sem var
meiri að umfangi og náði lengra niður hlíðina, og þar voru
fleiri þrep. Inngangurinn hefur verið færður. Astæðuna fyrir
því fáum við aldrei að vita með fullri vissu.
Ovenjulegt er að finna bæjardymar á miðri langhliðinni. Er
augljóst óhagræði að því, sé langeldurinn þar beint fyrir innan,
því að gjósturinn getur slökkt í glæðunum og dreift reyknum um
húsið. Eins er harla óvenjulegt að finna fleiri en eitt langeldstæði í
skála. Á Eiríksstöðum fundust tvö, eitt í miðjunni, sem áður er
lýst, og hitt undir norðurveggnum austanverðum, mjög sam-
bærilegt að gerð, en helmingi styttra. Verður að telja ósennilegt
að þau hafi verið í notkun samtímis í svo litlum skála.