Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Side 37
B l ó m s t r a n d i k a r t ö f l u r
TMM 2018 · 1 37
Jón Kalman Stefánsson
Blómstrandi kartöflur
– Fáein orð um Ara Jósefsson og
það sem skiptir ekki máli –
Þeir sem deyja ungir eiga það til að breytast í leyndardóm. Eða goðsögulega
stærð. Einkum á það við listamenn sem hverfa snemma úr lífinu, og verða
með tímanum jafnvel þekktastir fyrir verkin sem þeim öðlaðist ekki að semja;
verkin sem dauðinn tók frá okkur. Við hugsum um það sem bjó í þeim en fékk
aldrei að þroskast, sjáum fyrir okkur allt það sem aldrei varð. Þannig byrja
þeir að vaxa í vitund okkar og verða smám saman að leyndardómi, trega,
goðsögulegri stærð. Næstum eins og lífið sé með þeim hætti að hefna sín á
dauðanum. Fyrir að hafa hoggið alltof snemma.
Ari Jósefsson lést sumarið 1964, einungis 25 ára gamall. Féll fyrir borð af
Gullfossi á leið til Íslands. „Fáa menn hefði ég haldið betur fallna til mann-
rauna en Ara Jósefsson“, skrifaði Kjartan Ólafsson í minningargrein í Þjóð-
viljanum, og bætir síðan við: „Hann hafði lifað hratt, og ég myndi segja vel.
Svo var því lokið.“
Hratt og vel – svo var því lokið.
Ég man ekki hvenær ég kynntist skáldskap Ara. Ljóð hans voru ekki í
alfaraleið þegar ég byrjaði fyrir alvöru að lesa skáldskap í upphafi níunda ára-
tugarins. Fyrsta og eina ljóðabók hans, Nei, sem kom út árið 1961 var nánast
ófáanleg, og ég er ekki viss um að hún hafi fundist í bókasafni Keflavíkur,
þangað sem ég sótti lengi vel allt það sem mér fannst skipta máli í lífinu. En af
einhverjum ástæðum þekkti ég til örlaga hans, og hafði það á tilfinningunni
að hann hafi verið eldhugi, bráðefnilegt skáld með brýnt erindi. Og ég vissi að
hann hefði fallið fyrir borð af Gullfossi og drukknað. Heyrði þá sögu að hann
hefði jafnvel verið drukkinn, leikið sér að ganga eftir skipshandriðinu, og …
Ég var bara rétt um tvítugt og fannst það svo stórkostlega harmrænt að ég
tregaði það að Gullfoss væri hættur að sigla – því ég vildi gera það sama og
Ari, vega salt milli lífs og dauða á handriði á höggvandi skipi. Það var þannig
sem skáld átti að lifa. Eða deyja.
Ég er annars ekki frá því að ég hafi kynnst Ara fyrst þegar ég komst yfir
tímaritið Birting í bókasafni Keflavíkur og las þar hið fræga samtal atóm-
skáldanna um stöðu og ekki síður erindi nútímaskáldskapar. Árið var 1958,