Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Side 38
J ó n K a l m a n S t e fá n s s o n
38 TMM 2018 · 1
atómskáldin búin að sprengja burt hindranir í ljóðinu, og heimurinn að
læsast fastur í fimbulkulda kalda stríðsins. Langt og mikið spjall sem mun
varðveitast í bókmenntasögu okkar og endar á fleygum orðum Hannesar
Sigfússonar, um að „tími hins skorinorða ljóðs sé kominn!“
Kannski ein fallegasta og örvæntingarfyllsta yfirlýsing íslenskrar bók-
menntasögu; mælt fram af heitu hjarta, heitri sannfæringu, en af skáldi sem
missteig sig illa í hvert sinn sem það reyndi að fylgja eftir yfirlýsingu sinni
og yrkja skorinort. Skáld hins þunga, tigna, ósjaldan dularfulla myndmáls,
skáld hins óræða dýpis. En þarna, í þessu samtali, stígur Ari fram á svið
bókmenntasögunnar. Ari, Jóhann Hjálmarsson og Jón frá Pálmholti eru
fulltrúar þeirra ungu í samræðunum. Vinirnir Jóhann og Ari, báðir 19 ára,
eru augsýnilega gerólíkir. Ari heldur ákaft fram hinu skorinorða, pólitíska
ljóði, að það eigi að tala skýrt og ákaft til samtímans. Taka þátt í baráttunni.
Jóhann segir á móti að öll list hljóti að hjálpa fólki til að skapa sér betri heim.
„Öll góð list“, segir hann, „hlýtur að vera með fólkinu, og ljóð sem er fagurt
í sinni tjáningu hlýtur að benda fólkinu á rétta leið.“
Ari, sem hafði áður sagt að það væri „móðgun við fólk að bjóða því blóm,
þegar það þarf kartöflur“, svarar vini sínum með því að segja: „Jájá, það eru
bara þessi hlutföll milli blómanna og kartaflanna, sem við vorum að tala um
áðan.“
Jón frá Pálmholti bendir þá á að það sé alveg hægt að láta kartöflurnar
blómstra, Ari grípur það á lofti og svarar: „Alveg rétt. Blómstrandi kartöflur
væru náttúrlega það bezta.“
Blómstrandi kartöflur – það er ljóðabókin Nei. Og kannski náðu fá skáld
betur, utan Dags Sigurðar, að fylgja eftir ákalli Hannesar um hið skorinorða
ljóð, en Ari Jósefsson. Það virðist liggja í augum uppi að slíkur skáldskapur
rímaði við skáldskapargáfu Ara – Nei ber þess skýr merki. Honum tekst þar,
kornungum, að fylla ádeiluna af skáldskap – og skáldskap af ádeilu. Það er
satt að segja fágætur hæfileiki:
Til eru menn sem trúa á yfirburði hvíta kynstofnsins
og mörgum þykir skriðdreki fegurri smíð en jarðýta
Og síðan eitt þekktasta kvæði bókarinnar, Stríð:
Undarlegir eru menn
sem ráða fyrir þjóðum
Þeir berjast fyrir föðurland
eða fyrir hugsjón
og drepa okkur sem eigum
ekkert föðurland nema jörðina
einga hugsjón nema lífið