Breiðfirðingur - 01.04.1998, Blaðsíða 158
156
BREIÐFIRÐINGUR
fékkst þó ekki, fyrr en næst barst póstur, því að þá var ekki um
neina fjölmiðla að ræða og sími hvergi í nálægð. Spánska
veikin geisaði svo seinna þetta haust, og minnist ég hennar
einkum vegna mjög strangrar sóttkvíar, svo að hún barst aldrei
heim í Hvallátur og svo vegna hinna válegu frétta, er af henni
bárust.
Tvö aftakaveður eru mér minnisstæð. Hið fyrra man ég ekki
hvaða ár var, en það var að vetri til og var aftaka norðanrok
eða norðaustan. Mér er það einkum minnisstætt vegna þess
einstæða atburðar, að hrannir af margs konar fiskiseiðum eða
sílum höfðu borist á land, þegar veðrið lægði. Eg minnist teg-
unda eins og ufsa, þorsks, trönusíla, og ég held, að um fleiri
tegundir hafi verið að ræða, svo sem loðnu og fleira, en um
það skal ég ekki fullyrða. En þetta var algjört einsdæmi, og
hef ég ekki heyrt hvorki fyrr né síðar, að slíkt hafi gerst. Hið
síðara ofviðri, sem ég man, er Halaveðrið svokallaða, en þá
fórust tveir togarar á Halamiðum, og fleiri voru mjög hætt
komnir. Við höfðum farið úr Hvallátrum og Skáleyjum og úr
fleiri eyjum til Flateyjar daginn áður eða 7. febrúar 1925 að
mig minnir. Af ferð okkar er ekkert að segja, enda var þá hið
besta veður. En við gistum í Flatey. Um nóttina brast á hið
versta veður. Varð veðurhæðin með ólíkindum og hörkufrost. I
Flatey var þá komin loftskeytastöð. I sambandi við stöðina var
geysihátt mastur, og lágu út frá því stög í allar áttir. Man ég,
að öll stöngin, svo og stögin voru síluð af klaka upp í topp af
sjórokinu, því að ekki var þar um neina snjókomu samfara
rokinu að ræða. Veðrinu slotaði eitthvað síðla dags, en við
komumst ekki heim, fyrr en að viku liðinni. Var það mál elstu
manna í hópnum, að þetta væri i fyrsta og eina sinn, sem þeim
legaðist í heila viku í Flatey.
Hvað viðvíkur launakjörum fólks á þessum tíma, hygg ég,
að algengt vinnumannakaup hafi verið um 300 krónur og
kvenmannskaup helmingi lægra, en eftir stríðið mun kaup
hafa farið eitthvað hækkandi. Vorið 1930 var ég í vegavinnu
norður á Mývatnsheiði, og kaupið var 60 aurar á tímann, eða 6
krónur á dag, því að unnið var í tíu klukkustundir. Af þessu